Færsluflokkur: Bloggar

Hekla Elísabet óskar landsmönnum öllum gleðilegs tvöþúsundogátta.

Kæru lesendur.

Ég vil óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs, og þakka fyrir árið sem er liðið. Þeir sem óska þess að meðtaka þessa kveðju og jafnvel kasta einni slíkri á mig hafa mitt leyfi til að gera slíkt og er bent á athugasemdakerfið hér á þessari síðu.

ástástástástástástástástástástástást..... ástu samlokuna mína? (einn gamall og gulli sleginn)

- Hekla Elísabet


Hekla Elísabet er ein á jóladag.

Jóladagur er alltaf frekar misjafn dagur. Maður er búinn að opna alla pakkana og svona, éta á sig svarthol og vinnur hörðum höndum að því að brjóta niður allt þetta konfekt sem einhvernveginn komst niður í malla. Svo er ekkert í sjónvarpinu nema tónleikar með landi og sonum, þeirri hljómsveit sem ég hef eytt hvað flestum af mínum árum í að reyna að forðast að hlusta á. Hreimur, þessar strípur..... ertu ekki búinn að vera að mjólka þær svolítið?

Annars vil ég þakka öllum kærlega fyrir allar fallegu jólagjafirnar sem ég hef fengið og óska ykkur gleðilegra jóla.

- Hekla Elísabet


Aðfangadags-ávarp.

Góðan dag, kæru landsmenn, og gleðileg jól.

Jól er vissulega hátíð ljóss og friðar, en umfram allt er hún árstíð brjálæðislegra góðra máltíða og sykurvímu, eins og við vitum öll.

Því langar mig að hafa þetta ávarp stutt og fróðlegt, en það inniheldur boðskap sem við þurfum öll á að halda.

Krakkar...

Það er ekki til neitt sem heitir hamborgarahryggur. HamborgaRAhryggur? Kíkið nú í ísskápinn þar sem hann dvelur eflaust í plastumbúðum, og lesið utan á þær. Þar geta glöggir menn séð að þar stendur HAMBORGARHRYGGUR, eins og í Hamborg, borginni Hamborg, þúveist, hvað gerðiru við peningana sem frúin í HAMBORG gaf þér? Ég keypti mér HAMBORGARHRYGG, hann var bleikur.

Þess má einnig til gamans geta fyrir þá sem trúa mér ekki að hamborgARI er gerður úr nautakjöti, oftast, þess vegna er engin tenging þar á milli. Nú er þetta komið á hreint, þá óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla, gleðilegs áts, og gleðilegra gjafa.

- Hekla Elísabet, frúin í Hamborg.


Hekla Elísabet hefur óbeit á jólafríi.

Ég tók þá ákvörðun snemma í þessum mánuði að þessi jól skyldu verða jól jólanna fyrir mig. Ég skildi sko ekki þræla mér út allan desember til þess eins að eignast smá vasapening og sofna ofan í hrúgu af grænum baunum á aðfangadag. Ónei. Ég ætlaði um leið og prófin væru búin að byrja að njóta jólanna eins og ég gerði sem barn. Versla jólagjafir í rólegheitunum, pakka þeim inn og hlusta á jólalög, baka piparkökur, taka til, skreyta húsið og "be merry" eins og kanarnir vilja orða það. Engin vinna og stress, bara kósíheit par ekselans.

En nei.

MÉR DREPLEIÐIST!

ÉG ÞRÁI VINNU! MANNMERGÐ! DÓNALEGA KÚNNA SEM ÖSKRA Á MIG! ÉG VIL SITJA VIÐ KASSA ÞAR TIL EINU ORÐIN SEM EFTIR ERU Í ORÐAFORÐA MÍNUM ERU: "VILTU POKA?" OG "NÆSTI GJÖRÐU SVO VEL"!

Og það er það sem ég ætla að gera! Ég grátbað mömmu um að fá að leysa hana af í nokkra tíma í dag, nú fær hún að lúlla smá og ég fæ að þrífast á eldsneytinu sem jólageðveikin er.

Bless, ég er farin í vinnuna.

..... :D


Hekla Elísabet færir ykkur sannleikann í boði hins viti borna manns.

Gáfaðar konur eru hættulegar og þær ber að varast.

Kona skal ekki hafa sjálfstæðar skoðanir á öðru en fylgihlutum og skóm.

Tali kona um tíðir eða saurlát í þinni návist skulið þér láta í ljós hversu misboðið þér er.

Konur eru ekki lífverur. Þær hafa engin efnaskipti og þeim vaxa ekki líkamshár.

Bara svo þetta sé allt pottó á hreinu.


Sögupróf.

"Aðeins fjórir árgangar komu út af Ármanni á Alþingi því að Baldvin Einarsson lést rétt rúmlega þrítugur af brunasárum (árið 1833) sem hann hlaut þegar eldur kviknaði í sænginni hans."

...Ég veit ekki sko, mér finnst allavega eitthvað ógeðslega fyndið við þetta.

- Hekla Elísabet


játningar járnfrúarinnar.

Það sést ekki í gólfið í herberginu mínu fyrir fötum og drasli.

Ég er að falla í spænsku.

Ég hef tvisvar dottið niður stigann á kaffibarnum, afleiðingarnar eru ör á hnénu og kúla á ökklanum sem ætlar aldrei að hverfa.

Ég er grænmetisæta, ekki vegna samkenndar minnar með dýrum heldur vegna þess að ég hef fyrirgert rétti mínum til að melta kjöt.

Ég leik ógeðslega lítið hlutverk í skólaleikritinu.

Ég er í ræðuliði, en ég gæti samt ekki flutt fyrirlestur fyrir framan 20 manns til að bjarga lífi mínu.

Ég er með glær augnhár.

Ég les blöð á klósettinu, ef kötturinn er ekki búinn að naga þau í sundur.

Ég get ekki átt kærasta.

Ég vaki nánast alltaf frameftir.

Ég elska foreldra mína miklu meira en þau vita.

Ég geri ekki alltaf það besta sem ég get.

Ég er ekki með bílpróf.

Ég vil fá viðurkenningu fyrir það sem ég geri.

Sama hversu mikið kaffi ég drekk, finnst mér það alltaf jafn ógeðslega vont.

Mig langar að búa ein.

Ég skoðaði nýlega myndir af einhverju balli með þemanu "ljótir kjólar". Mér fannst allir kjólarnir ógeðslega flottir.

Ég þoli ekki glæpaþætti.

Nördar heilla mig meira en vöðvatröll.

Partur af því að vilja fá viðurkenningu fyrir það sem ég geri er að fá athugasemdir við bloggin mín.

Ég á virkilega erfitt með að læra stærðfræði.

Ég eyði peningum allt of hratt.

Ég á erfitt með að horfa í augun á fólki sem ég þekki lítið þegar ég tala við það.

Ég hef mjög gaman af flestum raunveruleikaþáttum.

Ég hlusta eiginlega alltaf á sömu tónlistina, og hleypi sjaldan nýrri að.

Ég njósna um fólk á mæspeis.

Ég er mjög matvönd.

Ég þoli illa að sjá mína galla í fari annarra.

Ég brenn í sól þó ég noti sólarvörn nr. 50.

Ekki segja "Sææææll, eigum við að ræða þetta eitthvað? Nei, hélt ekki!" við mig. Ég verð virkilega pirruð.

Mér finnst popp úr potti betra en popp úr örbylgju.

Ég mun aldrei skilja fólk með bíladellu.

Mér líkar illa að vera dæmd fyrirfram.

Ég er slúðurkerling.

Ég verð leið þegar einhver segir að ég líti vel út í dag, vegna þess að þá finnst mér eins og viðkomandi sé að segja að ég líti illa út venjulega.

Náttúrulega hárið mitt er rennislétt. Ég er með permanett.

Ég vildi óska þess að ég þyrfti að nota gleraugu.

Ég hef aldrei farið í ljós.

Ég þarf að fara að sofa.

- Hekla Elísabet, aðeins eitt korn í sandkassanum.

P.s. Mamma, þú mátt ekki kommenta á þetta blogg.


Jesús, Pétur og syngjandi nunnur í svitserland!

Þetta tan er klárlega á heimsmælikvarða!

Hekla Elísabet - Teygir sig í brúnkukremið...


Faraldur í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ!

Ég hélt að gærdagurinn yrði bara ósköp venjulegur dagur, en ég hafði svo sannarlega rangt fyrir mér. Ég varð uppvís að því að heyra ónefnda unga stúlku segja "mig hlakkar til". Það var svosem allt í lagi, en sem forseti málfundarfélagsins fannst mér ég einfaldlega bera þá ábyrgð að þurfa að leiðrétta þennan miður skemmtilega misskilning, svo ég truflaði hana og sagði henni að það réttasta í þessu samhengi væri að segja "ég hlakka til". Mig sveið í hjartað og fékk furðulegan verk í vinstri handlegginn þegar einhver tilkynnti mér það hátíðlega að svo væri ekki, heldur væri það mig eða mér. Deilan endaði sko ekki þarna.

"Ekki myndiru segja HEKLA HLAKKAR TIL er það?!?"

"Hlakkar ÞÚ þá til?!"

"Honum SIGGA hlakkar til!"

"MÉR hlakkar til, OKKUR hlakkar til!"

"MIG hlakkar til að fá þennan misskilning leiðréttan Hekla!"

"Hekla þetta er bara úrelt málfar!"

"MÉR langar að finna íslenskufræðing!"

Þetta var meira en ég þoldi. Hálfur skólinn var alvarlega sýktur af þolfalls- og þágufallssýki! Ég var ráðþrota, og hljóp um allan skólann í örvæntingarfullri leit að löggiltum íslenskufræðingi á vappi, en fann engan slíkan. Allir vinir mínir voru greinilega búnir að ákveða að ég hefði rangt fyrir mér, og ætluðu sko að sanna það fyrir mér. Öll von var úti.

En viti menn! Ég eygði Þorstein skólameistara og Torfi Geir hljóp upp að honum í veikri von um það að hann gæti sannað að ég hefði rangt fyrir mér. En nei. Nei, ó nei.

"Ég hlakka til, Þorsteinn hlakkar til, nefnifall"

Að heyra þessi orð var eins og að heyra hunangsdropa og mjólk drjúpa af himnum ofan. Loksins, LOKSINS. Fjölbrautarskólinn minn er nú að batavegi, þökk sé mér og hinum snjalla Þorsteini. Framtíðaráform mín snúast nú einungis um það að útrýma þessum skelfilegu sjúkdómum fyrir fullt og allt, nefnifalls-nasisminn kemur til bjargar!


Mynd af þágufallssjúkum einstaklingi.


FG-Flensborg

Jæja, í þetta skipti var tapið okkar.

En ég komst að því fyrir fullt og allt að ég get tapað með sæmd.

Enn og aftur fékk ég þó staðfestingu í því að ég er, og verð alltaf, sjúklega tapsár.

En ég brosti, klappaði, tók í hendur og óskaði til hamingju.

Það er eitthvað sem ég hef fram yfir marga.

:)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband