Skóflupælingin

Þegar ég var lítið barn og var á leikskóla, lék ég mér oft í sandkassa eins og leikskólakrakkar gera jú oft, og hafði mjög gaman af. Á leikskóla þessum var hinsvegar ávallt skortur á skóflum, svo að eðlilega var hart slegist um þær og flýttu sér allir út á morgnanna til að ná skóflu. Þeir sem ekki náðu skóflu þurftu svo að treysta á góðmennsku annarra til að deila með sér skóflunum, og skiptast á. Hjá sumum krökkunum var þessi regla í hávegum höfð, en ekki svo mikið hjá öðrum.

Í eitt skiptið fannst mér ég hafa beðið verulega lengi eftir skóflu, og spurði eina stelpuna sem var með svoleiðis hvort ég mætti fá skófluna á eftir henni, og hún játti því. Ég beið og beið, en ekki fékk ég skófluna. Ég vatt mér upp að stelpunni og spurði hvort það væri nú ekki örugglega réttur minn að fá þessa skóflu, en hún þvertók fyrir það, og í þokkabót sagðist hún aldrei hafa lofað mér skóflunni. Það fauk í mig og átökin hófust, og helvítis frekjudollan lét ekki skófluna af hendi. Þá kom fóstra nokkur auga á okkur og kom yfir til okkar. Ég sagði henni alla sólarsöguna og fóstran spurði stúlkuna hvort þetta væri rétt. Hún horfði niður fyrir sig skömmustuleg, og sagði ekki neitt. "Leyfðu Heklu núna að fá skófluna", sagði fóstran. Stelpan rétti loksins fram skófluna.

En mig langaði ekki lengur í þessa skóflu. Ef stúlkan gat ekki séð það hjá sjálfri sér að vera sanngjörn við mig og standa við loforðið sem hún gaf mér mátti hún bara eiga þessa skóflu í friði, og ég myndi bara finna mér mína eigin skóflu. Ég vildi ekki að ástæða þess að ég fengi skófluna væri sú að fóstran hefði neytt stelpuna til að láta mig hafa hana. Þetta var ekki spurning um skóflu, þetta var spurning um stolt!

Mér datt þetta í hug nýlega þegar náinn vinur sagði mér það að ég yrði að hætta eilífri baráttu minni við stoltið. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að taka það til mín. Er ég of stolt? Úttroðin af prinsipp? Hefði ég bara átt að taka djöfuls skófluna og byrja að moka? 

Ég hef þó ekki lent í öðrum eins deilum í langan tíma, sem betur fer. Þessi leikskóli var líka óttalega mikið gettó, þarna lærði ég sko að lifa, prútta og beita skotvopnum. Kemur sér kannski vel næst þegar einhver dissar stoltið mitt.

Þar til næst, lifið heil, því það eru óskir leikskólabarnsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tja... Fer eftir því hversu gaman manni þykir að moka! Ef refsingin bitnar harðast á manni sjálfum, þá á maður bara að taka skófluna og moka að hjartans lyst!

kristin Reynisdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 02:12

2 identicon

held að frekjudollunni sem einokaði skófluna hefði þótt súrara að sjá þig moka ánægða, eftir að "réttlætinu" var fullnægt með utanaðkomandi hjálp.  fátt fer meira í taugarnar á yfirgengilega sjálfhverfu fólki en að sjá aðra gera það sem þá langar, þrátt fyrir frekjuköstin í því (sem eru ekkert annað en stjórntæki á hegðun annarra).

en það er ekki erfitt að skilja að þér hafi þótt skóflumómentið ónýtt.  og sannleikurinn er sá að það er fullt af fullorðnu fólki sem hagar sér svipað og freka stelpan með skófluna, fólk sem sér ekki útfyrir eigin tilfinningar og getur ekki sett sig í spor annarra.   það er sorglegt og bitnar oft á þeim sem síst skyldi.

baun (IP-tala skráð) 28.6.2009 kl. 11:01

3 identicon

Þegar maður er orðin fangi eigin prinsippa og lætur þau hefta sig á einhvern hátt á maður að endurskoða þau. Allt í lagi að hafa stolt en þau verða að koma sér vel fyrir mann sjálfan og ekki er verra að þau komi sér vel fyrir aðra í leiðinni. Veit um mann sem móðgaðist út í skólastjóra í menntaskóla og hætti í náminu rétt fyrir stúdentspróf. Hann er að verða fimmtugur og hefur enn ekki lokið stúdentsprófinu. Það hefur verið honum til tjóns í mörg ár en skólastjórinn er löngu dauður!

kristin Reynisdóttir (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 11:49

4 identicon

Hekla, þú veist ég les alltaf bloggið þitt. Ég er komin út úr skápnum með það. Örlítið erfiðara reyndar að fylgjast með núna úti í Grikklandi.

 Ég er einmitt með ör á enninu eftir að ég var lamin með skóflu hér í den. Ég var ógeðslega vinsæl þegar ég var lítil. Vildi bara koma því á framfæri. 

Hrefna Helga (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband