Færsluflokkur: Bloggar
4.2.2008 | 04:02
Opinbert kvörtunarbréf til kuldabola.
Kæri Kuldaboli.
Ég veit að þú hlýtur að vera í frekar vondu skapi í ljósi þess að jörðin er að hlýna og allt það og þú getur ekkert gert í því, en þetta bara gengur ekki lengur. Þú getur ekki bara tekið alla þína reiði út hér á elsku fróni, þú ert að alveg að fara með okkur öll.
Síðasti fimmtudagur var annasamur dagur fyrir mig og ég var mikið á þönum. Því þurfti ég að notast við hina ómögulegu samgönguleið, strætó. Það sem strætó felur oftast í sér er t.d. löng bið í svokölluðu skýli, þar sem ég eyddi samtals fjörutíu mínútum í bið yfir daginn. Fyrst þegar ég fór út, eða klukkan fjögur, var skítkalt, svo ég fór í peysu, kápu og vettlinga. Það dugaði svosem, eða alveg þar til að líða fór að kvöldi og það fór að kólna. Fyrst fór smá hrollur um mig, svo ég fór inn á Hlemm og beið þar. Þegar ég kom út aftur hljóp ég inn í næsta strætó, því það var orðið svo afskaplega kalt. Þegar ég fór út úr honum aðeins eftir það, og þá í Garðabæ, var orðið svo óbærilega kalt að mig sveið. Ég held þú gerir þér ekki grein fyrir því hversu sársaukafullt það er fyrir kvefað stúlkugrey að sitja í óbærilegum kulda og bíða og bíða á meðan hún finnur frostið bíta hvern krók og kima líkamans og blóðið frjósa í æðum sínum.
Á tímabili var mér svo kalt að ég gat varla hreyft mig, og mig langaði til að gráta en tárin hefðu líklega bara frosið á leiðinni út, svo ég ákvað að sleppa því bara. En nú bið ég þig í einlægni um að hlífa okkur, við höfum ekki gert þér neitt. það eina sem ég bið um er að þú farir ekki lengra en þrjú stig undir frostmark, og þá ég lifað sátt. Svo finnst mér ekkert sniðugt við allan þennan snjó, ég á fullt af fallegum hælaskóm sem ég hef ekki fengið að klæðast svo mánuðum skipti, og í sannleika sagt þá er ég orðin þreytt á því. Stígvél eru alveg sæt stundum, en ég kæri mig ekkert of mikið um þau. Ég vona allavega að þú takir mark á beiðni minni og gerir það sem þú getur. Ég hef trú á því.
Virðingarfyllst,
Hekla Elísabet, fórnarlamb þitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2008 | 04:20
Fjör í fjölbraut.
Eftir langvinn veikindi sem hafa svipt mig allri skólagöngu (og fjórum leiklistaræfingum) í tæpa viku er föstudagurinn formlega genginn í garð, ég er orðin heil heilsu og nú ætlar "kjeeeeddlingin" sko aldeilis að láta að sér kveða.
Morgundagurinn eða.. jú, dagurinn í dag er uppfullur af skemmtilegum ævintýrum, því í dag (þó ég sé tæknilega ekki farin að sofa eða þúveist.. jájá, þið skiljið) ætla ég að rölta niður á nýbýlaveginn og láta gera eitthvað fallegt við hárið á mér, svo ætla ég í bæinn að kaupa eitthvað fallegt á skrokkinn á mér. Þvínæst mun ég taka að mér það hlutverk í fyrsta skipti að vera aðstoðarþjálfari á Dale Carnegie námskeiði, sem er bara svolítið spennandi.
Þegar því er lokið ætla ég að fara í afmæli til ömmu minnar og nöfnu, Elísabetar. Þar mun ég fara með ræðu sem ég er ekki búin að semja, en það reddast. Loks þegar það er búið held ég út á lífið með glæsilegum vinkonum mínum og mæti (vonandi ekki, en samt kannski) blýþunn í vinnuna á laugardaginn.
Lífið er gott. Endum þetta á ljóði eftir þjóðarskáldið Hjálmar, sem kýs þó að ganga undir nafninu "Stjúpbauni" af einhverjum ástæðum. Úps, þarna svipti ég hulunni af leyndardómnum. Jæja, svona hlutir gerast, njótið vel.
Þrír litlir borgarstjórar
voru að máta stóla
Villi plataði einn þeirra
veslinginn hann Óla
Tveir litlir frammarar
féllu út af þingi
Einn stakk hinn í bakið
og þannig dó hann Bingi.
Einn lítill kjósandi
skildi ekki í neinu
allir sem hann kjósti
fóru bara í kleinu.
Og svo eitt í viðbót fyrir ljóðþyrstu gestina í ódýru sætunum þarna aftast, en það er eftir sjálfan Jónas Hallgrímsson, nýbakað úr gröfinni.
Elsku besta Bíónsí
með botn þinn öðrum fegri;
skyldi ég séns þig eiga í
- ef ég væri negri?
- Hekla Elísabet
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.1.2008 | 03:28
VARÚÐ!!! - til stelpna.
Mig langar að deila með ykkur kynsystrum (og jafnvel ykkur karlkyns lesendum) einni sögu af sjálfri mér. Í sumar fór ég út að skemmta mér á menningarnótt með vinkonum mínum. Við vorum búnar að drekka smá en engin af okkur var óhóflega drukkin eða í annarlegu ástandi. Eftir að dagskránni úti lauk, fórum við allar saman á ónefndan bar og fengum okkur bjór. Ég man ekki lengur hvernig það vildi til, hvort einhver bauð okkur upp í glas eða hvort við borguðum sjálfar, enda man ég ekki nema brot og brot frá þessu kvöldi. Eftir að hafa drukkið þennan bjór fór ég að finna óvenjulega mikið á mér og fannst ég allt í einu dauðadrukkin.
Ég gat varla gengið eða komið upp orði, næsta sem ég vissi var að ég var í grátkasti úti á götu og vinkona mín líka. Sem betur fer var önnur vinkonan með fullu viti og náði að koma okkur heim í heilu lagi, og með erfiðismunum náði ég að ganga upp að húsinu mínu úr innkeyrslunni (datt svona sex sinnum á leiðinni) og inn í herbergið mitt þar sem við ældum báðar í bala og grátkasti mínu linnti ekki fyrr en ég var sofnuð. Daginn eftir var allt þokukennt og ég skildi ekki hvernig ég fór að því að verða svona rosalega drukkin, og ég hálf skammaðist mín þegar ég sagði foreldrum mínum og vinum frá því. Flestir voru á því að ég hefði hreinlega orðið ofurölvi á mettíma og ég trúði því alveg næstum sjálf, en það læddist samt að mér sá grunur að einhverju hefði verið laumað í glasið mitt.
Í gær fékk ég símtal frá móður minni, sem ég hafði sagt þessa sögu fyrir löngu, en hún var búin að gleyma því. Hún sagði mér samt sögur af þremur kunningjakonum sínum, sem allar hafa lent í þessu sama. Að fara á bar, drekka lítið en enda uppi eins og hlaupkerlingar í óstöðvandi grátkasti. Ég minnti hana á atvik mitt sem lýsti sér nákvæmlega eins, en þetta er víst einhver nauðgunarpilla sem fer eins og eldur í sinu um skemmtistaði Reykjavíkur, og tilfellum hefur fjölgað til muna upp á síðkastið. Ég var mjög fegin að fá staðfestingu á því að þetta hafi ekki bara verið rugl í mér, og þá sérstaklega að mér hafi verið komið heim í tæka tíð áður en óbermið sem setti þetta í glasið mitt náði mér einni! Því menn sem gera þetta eru greinilega sjúkir.
Það er ekkert mál að lauma svona pillu í glasið þitt ef þú ert ekki varkár. Ekki þiggja drykk frá hverjum sem er, og kauptu heldur bjór í flösku (þó það sé dýrara), því það er erfiðara að lauma pillu ofan í flösku heldur en í glas. Og ef þú kaupir þér drykk í glasi, í guðanna bænum, hafðu augun á glasinu allan tímann því þetta er svo auðvelt. Ef þið sjáið vinkonu ykkar, eða bara einhvern fá þessi einkenni, reynið þá að tala við viðkomandi og ef það er ekki hægt, reynið að senda hana heim. Menn sem gera þetta eru augljóslega ekki heilir á geði, því flestir myndu segja að það væri álíka spennandi að horfa á sjónvarpið á meðan það er slökkt á því eins og að hafa samfarir við rænulausa stúlku.
Stelpur: Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu, takk fyrir lesturinn, og í guðanna bænum, passið ykkur.
Strákar - Bendið vinkonum ykkar á þetta, þið gætuð átt þátt í því að fækka nauðgunum.
- Hekla Elísabet
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.1.2008 | 00:44
Hekla Elísabet er hneyksluð á framgangi mála.
Ólafur fokking Magnússon orðin borgarstjóri?
...Má það?
Heath Ledger látinn í íbúð Mary-Kate Olsen?
...Má það?
Hér eru reglur brotnar í gríð og ergð. Og mér líst ekkert á þetta.
- Hekla Elísabet, frekar áhyggjufull.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2008 | 02:06
Hekla Elísabet rifjar upp fortíðina.
Ég man þegar ég var sjö ára og ég og Sigurgeir frændi fórum með ömmu í Gummó og hún keypti handa okkur sitthvorn sleikjóinn. Svona tívolísleikjó, kringlótta plötu í allskonar sýrulitum. Þegar heim var komið eldaði amma kjötbollur, en við frændsystkinin kepptumst við að ljúka við sleikjóinn sem var nánast ógerlegt þegar maður var svona lítill og kjaftlaus. Nema hvað, Sigurgeir lauk við sleikjóinn sinn á undan mér, og ég var ógeðslega montin og veifaði mínum stolt framan í hann með glettið bros á vör og söng "liggaliggalái" af mestu innlifun. Þá greip Sigurgeir til sinna ráða, tók eina kjötbolluna og kastaði í sleikjóinn, með þeim afleiðingum að hann mölbrotnaði og féll til jarðar. Ég var óhuggandi það sem eftir var kvölds, og Sigurgeir var ansi skömmustulegur.
Þegar ég var tólf ára að byrja á gelgjunni lagði ég upp í langferð með nesti og nýjan maskara ásamt tíðræddum Sigurgeiri frænda og foreldrum hans, Ásu og Svanbergi. Við fórum með Norrænu til Danmerkur og keyrðum á milli landa með fellihýsi í eftirdragi. Eitt kvöldið vorum við á tjaldstæði í Þýskalandi, og kynntumst strák á okkar aldri sem hét Christopher, sem var þýskt óbermi. Okkur samdi nú öllum ágætlega og hann veiddi froska í nálægri tjörn til að sýna okkur, og túristarnir við vorum að sjálfsögðu agndofa yfir þessu náttúruundri, enda engir froskar á Íslandi. Það var ekki fyrr en ég snéri mér við í mesta sakleysi og ætlaði að skreppa á náðhúsið (afskaplega girnilegur ferðakamar) sem þetta gerpi tók frosk og stakk inn á bolinn hjá mér. Ég brást að sjálfsögðu við með tilheyrandi látum og brast í einhverskonar dans með frumbyggjayfirbragði þar til helvítis froskurinn rataði út. Ég læsti mig inni í fellihýsinu og neitaði að tala við hann. Daginn eftir kom hann þó með ís og baðst afsökunar, en ég var ekki alveg tilbúin til þess að fyrirgefa honum.
Þegar ég var fjórtán ára var ég ótrúlega skotin í strák. Við fórum saman á tónleika, gengum um bæinn, fórum heim til mín, horfðum á mynd, svo fórum við í sleik. Fyrsti sleikurinn sko, og mér fannst hann koma alveg ógeðslega seint. Allar hinar stelpurnar í bekknum voru löngu búnar að fara í sleik, í sjötta bekk eða eitthvað. Svo hætti hann að tala við mig, og mér fannst ég vera í geðveikri ástarsorg.
Þegar ég var sextán ára vann ég í Debenhams við að mæla brjóstastærðir. Beta var líka að vinna í Smáralind, í Ice in a bucket, svo við fórum stundum í mat saman og svona, enda vorum við að fara að byrja í sama menntaskólanum og þurftum á stuðningi hvor annarrar að halda. Þegar við fórum mættum á skólasetninguna í Menntaskólanum við Sund leist okkur hreint ekki á blikuna, því þar var ekkert nema ljóshærðar stelpur í diesel buxum. Við lentum sem betur fer saman í bekk og vorum ekki lengi að afla okkur óvinsælda og frægðar, sökum þess hversu ógeðslega óþekkar við vorum og hallærislegar í klæðaburði. Við skrópuðum, lærðum ekki neitt, fórum á fyllerí og oft í sleik á böllum. Þessi önn er mér þó ómetanleg, enda hef ég sjaldan lært jafn margar lexíur á svo stuttum tíma.
Þegar ég var sautján ára fór ég í algjörri blindni í nýjan skóla og fór í prufur fyrir Morfíslið skólans og söngleikinn. Ég komst inn í bæði og var næstum rifnuð úr monti af sjálfri mér. Svo átti ég líka kæró, nýja vini og keppti fullt af ræðukeppnum.
Þegar ég var átján ára var ég alveg ótrúlega hamingjusöm og sátt með minn stað í lífinu, þrátt fyrir brostna sleikjóa, froska, ástarsorg, brjóstamælingar, skróp, fyllerí og óvissu.
- Hekla Elísabet
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2008 | 01:12
Hekla Elísabet fílar geymslur.
Hekla Elísabet says:
GEYMSLUUUR
Silja says:
GEYMSLUUUUR
Hekla Elísabet says:
oh, ég þrái geymslur
Silja says:
hver þráir ekki geymslur.
Hekla Elísabet says:
seeegðu.
Silja says:
aaaa ég þarf að fara í leikfimi á morgun!!
Silja says:
neiii
Hekla Elísabet says:
GEYMSLUUUUR
Hekla Elísabet says:
ég er að spá í að minnka orðaforða minn niður í eitt orð.
Silja says:
haha
Hekla Elísabet says:
GEEEEYYYYMSLUUUUUR
Silja says:
GEYMSLUUUUR
Hekla Elísabet says:
og allir saman nú
Silja says:
GEYYYYYMSLUUUUUUR
Fyrir þá sem ekki hafa séð hina magnþrungnu sjónvarpsauglýsingu fyrir geymslur.com þá er þetta ekkert sniðugt ég hvet þá til að fara út af þessu bloggi núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2008 | 02:08
Hekla Elísabet veit ekki hvað skal segja.
Lagið í Remax auglýsingunni er svo gott að mig langar að hlaupa út og faðma fasteignir.
Ég þoli ekki hárið mitt, það er gjörsamlega óviðráðanlegt, það er enginn litur, permanett, hárvara, spöng, teygja eða rafmagnstæki í heiminum sem getur látið mig hætta að pirrast út í það.
Fataskápurinn minn er fullur af engu.
Ég hlakka til árshátíðarinnar og frumsýningarinnar á "birdcage", það verður þrusugott leikrit.
Ég er afskaplega tómur bloggari.
Á miðvikudaginn fékk ég kort í ræktina. Á fimmtudaginn hrundi ég niður tröppur á nasa og uppskar tognun, sjö fermetra marblett á hægri rasskinnina og hjartalaga brunasár á hnéð.
Buuuuuuuuuumba.
Æji... djöfull er ég samt eitthvað pirruð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.1.2008 | 12:21
Hekla Elísabet er í fjölmiðlafræði.
Ah, þessir tímar eru stórkostlegir. Ég þarf ekki annað en að bauna út úr mér einhverri mega sleikjulegri grein um kvikmyndasíður og svo get ég slugsað að vild.
"Hann heitir Stephen Fry og geðhvarfasýkin!" hrópar Aðalbjörg Helgadóttir.
Elsku Aðalbjörg. Besti kennari í heimi. Algjört fiðrildi.
"Ég set það undir tilkynningar krakkar, svo að þ að sé alveg kýr skýrt."
Hún er vinkona Eli Roth, bauð honum í partí í skólanum um daginn. Aðeins of svalt ef þú spyrð mig.
Nú ríkir þögn! En ég má fara. Aþví að ég er búin.
VEI!
- Hekla Elísabet, á leið í hádegismat
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2008 | 18:25
Hekla Elísabet tjáir sig um bje-eff-eff-gje
"BFFG fundur á föstudaginn 11.janúar kl. 15:10 í stofu A304. Við ætlum að ræða um helgarferðina 18.-20. janúar og skíðaferð. Nýir meðlimir sérstaklega velkomnir.
BFFG stendur fyrir Bindindisfélag FG og er fyrir þá nemendur skólans sem kjósa að drekka ekki áfengi."
"BFFG hélt litlu jól föstudaginn 14. desember. BFFG fékk viðurkenningu frá Ungmennafélagi Íslands fyrir að vera fyrsta opinbera bindindisfélagið í framhaldsskóla og var öllum félögum boðin helgardvöl að Laugum í janúar.
BFFG-ingar gæddu sér síðan á sælgæti í boði Nóa Síríusar og drykkjum frá Vífilfelli. Svo skiptust félagar á pökkum og hlustuðu á Baggalút."
Hver BFFG meðlimur spilaði tvo leiki og þáði svo pizzu og gos á eftir og var það kærkomin næring eftir öll átökin inni í salnum. Það er ekki ofsögum sagt að allir hafi skemmt sér mjög vel og sá sem mætir í fötunum úthverfum á mánudaginn tapaði. Hver skyldi það vera?"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.1.2008 | 22:08
Hekla Elísabet strengir heit í tilefni nýs árs.
Ég ætla að verða tillitssamari.
Ég ætla að verða ljúfari.
Ég ætla að sýna fólki vinalegra viðmót.
Ég ætla að skipuleggja mig vel.
Ég ætla ekki að vera jafn kaldhæðin í daglegu lífi og hugsun.
Ég ætla að koma betur fram við vini mína og fólk almennt.
Ég ætla að vera dugleg.
Ég ætla að styrkja samband mitt við foreldra mína.
Ég ætla að verða hjálplegri á heimilinu.
Ég ætla að hugsa betur um herbergið mitt.
Ég ætla að borða hollari mat og hreyfa mig meira.
Ég ætla ekki að fresta öllu.
Ég ætla að takast á við vandamál í stað þess að hrúga þeim upp og hafa stöðugar áhyggjur.
Ég ætla að gerast aðgengilegri.
Ég ætla að brosa meira.
Ég ætla að hafa hemil á mér þegar áfengi er við hönd.
Ég ætla ekki að vera jafn frek og sjálfselsk.
Ég ætla að hlusta á fjölbreyttari tónlist og sjá fleiri myndir.
Ég ætla að verða mýkri manneskja.
Ég ætla að biðjast afsökunar á því sem ég geri vitlaust.
Ég ætla að viðurkenna mistök mín.
Ég ætla að upplifa nýja hluti.
Ég ætla að hætta að vera bitur.
Ég ætla að skemmta mér betur en nokkru sinni fyrr.
Ég ætla aðeins að breytast til hins betra.
Ég ætla að gefa öðrum séns.
Ég ætla að gera skyldur mínar.
Ég ætla ekki að efast um allt.
Ég ætla að brjóta eigin skel.
Ég ætla að elska sjálfa mig og aðra.
Ég ætla að hætta þessu væli.
Ég ætla að styrkja sjálftraust mitt.
Ég ætla að skrifa í dagbók eins oft og ég get.
Ég ætla að lesa þetta í hvert skipti sem mér finnst ég vera að svíkja sjálfa mig.
Ég ætla að standa við loforð mín.
Örsjaldan hefur mig langað til að vera einhver önnur en ég er, en það var áður en ég áttaði mig á því að það besta sem ég get orðið er betri útgáfa af sjálfri mér.
- Hekla Elísabet
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)