Færsluflokkur: Bloggar
20.11.2009 | 04:06
Kæra dagbók.
Í dag gerði ég lokaverkefnið mitt í módelteikningu. Í miðjum klíðum fékk ég skæða túrverki en kláraði, fór heim, tók þrjár íbúfen, fór í heitt bað, horfði á melrose place og lagði mig í fjóra tíma. Þegar ég vaknaði fór ég í vinnuna.
Eftir vinnu kom Hjalli til mín með múmínálfaskinn í poka. Hann sagðist hafa drepið þennan múmínálf í garðinum mínum. Að sjálfsögðu fór ég í búninginn og naut mín svo svakalega vel í honum að mig langaði ekkert úr honum aftur, svo ég horfði bara á america's next top model í múmínálfabúning og sötraði kók. Eftir að hafa klæðst honum í rúman klukkutíma hellti ég kóki á hann og Hjalli fékk vægt móðursýkiskast. Svo þvoðum við búninginn í baðherbergisvaskinum í sameiningu.
Myndir af mér í múmínálfabúningnum ekki væntanlegar.
MLIA.
Bless!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 18:58
Blöggað á ný.
Mikið andskoti er ég löt. En þá að öðru. Ég á við vandamál að stríða.
Þannig er mál með vexti að ég bý nú á tveimur stöðum, hjá mömmu, og hjá pabba. Eins og ég var nú búin að venjast því vel að búa hérna ein í stóra húsinu, getað dansað nakin við háværa tónlist um miðja nótt og neyta allskyns eiturlyfja í fullkomnu einrúmi (ókei ég gerði það ekki, en ég hefði getað gert það), þá var Adam ekki lengi í paradís. Nú er ég ekki lengur eyland, ég hef endurheimt föður minn og fengið lítinn bróður í kaupbæti. Ekki misskilja mig, báðir eru ágætis gaurar. En þessi bróðir! Hann bara... öskrar og öskrar! Allan daginn! Annaðhvort er hann skríkjandi af gleði, organdi af spenningi eða vitstola af bræði. Þetta er allt gott og blessað á daginn (enda hefur hann oft merkilega hluti að segja) en næturnar eru öllu erfiðari. Ég vakna af meðaltali 1728 sinnum á hverri nóttu við ópin í honum. Nú veit ég að þið mæður þarna úti vorkennið mér eflaust ekki neitt því ég þarf ekki að sinna honum, leyfa honum að taka yfir lífi mínu og gubba á öll fötin mín, en þetta er samt pirrandi og þreytandi til lengdar.
Og svo ef ég vil flýja þetta umhverfi hef ég að vísu annan kost, það er að fara heim til móður minnar. En það er ekki mikið friðsælla umhverfi. Hún heldur hávaðanum að vísu í lágmarki þegar hún er vakandi, en þegar hún sofnar, þá byrjar ballið. Margir myndu halda að hrotur væru einfalt vandamál til að leysa og ráðleggja mér að sofa bara á sófanum. En það er einfaldlega ekki hægt, vegna þess að sófinn er u.þ.b. einum metra frá rúminu sem við móðir mín deilum.. í 37 fermetra íbúð. Og þetta eru engar smá hrotur. Við erum að tala um manneskju sem hljómar eins og múrbrjótur á amfetamínsterum um leið og hún festir svefn. Eina lausnin væri mögulega að fara í útilegu á svölunum, en þá myndi ég örugglega rekast á Einar sem deilir með okkur svölum. Einar er lítill skrýtinn kall sem á lager af tuskudýrum sem ganga fyrir batteríum og hlustar á Útvarp Sögu allan liðlangan daginn. Svona án gríns.
Þó fellur allt í ljúfa löð innan skamms. Ég og mamma erum að fara að flytja í íbúð í Vesturbænum, sem er með TVEIMUR svefnherbergjum. Ójá, það þýðir sko eitt herbergi á mann.
Ég er farin að pakka! Veiiiii!
P.s. þetta er alvöru comeback
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.11.2009 | 18:35
Viktor var óþekkur í afmælinu mínu. Gömul færsla sem ég gleymdi að birta!
Hekla Elísabet says:
já
Hekla Elísabet says:
hver var það aftur sem bakkaði á bílinn hans pabba?
Viktor says:
mmm ég veitekki
Viktor says:
ekkert heyrt um það
Viktor says:
ég fór hinsvegar uppá þak hahah
Viktor says:
og sló Silju
Hekla Elísabet says:
já þú varst uppi á þaki
Viktor says:
og við Örvar reyndum að fá leyfi Örnu til að stunda mök í bílnum hennar
Hekla Elísabet says:
hahahahaha
Viktor says:
og ég reyndi að afklæða Gunnba
Viktor says:
og reyndi að fá Sigga til að viðurkenna að honum líkaði illa við mig
Viktor says:
og fleira og fleira
Viktor says:
fyndið kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.7.2009 | 17:14
Extreme makeover
Í dag ákvað ég að tríta sjálfa mig eins og drottningu. Ég fór í húðhreinsun, andlitsbað, andlitsnudd, plokkun, litun og fótsnyrtingu, og núna líður mér eins og nýrri manneskju. Aðallega samt afþví að ég er með KOLSVARTAR AUGABRÚNIR!
SVARTAR!
SVARTAR AUGABRÚNIR!
SVARTAR AUGABRÚNIR! ÉG ER MEÐ SVARTAR AUGABRÚNIR! GAAAAAAAAAAAAAAHHHHH, SVARTAR AUGABRÚNIR! NEEEEIIIIII ÉG VIL EKKI SVARTAR AUGABRÚNIR, ÉG SAGÐI LJÓSBRÚNAR, LJÓSBRÚNAR! EN Í STAÐINN FÉKK ÉG SVARTAR AUGABRÚNIR! NNNNEEEEEEEEEEEEEEEIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIIII!!!!!!!! OJJJJJJJ ÉG ER SVO LJÓT, UUUUUUUUHUHUHUHUHU.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.6.2009 | 05:06
Skóflupælingin
Þegar ég var lítið barn og var á leikskóla, lék ég mér oft í sandkassa eins og leikskólakrakkar gera jú oft, og hafði mjög gaman af. Á leikskóla þessum var hinsvegar ávallt skortur á skóflum, svo að eðlilega var hart slegist um þær og flýttu sér allir út á morgnanna til að ná skóflu. Þeir sem ekki náðu skóflu þurftu svo að treysta á góðmennsku annarra til að deila með sér skóflunum, og skiptast á. Hjá sumum krökkunum var þessi regla í hávegum höfð, en ekki svo mikið hjá öðrum.
Í eitt skiptið fannst mér ég hafa beðið verulega lengi eftir skóflu, og spurði eina stelpuna sem var með svoleiðis hvort ég mætti fá skófluna á eftir henni, og hún játti því. Ég beið og beið, en ekki fékk ég skófluna. Ég vatt mér upp að stelpunni og spurði hvort það væri nú ekki örugglega réttur minn að fá þessa skóflu, en hún þvertók fyrir það, og í þokkabót sagðist hún aldrei hafa lofað mér skóflunni. Það fauk í mig og átökin hófust, og helvítis frekjudollan lét ekki skófluna af hendi. Þá kom fóstra nokkur auga á okkur og kom yfir til okkar. Ég sagði henni alla sólarsöguna og fóstran spurði stúlkuna hvort þetta væri rétt. Hún horfði niður fyrir sig skömmustuleg, og sagði ekki neitt. "Leyfðu Heklu núna að fá skófluna", sagði fóstran. Stelpan rétti loksins fram skófluna.
En mig langaði ekki lengur í þessa skóflu. Ef stúlkan gat ekki séð það hjá sjálfri sér að vera sanngjörn við mig og standa við loforðið sem hún gaf mér mátti hún bara eiga þessa skóflu í friði, og ég myndi bara finna mér mína eigin skóflu. Ég vildi ekki að ástæða þess að ég fengi skófluna væri sú að fóstran hefði neytt stelpuna til að láta mig hafa hana. Þetta var ekki spurning um skóflu, þetta var spurning um stolt!
Mér datt þetta í hug nýlega þegar náinn vinur sagði mér það að ég yrði að hætta eilífri baráttu minni við stoltið. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að taka það til mín. Er ég of stolt? Úttroðin af prinsipp? Hefði ég bara átt að taka djöfuls skófluna og byrja að moka?
Ég hef þó ekki lent í öðrum eins deilum í langan tíma, sem betur fer. Þessi leikskóli var líka óttalega mikið gettó, þarna lærði ég sko að lifa, prútta og beita skotvopnum. Kemur sér kannski vel næst þegar einhver dissar stoltið mitt.
Þar til næst, lifið heil, því það eru óskir leikskólabarnsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.6.2009 | 13:19
Mjólkursamsalan
Já gott fólk, þó svo að nú sé ég loksins búin að finna mig í náminu er óhætt að segja að það hafi tekið sinn tíma. Á árum áður var það nefnilega þannig að ég hafði eiginlega ekki hugmynd um hvað mig langaði að gera eða hvað væri gott fyrir mig að læra. Þá var það eina sem mér datt í hug að gera það sem ég væri best í, sem þá var að læra tungumál. Til þess að geta valið úr sem flestum tungumálum sótti ég um í Menntaskólanum við Hamrahlíð, og annars vegar Menntaskólann við Sund í varaval. Seinni skólinn var í rauninni valinn af handahófi, enda var ég alveg viss um að ég kæmist inn í MH, en annað kom í ljós. Þann dag er ég fékk neitunarbréfið grét ég mikið, ég er ekki viss um hvort það hafi verið höfnunartilfinningin eða tilhugsunin um það að ég þyrfti að fara í MS. Ljósið í myrkrinu var þó hún Beta vinkona mín sem fyrir nákvæmlega sömu sök endaði í MS, og við lentum saman í bekk.
Ég á aldrei eftir að gleyma skólasetningunni. Við Elísabet vorum ansi fúlar þegar við gengum upp að skólanum. Fyrir utan andyrið komum við auga á furðulegan strák. Hann var hokinn, í flíspeysu og kuldaskóm og var með hvítt hár yfir öllu andlitinu. "Þessi gaur á örugglega eftir að vera eini vinur okkar", sagði Beta í gríni.
Þegar inn var komið litum við Beta í kring um okkur. Hún í gardínupilsi og ég í brúnni lopapeysu. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Hvert sem ég leit voru skinkur, endalaus hafsjór af skinkum af öllum stærðum, gerðum og kynjum, og allar horfðu þær á okkur eins og við værum með fjögur höfuð og grænar bólur. Reyndar er ég nokkuð viss um að við horfðum eins á þær til baka. Ég virti fyrir mér þessa ókunnugu tegund á meðan ég áttaði mig smám saman á því að ég hefði gert stærstu mistök ævi minnar. Þarna átti ég greinilega ekki heima.
Tvær vikur höfðu liðið af skólanum og ennþá höfðu krakkarnir í bekknum ekki haft nein orðaskipti við hvort annað. Við nánari athugun á málinu kom í ljós að við vorum afskaplega sein í þeim málum því hinir busabekkirnir voru þegar farnir að halda bekkjarpartý og létu eins og risastórar fjölskyldur. Því fannst okkur Betu kominn tími á að opna aðeins fyrir samskiptin í hópnum og tókum til máls fyrir utan stærðfræðistofuna einn morguninn. Við kynntum okkur, og Beta ávarpaði svo hópinn. "Eruð þið að vinna einhversstaðar?", spurði hún. Enginn svaraði. Hún spurði aftur. Enginn svaraði. Óttinn leyndi sér ekki í augum þeirra, enginn þorði að hreyfa legg né lið. "...Ég var að vinna í Nóatúni í sumar", náði loks ein stúlkan að stynja upp úr sér. Stórsigur var unninn. Í kjölfarið kynntu hinir sig líka og svöruðu spurningunni. Þá heyrðist úr horninu frá furðulega síðhærða stráknum "Ég er leigumorðingi...". Og þá varð aftur þögn.
Það leið ekki á löngu áður en spá Betu hafði ræst. Furðulegi síðhærði strákurinn var orðinn besti (og eini) vinur okkar í bekknum, hann Hallvarður. Ég stelst hér til að birta bút úr bloggfærslu hans sem skrifuð var í september 2005 eftir að ég og Beta höfðum misboðið bekknum á svo svívirðilegan hátt að enginn vildi tala við okkur, eða bjóða okkur með þegar bekkurinn fór út að borða. Ég skil það samt eiginlega vel, við vorum ógeðslega leiðinlegar. Það var eiginlega orðið uppáhalds sportið okkar.
"Talandi um rússnesku, ástandið í bekknum mínum hefur horfið til hins verra. Þetta er aðeins það sem ég er að skynja í loftinu, en svo lítur út fyrir að bekkurinn sé að skilja misfit-ana tvo (Betu og Heklu) út undan, það finnst mér verulega ljótt, við búum í samfélagi og við eigum að koma vel fram við alla, sama hvernig þær klæða sig.
Það eru til tvenns konar misfits, það eru adorable misfits eins og áður nefndar bekkjar-systur mínar og svo er það hljómsveitin misfits. Fismits kallaði græni púkinn. Fismits. En hvað þýðir það og hvað er ég gaula hér eins og galdranorn frá Grímsfirði?"
Já, við vorum misskildar. Um miðja önn tók einn bekkjarbróðir okkar upp á því að koma með skopparabolta í skólann, og lék sér flissandi og slefandi að honum allan daginn. Um hádegið fór hann svo út með boltann og fleygði honum langar vegalengdir og sótti hann aftur, svolítið eins og hundur að leika við sjálfan sig. Á endanum kom svo náttúrulega að því að hann fann ekki boltann aftur. "Þorri, hvar er boltinn þinn?" spurði einhver þegar hádegishléið var búið, og ég gekk framhjá. "Hekla borðaði hann!" svaraði Þorri skelfingu lostinn og benti á mig. Ég hló svolítið þar til mér varð ljóst að hann ætlaði sér ekki að segja neinum að hann væri að grínast. Fólk gapti af undrun yfir þessu uppátæki mínu. Nú var ég ekki aðeins frík, heldur frík sem borðaði skopparabolta. Betu fannst þetta drepfyndið og fullyrti að hún hefði séð mig fremja þennan gjörning.
Þetta var ekki í eina skiptið sem ég öðlaðist frægð innan veggja skólans. Maggi vinur minn ákvað einn daginn að taka þátt í keppninni Ungfrú Belja.is (dragkeppni emmessinga), og til þess þurfti hann að fá eitt og annað lánað hjá mér. Ég lánaði honum kjól, farða, krullujárn og brjóstahaldara, og úr varð þessi líka myndarlega kona. Þegar Maggi var búinn að dansa uppi á sviði við Britney lag og grúttapa héldu menn sáttir heim á leið. Mánuði síðar var brjóstahaldarinn minn orðinn partur af sýningu sem listanefndin stóð fyrir og var búið að hengja hann upp ásamt orðum um kúgun kvenna á vegg í miðjum skólanum. Á meðan ég reyndi að púsla saman mögulegum ástæðum fyrir því að bjóstahaldarinn minn væri þarna niðurkominn tókst Betu að sjóða upp eldheitt slúður þess efnis að ég hefði sofið hjá Ásgeiri formanni listanefndar í kjallaranum, og hlaupið svo skömmustuleg og brjóstahaldaralaus út. Ásgeir hefði svo geymt haldarainn til minja, rétt eins og í Öskubuskuævintýrinu. Þessu gleymdu menn seint.
Já góðir lesendur, það var margt sem gerðist á þessari einu önn sem ég eyddi í MS sem vert er að muna eftir, áður en ég gerðist droppát í hálft ár. Ævintýri þessi hafa hér með verið skráð í væntanlega ævisögu mína sem mun koma út í þremur bindum árið 2024 og svo örugglega fleiri í framhaldið af því, vegna þess að ég skrifa alltaf allt of mikið. Með þessari bloggfærslu fylgja svo eftirfarandi myndir sem allar voru teknar á umræddu tímabili, ykkur til yndisauka.
Verið heil og sæl þangað til næst,
Ungfrú Belja.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.6.2009 | 12:40
Túristi?
Neyðin kennir naktri Heklu að spinna mikið fjör. Einhverntíman leiddist mér gífurlega í jólafríi og ákvað að finna mér pennavini. Ég skráði mig á interpals.net og fékk allskonar ófögur og furðuleg skilaboð (þið hafið kannski séð einhver þeirra hér áður), en inn á milli leyndust gullmolar og ekki leið á löngu þar til ég var bara komin með nokkuð góðan pennavin. Til að gera langa sögu stutta kom Daniel Gochi, pennavinur minn til Íslands þarseinasta sunnudag, og er ég búin að vera í leiðsögu-leik síðan þá. Ég hef sýnt honum íslenskar kvikmyndir, söfn, veitingastaði, þjóðargersemar, tónlist, náttúru, næturlíf og fallegar íslenskar konur. Einnig hafa vinir mínir og fjölskylda verið mjög dugleg við að aðstoða mig við að gera ferð hans ógleymanlega, og staðið sig svo vel að ég held að drengurinn fari bara ekkert heim til sín aftur. Þó eru nokkrir fróðleiksmolar yfir ferli sem ég leyfi mér að setja spurningarmerki við..
"I am putting this CD on to enhance your experience."
"This is Öskjuhlíð. This is where rapists take the women and rape them."
"Do you want to see where they used to drown the sluts?"
"This is Perlan. It was made out of.... watertanks. My fermingarveisla was here."
"This is Smáralind, the biggest mall in Iceland. It's shaped like a penis."
"This is a statue of Skúli Magnússon... apparently he was a president"
(las Skúli Magnússon, forseti)
"President is forseti in Icelandic, right? Doesn't this one say fógeti?"
"Yes...... yes it does."
*vandræðaleg þögn*
"Have you listened to Ólafur Arnalds?"
- "Yes!"
"Well he's sitting right behind you"
"This comedian is actually a lawyer. And the next one is Halldór Laxness' grandson."
"This is Hallgrímskirkja. It looks like it has a big green condom right now."
Nú ætla ég að sýna Daniel Hveragerði, Varmá, Elliðárdal og Perluna. Vúhú!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2009 | 04:21
Mikið er ég fegin því..
Að vera ekki keppandi í Ungfrú Ísland akkurat núna. Fyrir það fyrsta væri mér t.d. með öllu óheimilt að skrifa þetta blogg akkurat núna.
Í öðru lagi væri ég lögbundin til þess að hlíta ætíð fúslega öllum fyrirmælum, ráðleggingum og ráðgjöf skipuleggjanda varðandi framkomu mína og velferð.
Ég mætti ekki taka myndir af mér með vinkonum mínum á keppnistímabilinu nema með fyrirfram samkomulagi við skipuleggjanda.
Svo ég tali nú ekki um ef ég myndi lenda í einhverju sæti. Sjitt! Þá þyrfti ég að líta nákvæmlega eins út næstu þrjú árin án nokkurra undantekninga, auk þess sem mér væri bannað að fara í slæmt ástand andlega.
Skipuleggjendum keppninnar væri svo leyfilegt að nota allt mynd- og hljóðrænt efni sem þeim áskotnaðist af mér í hvaða tilgangi sem væri án greiðslu.
Myndi ég brjóta eitthvað af þessum reglum og samningnum yrði rift, yrði skipuleggjendum heimilt að gefa hvaða skýringar sem er á brottfalli mínu (Hún er laumu-heróínfíkill! Hún er tvígift og á sextán börn! Hún er raðmorðingi og nekrófíll!)... Svo myndi ég skulda skipuleggjendum minnst 200.000 krónur.
Auk þess sem ég mætti ekki segja neinum frá innihaldi þessa samnings um ókomna framtíð! Hólí sjitt!
Og fyndist mér brotið á mér hefði ég afsalað mér öllum rétti til að lögsækja einn né neinn sem að keppninni kom.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2009 | 20:02
Fréttabréf
Ég er búinn að vera alveg ótrúlega löt við þetta blogg, enda er ég byrjuð að nota facebook í óhóflegu magni. Þar get ég sagt öllum hvað ég er að gera nákvæmlega þegar ég er að gera það, og annaðhvort getur fólk látið sér líka við það eða gert athugasemd við það. Svo get ég potað og farið í koddaslag við alla þá sem mig lystir án þess að þurfa að hitta nokkurn mann í eigin persónu. Sniðug þessi fésbók.
Hvað er að frétta? Í fyrsta lagi hef ég gerst atvinnulaus aumingi, og mér leiðist að viðurkenna það, en það er alveg ótrúlega gaman! Í fyrsta skipti síðan ég var kríli gegni ég nákvæmlega engum skyldum. Ég þarf bókstaflega ekki að hafa áhyggjur af neinu. Svo hittir svo vel á að næstu mánuðina hef ég heimilið mitt algjörlega út af fyrir mig. Hefur það verið prufukeyrt í u.þ.b. þrjár vikur og gengur dásamlega. Enginn vekur mig, sem þýðir að ég get sofið eins og ég vil. Enginn kvartar yfir því að ég vaki lengi frameftir, svo ég læt það eftir mér og hlusta á háværa tónlist, horfi á kvikmyndir, les, fer í bað, elda mat og syng hástöfum.. um hánótt! Það er ógeðslega gaman!
En talandi um brotthvarf föður míns, þá er ástæðan fyrir því einfaldlega sú að ég var að eignast hálfan bróður. Hann er eins og flest önnur smábörn. Hann drekkur, gubbar, kúkar, slefar, grenjar og sefur til skiptis, í nákvæmlega þessari röð. Stundum pissar hann framan á fólk og upp í sjálfan sig, en við skulum ekkert fara nánar út í það. Hann er ofsalega sætur og hefur hlotið nafnið Hrafnkell Máni Aðalsteinsson. Hann er samt ekki rauðhærður, mér til mikils ama.
Einkunnirnar eru komnar í hús og náði ég að sýna mikla yfirburði í meðalmennsku. Því er ég búin að fagna rækilega síðan þá í þessari bongóblíðu sem er búin að grilla mitt rauðhærða skinn síðan á Sunnudaginn.
En við skulum segja þetta gott í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2009 | 17:08
Skinka?
Fyrir rúmu ári síðan bloggaði ég um skilgreiningu á skinkum. Svo bara hélt ég bara áfram að lifa og datt ekki í hug að nokkur myndi lesa þetta (nema kannski þeir 10 sem kíkja á síðuna mína daglega, sumsé vinir og nánasta fjölskylda), en annað kom á daginn og nú er ég að spá í að fela mig undir stofuborði í allan dag því að reiðar skinkur eru búnar að spamma kommentakerfið og eru örugglega á leiðinni hingað, vopnaðar. Aðsóknin á þessa síðu hefur líka rokið upp úr öllu valdi (svona miðað við), núna þarf ég örugglega að hætta að skrifa um túr, þ.e. ef ég lifi þessi ósköp af. Helvítis.
P.s. Það er ekkert að því að vera skinka, svona í stóru samhengi. Ég hef ekkert persónulegt á móti skinkum. Lifið vel, kæru skinkur. Tanið og aflitið að vild, og fariði á tónleika í boði techno.is á Nasa. Og ekki meiða mig.
Kv. Hekla
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)