20.9.2008 | 17:34
Að vera fangi í eigin herbergi
Klukkan þrjú ákvað ég það að ég væri í einu allsherjar banni þar til ég kláraði jarðfræðiverkefnið mitt. Ég mætti ekki klæða mig, ekki fara á klósettið, ekki borða, ekki drekka, ekki horfa á sjónvarpsþátt eða hlusta á lag, hvað þá standa upp.
Tæpum þremur klukkustundum síðar ligg ég hér enn eins og skata að þorna upp, samt alveg að pissa á mig, hungurmorða með legusár, og rétt hálfnuð með helvítis verkefnið.
Farvel, grimma veröld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.9.2008 | 17:47
Menntaskólaball.
Félagsfræði- og íþróttakennarar sem fylgjast með öllu, BUFF að leika fyrir dansi, karlkyns útskriftarnemar sem keppast við að soga andlitin af saklausum busastelpum, fólk dregið inn í "dauðaherbergið", allt er myndað í bak og fyrir, olnbogaskot í brjóstið, sveittir dvergbusar að rekast á mann, of mikill hávaði til að tala saman, veskið blóðmjólkað fyrir það að fá að geyma jakkann minn í fatahenginu, leitað á öllu....
Ég rölti bara yfir á English Pub og fékk mér bjór í góðum félagsskap, enda orðin of gömul fyrir svona lagað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.9.2008 | 17:54
Einelti og heilræði
Ég fór í viðtalið í dag, um eineltið sem ég setti inn færslu um þann 1. sept fyrir þá sem ekki eru búnir að lesa hana. Í viðtalinu benti sálfræðingurinn mér á mynd sem gerð var eftir bókinni "Odd girl out" eftir Rachel Simmons, sem ég hef lesið aðeins úr á netinu. Ég var að ljúka við að horfa á myndina á youtube. Hér er fyrsti hluti www.youtube.com/watch?v=rvS-hZNRRuY og ég mæli með því að allir horfi á þessa mynd. Ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunum sem vakna upp við að horfa á hana, ég er eiginlega ennþá með kökk í hálsinum og hnút í maganum. Þessi mynd er um stelpu sem er útskúfuð frá vinahópnum sínum vegna "misskilnings" sem á sér stað þess að innan og hlutirnir byrja að vinda upp á sig þar til allir eru með í hatrinu og eineltinu. Það er kannski ein minning sem kemur sterkt upp í hugann við áhorfið og það er minning frá því að ég hætti í fyrsta skólanum sem ég var lögð í einelti í og byrjaði í öðrum, þar sem ég lenti í svipuðum atvikum, og man ég sérstaklega vel eftir einu atviki sem ég hef ekki rifjað upp áður en hérna kemur það, haft skal þó í huga að ég hef aldrei tjáð mig um þetta áður, sérstaklega ekki á eins opinberum vettvangi og þessum nema kannski við mömmu mína og nánustu vini...
Þegar ég var í held ég sjöunda bekk í þessum skóla og átti ekki marga vini voru samt margir sem reyndu að ná mér eitthvað út úr skelinni. Ein vinsælasta stelpan í bekknum ákvað að halda upp á afmælið sitt rétt fyrir jól. Hún kom til mín í fatahenginu eftir skóla þegar ég var á leiðinni heim og sagði mér að hún ætlaði að halda upp á afmælið sitt og mér væri boðið en það væri samt ein stelpa sem væri ekki boðið afþví að öllum fyndist hún leiðinleg og hún vildi ekki hafa hana í afmælinu sínu. Ég fékk sting fyrir hjartað því ekki svo löngu áður hafði ég verið þessi manneskja. Í sjokki mínu talaði ég við eina vinkonu mína í skólanum og sagði henni frá því sem hún hafði sagt mér, og mér fyndist þetta ekki rétt enda höfðu afmælisstelpan og sú sem ekki var boðið verið vinkonur. Einhvern veginn barst það sem ég sagði út og þegar sagan hafði tekið á sig fullkomna mynd barst hún þannig til afmælisbarnsins að ég hefði sagt að hún væri léleg vinkona. Ég man ekki hvort þetta var fyrir eða eftir afmælið, ég man ekki einu sinni hvort ég fór í afmælið eða ekki.
Andinn í kring um mig fór fljótt að verða undarlegur og ég fór á jólaball skólans eitt kvöldið og fór svo heim til frænda míns að passa dóttur hans. Stuttu eftir að ég var komin þangað og litla frænka var sofnuð fékk ég símtal frá afmælisbarninu. Hún öskraði og öskraði og spurði hvernig ég dirfðist að halda því fram að hún væri vond vinkona, ég þekkti hana ekki nógu vel til að segja svoleiðis hluti og svo rétti hún símann á milli stelpna sem voru þarna sem öskruðu allar ókvæðisorð að mér þar til ég lagðist í hnipur í sófann og grét og grét, slökkti á símanum og þorði ekki að svara í hann allt jólafríið. Ég hafði verið nógu niðurbrotin fyrir en þetta gerði útslagið og ég lá bara í leti og sleni yfir jólin, og hafði enga löngun til að gera neitt. Ég hafði verið hálf þunglynd síðan í fyrsta skiptið sem ég var lögð í einelti, og var nú orðin ennþá verri. Ég vildi ekki trúa því að þetta ætlaði að endurtaka sig.
Í nokkra daga áður en skólinn byrjaði aftur eftir jólafríið var ég í hálfgerðu kvíðakasti. Ég var viss um að ég myndi ekki lifa það af að fara aftur í skólann og langaði helst að hlaupast á brott og fara aftur í gamla skólann minn. Ég fór þó í skólann aftur en þá var eins og þetta hefði aldrei gerst, og ég var dauðsfegin því að þurfa ekki að takast á við það, í sannleika sagt. Þetta var ekki í síðasta skiptið sem eitthvað svona gerðist. Ég minnist þess þegar ég eignaðist vinkonu sem var nýflutt í hverfið mitt og við vorum mikið saman, þar til að hún fór að vera með annarri stelpu í sama bekk sem var vinsælli en ég og gat þar af leiðandi ekki verið vinkona mín lengur. Einn daginn fór allt rafmagnið af húsinu mínu svo ég rölti yfir til hennar til að fá að hringja í pabba minn. Þær komu báðar til dyra og stóðu í dyragættinni á meðan ég útskýrði mál mitt fyrir þeim, þær sögðu að ég mætti hringja en ég mætti ekki koma inn, því strákarnir í bekknum væru allir í heimsókn, hvað sem það átti svosem að þýða, svo þær komu með símann út til mín og ráku mig svo á dyr.
Já gott fólk, grunnskólaganga er enginn dans á rósum. Ég vil taka það sérstaklega fram að með þessum eineltis-færslum er ég ekki að reyna að fá vorkunn, spila mig sem fórnarlamb, segja að ég hafi aldrei gert neitt ljótt eða væla yfir löngu liðnum hlutum. Mér finnst einfaldlega að það minnsta sem ég get gert er að miðla reynslu minni yfir til þeirra sem eru að lenda í þessu í dag. Þetta er alltaf til, allstaðar. Það getur enginn sem ekki hefur lent í svipuðu gert sér hugmynd um þá sálarangist sem fylgir því að vera lagður í einelti, og það eru ekki allir jafn heppnir og ég að eiga góða fjölskyldu og fólk sem þykir vænt um mann sem styður þá í gegn um það. Þess vegna er ég að skrifa þetta, ég vona að einhver geti leitað eftir styrk í því sem ég hef lent í og komið vel út úr. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að enda þessa færslu því það eru einfaldlega svo mörg skilaboð sem mig langar að koma á framfæri.
Nú hef ég heyrt að seinasta blogg mitt um þetta hafi farið víða, og jafnvel skilað sér til þeirra sem þurfa að þola einelti í dag. Það sem mig langar að segja við þau er eftirfarandi:
Einelti varir ekki að eilífu, og það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari. Það er hægt að öðlast svo marga eftirsóknarverða eiginleika af því sem þú lærir af því að þurfa að grafa þig upp úr erfiðleikum, með hjálp þeirra sem þykja vænt um þig. Þetta kemur að öllum líkindum ekki til með að ásækja þig, heldur frekar þá sem leggja í einelti. Einelti sprettur oftast upp af öfundsýki. Einelti þitt verður ekki til af einhverju sem þú gerir, heldur einhverju sem er að gerast innra með þeim sem leggur í einelti. Andlegt ofbeldi er mun algengara og oft skaðsamlegra en líkamlegt ofbeldi, og einelti er sjaldnast líkamlegt. Sumum finnst þeim þurfa að gera lítið úr öðrum til að upphefja sitt eigið sjálfstraust. Eftir að hafa verið lagður í einelti, er það versta sem maður getur gert sjálfum sér, að halda í reiðina. Besta hefndin felst í því að lifa góðu lífi í sátt við sjálfan sig þegar erfiðið er yfirstigið, sem það er alltaf á endanum.
- Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
11.9.2008 | 02:22
Dauðvona
Ekki samt fyrr en þriðjudaginn 25. september árið 2068, sem er frekar leiðinlegt, því ég á vinkonu sem er yngri en ég og hún á afmæli á þessum degi. Hún fær ekki að fagna greyið stelpan. Þetta frétti ég á http://www.deathclock.com/. Endilega prófið þetta og látið mig vita hvenær ykkar dómsdagur rennur upp svo við getum nú öll skipulagt okkur í samræmi við það.
Og yfir í annað, ég var víst klukkuð... af sjálfri mér.
4 störf sem ég hef unnið:
- Brjóstahaldarasölukona í Debenhams
- Tryggur kassastarfsmaður og frumkvöðull á sviði uppstillinga í Söstrene Grene
- Atvinnuskeinir á Hrafnistu
- Gullkálfur á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg
4 uppáhaldsbíómyndir:
- Paris, je't aime
- United states of Leland
- Guffagrín
- American Beauty
4 staðir sem ég hef búið á:
- Bergstaðarstræti númer eitthvað
- Guðrúnargata 3
- Freyjugata 35
- Langabrekka 4
4 uppáhaldssjónvarpsþættir:
- Sex and the city
- Seinfeld
- Project Runway
- America's next top model
4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
- Ítalía
- Tyrkland
- Þýskaland
- Danmörk
4 síður sem ég skoða daglega:
- www.reykjaviklooks.blogspot.com
- www.stimpillinn.blogspot.com
4 Uppáhaldsmatartegundir:
- Sjávarréttagratín
- Humarsúpa
- Hamborgarhryggurinn á jólunum
- Kornflex, ég lifi ekki án þess.
4 bækur sem ég hef oft lesið:
- Prinsessan sem átti 365 kjóla
- Elsku besta Binna mín
- Andrésblöð (það eru klassa bókmenntir)
- Mýrin (í 10. bekk í grunnskóla, í MS og nú í FG, ekki af því að mér finnst hún skemmtileg)
Og ég klukka:
- Andreu Dögg Sigurðardóttur
- Elísabetu Kristjánsdóttur
- Katrínu Björgu Sighvatsdóttur
- Heiðu Þórðar
:) Góða nótt kæru landsmenn. Ekki gleyma að láta reikna út dómsdaginn, sem átti reyndar að vera í dag en kom aldrei, ég beið og beið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2008 | 06:35
Innblástur...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2008 | 18:54
McDónald
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2008 | 01:36
Vetur, sumar, vor og haust.
Ég vil þakka frábærar viðtökur við seinasta blogginu mínu. En úr slíkum leiðindum yfir í annað gleðiefni, þá er komið haust, og með haustinu kemur skóli, ný tækifæri, vetur og jól, sem er skemmtilegt... en svo ég haldi nú áfram að æða úr einu í annað þá er sumarið mitt búið að vera svo æðislegt að ég bara verð að koma með loka-sumarmyndasyrpuna. Gjössovell.
Hannah fyrir utan Hotel Elegance.. sem við vorum reyndar ekki á en það er önnur saga.
Ég í bátsferð um Tyrkland
Mikil gleði og dans í stofu á Akureyri
Svalir á Akureyri, ég og Katrín
Arna fyrir utan Greifann
Full grófir danstaktar hjá manni..
Smá Badminton í góðviðrinu í Nauthólsvík
Seventís stemning dauðans
Önnur frá Akureyri
Hannah á froðudiskói, gettu hvar!
Þessar dönsuðu í Tyrklandi
Þokkalega grófar!
Ég var bara eitthvað bullandi glöð!
Sólarupprás, Kasper tók þessa mynd víst
Eftir Trentemöller tónleikana, Katrín, ég, Hannah og Sara
Svo hef ég ekki meira. En ég mun alltaf búa að þessum minningum, sem er dýrmætt.
- Hekla Elísabet, frekar væmin í kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.9.2008 | 00:47
Einelti og gleymska
Um daginn var ég beðin um að fara í viðtal. Ekki starfsviðtal, heldur hefðbundið djúpviðtal í rannsóknarskyni hjá sálfræðingi sem er að rannsaka stelpueinelti eftir að hafa kynnt sér bókina "Odd girl out". Sálfræðingur sá er kunningi móður minnar og sagði henni frá verkefninu og spurði hvort hún þekkti eitthvað til í þeim málum, móðir mín sagðist jú þekkja mjög náið stelpu sem hafði orðið fyrir því í fyrri tíð. Það er víst hún ég. Ég var að spá í að fara þetta viðtal því það er nú eitt og annað sem það að hafa verið lögð í einelti hefur gefið mér. Þið haldið kannski að ég sé snælduvitlaus að halda því fram að það sé jákvæður hlutur að ég hafi verið lögð í einelti, en svo er alls ekki. Ég er meira að segja eiginlega dauðsfegin að hafa lent í því. Allavega, reynsla sem gott er að miðla og allt það...
En svo fór ég að hugsa um þetta einelti sem fór mest megnis fram þegar ég var í fimmta bekk.. þá hef ég verið hvað, tíu eða ellefu ára? Allavega. Ég man eiginlega ekkert eftir því. Ég man bara að ég var lögð í einelti, og svona eitt og tvö atvik eins og einu sinni þegar ég fór niður í matsal með nestið mitt og settist við hliðina á stelpunum í bekknum. Þær litu allar á hvor aðra, stóðu upp og settust við annað borð, og ég með mitt saklausa hugarfar hugsaði að þetta væri örugglega bara afþví að það voru of margir við borðið. Ég fór að rifja þetta allt upp með mömmu minni í kvöld, og ég trúi því eiginlega ekki að ég hafi bælt niður svona gífurlega margar minningar. Ég fékk að heyra margt sem ég var löngu búin að gleyma. Ég átti til dæmis eina vinkonu sem kom stundum til mín eftir skóla og við lékum okkur saman. Áður en hún fór minnti hún mig á það að ég mátti samt ekki segja neinum að hún væri að leika við mig. Svo í skólanum lét hún eins og hún þekkti mig ekki, og tók þátt í eineltinu. Þessu var ég löngu búin að gleyma.
Það var víst líka einhver leikur í gangi þar sem allt sem ég snerti var eitrað. Ef þær renndu sér niður í rennibraut og ég í sömu rennibraut á eftir þeim, þá fór enginn aftur í rennibrautina. Ef ég var búin að snerta penna, þá mátti enginn snerta hann á eftir mér. Þetta var grafið og gleymt. Svo áttu líka allir að vera ósammála mér. Ef ég var spurð um álit á einhverju, þá voru allir ósammála mér eftir að ég var búin að lýsa yfir skoðun minni. Ég man reyndar eftir því að oft þegar ég talaði þá var mikið hlegið að því sem ég sagði, því ég notaði svo flókin orð og það þótti ekki kúl. Það skal haft í huga að það voru þó bara stelpur sem tóku þátt í þessu, og ég vildi bara helst leika með strákunum, sem ég gerði.
Ég þoldi þetta lengi vel, en á endanum brotnaði ég víst og treysti mér ekki til að fara í skólann. Það var þá sem mamma arkaði upp á skrifstofu skólastjórans og lýsti því yfir að aleigan hennar gengi í þennan skóla, og það væri verið að eyðileggja hana og í ljósi þess ætlaði hún að taka mig úr skólanum. Ég var tekin úr skólanum í tvær vikur og á endanum fluttum við og ég fór í nýjan skóla. Ég man ekkert eftir þessu heldur. Ég man eftir því að hafa verið tekin úr skóla í einhvern tíma, en ég mundi ekkert af hverju fyrr en mamma rifjaði það upp fyrir mér.
Mér finnst þetta hálf ótrúlegt, að ég sé bara búin að blokka þetta allt út án þess að reyna það. Veit einhver af hverju þetta gerist? En svo ég haldi áfram með smjörið...
Þær stelpur sem stóðu á bak við þetta einelti voru allar teknar í viðtal á meðan ég var heima í einkakennslu (gott að eiga mömmu sem er kennari) og þær spurðar að því hvað það væri í mínu fari sem fengi þær til að koma svona fram við mig. Þá var nú fátt um svör, en eitt af því sem þær svöruðu allar var það að ég talaði svo fullorðinslega, og vildi bara leika við strákana. Það fór víst eitthvað fyrir brjóstið á þeim.
En ég trúi því að hver og ein einasta manneskja sem verður fyrir einhvers konar einelti og líði ekki varanlegan skaða fyrir það verði mun betra fólk fyrir vikið. Auðvitað tók það mig langan tíma að eignast vini eftir þetta, ég þurfti að kynnast sjálfri mér upp á nýtt og íhuga hvernig manneskja ég vildi verða (tímabil sem ég man þó vel eftir). Það eina sem ég var alltaf ákveðin í var að láta þetta ekki buga mig, og að þegar ég yrði eldri skyldu þessar stelpur fá að sjá að þrátt fyrir að þær reyndu að brjóta mig niður, þá sæi ekki á mér. Og viti menn, hér er ég í dag, heilsteyptur einstaklingur, samt ponku rugluð, og sé ekki eftir neinu. Því það er ekki ég sem þarf að lifa með það á samviskunni að hafa eytt heilu ári í að vera vond við einhvern vísvitandi. Ég þarf ekki að rifja það upp hvað ég var illgjarn krakki eða horfast í augu við manneskju sem ég lagði í einelti.
Vildi bara deila þessu hugsanaflæði með ykkur :)
-Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, sörvævor.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.8.2008 | 19:41
Vægast sagt furðuleg framkoma á vinnustað..
Í maí á þessu ári hóf ég störf á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Ég var ekki búin að vera þar lengi þegar ég fann fyrir því hvað mér líkaði vel að vinna þar. Andrúmsloftið var afslappað, samstarfsfólkið var kammó, bjart var yfir öllu og staðsetningin að sjálfsögðu óaðfinnanleg. Ég var að vinna í öllum deildunum, á dagdeild, legudeild og heimaþjónustu. Eftir einn og hálfan mánuð var ég allt í einu tekin af öllum vöktum í heimaþjónustunni en fékk engar útskýringar á því, sama hvern ég spurði og var mér sagt að framvegis yrði ég aðeins á legudeildinni og stöku sinnum á dagdeildinni. Mér fannst það frekar leiðinlegt þar sem starfið sem ég var upphaflega ráðin í var mun fjölbreyttara og skemmtilegra, en ég kvartaði ekki og vann bara mínar vaktir. Þegar kom að því að gera starfssamning tjáði starfsmannastjórinn mér að hún ætlaði aðeins að gera tímabundinn samning til 1. september, eða þar til hún vissi betur hversu mikla vinnu ég gæti tekið að mér í haust, og svo yrði samningurinn minn endurnýjaður. Mér fannst ekkert athugavert við það svo ég skrifaði bara undir.
Í byrjun ágúst, rétt áður en ég hélt til Tyrklands í sumarfrí fór ég á fund með yfirmanninum mínum á dagdeildinni þar sem hún sagði mér að það væri ekki víst að ég gæti haldið áfram á legudeildinni í vetur, því fyrirtækið væri í krísu og til stæði að hafa aðeins faglært fólk á deildinni svo ég skyldi hafa augun opin fyrir nýju starfi en ennþá væri ekkert víst og ég fengi eflaust einhvern uppsagnarfrest. Mér fannst það leitt að heyra þar sem ég var búin að skipuleggja allan næsta vetur með það í huga að ég hefði fasta vinnu á Heilsuverndarstöðinni, en ég ákvað að velta mér ekki upp úr því og skellti mér út í sumarfrí.
Tveimur vikum seinna eftir fríið mitt kom ég í vinnuna á kvöldvakt og ætlaði að skoða vaktaplanið og brá mjög þegar ég tók eftir því að nafnið mitt var hvergi, og enginn sem var að vinna með mér hafði nokkra hugmynd um þetta. Ég var með hnút í maganum alla vaktina, enda erfitt að koma úr fríi og vera slegin í andlitið með blautri tusku sem þessari. Daginn eftir það kallaði yfirmaðurinn minn mig á fund aftur þar sem hún sagði mér það að samningurinn minn yrði ekki endurnýjaður vegna þess að það væri ekkert pláss fyrir mig lengur því deildirnar væru að skiptast í sundur og allt er víst í gasalegu uppnámi.
DAGINN ÁÐUR EN ÉG VERÐ ATVINNULAUS FÆ ÉG AÐ HEYRA ÞETTA.
Og í ofanálag á ég engan rétt á uppsagnarfresti vegna þess að samningurinn minn rennur út á mánudaginn. Ég spurði hana af hverju í ósköpunum hún væri að segja mér þetta fyrst núna. Ástæðan var víst sú að ég væri búinn að vera erlendis og enginn hefði það í sér að trufla mig. Núna er ég sumsé atvinnulaus, að fara að borga 70.000 króna fjarnám, bækur fyrir ég veit ekki hvað mikið, á leið að leigja herbergi í miðbænum (til að vera nálægt vinnunni) og ég er atvinnulaus.
Ég hringdi í VR og sú sem talaði við mig þar sagði að ég væri fullkomlega réttlaus í þessum aðstæðum, fyrst samningurinn minn væri tímabundinn. Þó var hún sammála mér í því að þetta væri gjörsamlega siðlaust og óréttlætanlegt. Og ég er ekki sú eina, kona sem var að vinna á dagdeildinni lenti í því sama, að koma úr sumarfríi og vera allt í einu ekki lengur skráð sem starfsmaður án þess að vita nokkuð til þess að það ætti að láta hana fara. Hún fær þó uppsagnarfrest vegna þess að samningurinn hennar var ekki tímabundinn.
Núna er ég að vinna seinustu vaktina mína hér og er skapi næst að ganga bara út en ég hef ákveðið að vera stærri manneskja en það. Svo komst ég að því bara í gær að búið er að vera að segja upp fólki þarna í stórum stíl, aðallega fólki í stærri stöðum innan fyrirtækisins. Ég las svo frétt á forsíðu 24 stunda í dag þar sem stendur að ég fái víst ekki borgað í lífeyrissjóð eða félagsgjöld heldur? Æji ég veit það ekki. Ég er bara hálf ringluð ennþá eftir þetta allt saman og finnst ég ba illa svikin.
- Hekla Elísabet, atvinnulaus, ráðvillt og fátæk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)