Nokkrar myndir frá Tyrklandi og Akureyri :)

l_f789d57a9db2bb71e417f4a83d17deae

l_d27fd45edb1a4513c1b72b6c889a83ae

Ahhhh. Gott sumar.


Komin heim! Með sögu sem ég skrifaði á meðan ég beið eftir rútu.

Sunnudagurinn 24. ágúst var versti dagur lífs míns. Hér kemur sagan af honum.

P.s. Karlmenn sem vilja helst ekki viðurkenna að konur séu mennskar, fari á blæðingar og skreppi á einstaka klósettferð eru vinsamlegast varaðir við því að lesa þetta blogg.

Ég kom heim af djamminu með Katrínu klukkan tíu mínútur í sjö um morguninn. Okkur langaði gífurlega mikið til að horfa á leikinn sem byrjaði korter í ellefu á Tyrkneskum tíma, en okkur langaði líka alveg afskaplega mikið til að sofa. Þá datt Katrínu sko snjallræði í hug. „Hey! Við getum borðað morgunmat hér, farið svo með vindsængurnar út á strönd og sofið undir sólhlífinni fyrir utan Faros, vaknað svo korter í ellefu og farið beint inn að horfa á leikinn!“. Þetta fannst mér að sjálfsögðu stórkostleg hugmynd, vart þarf að taka fram að það var ekki ennþá runnið af okkur þegar þessi hugdetta leit dagsins ljós. Við borðuðum morgunmat, smurðum á okkur sólarvörn og trítluðum niður á strönd með vindsængurnar. Ég var ekki búin að liggja þar lengur en í sirka sjö mínútur þegar mér varð ljóst að það væri óbærilega heitt og ekki nokkur smuga að festa svefn á slíkri steikingarpönnu. Ég fékk áfall, hljóp út í sjó og kældi mig.

Þegar við vorum loksins búnar að bíða nógu lengi til að horfa á leikinn vorum við orðnar svo myglaðar og þreyttar að við gáfumst upp og stauluðumst upp á herbergi og ég steinrotaðist. Ég vaknaði svo við hungurverki í sundfötum sem vægast sagt lyktuðu og staulaðist á lappir til að komast á klósettið, en þá byrjaði ég á túr. Mér til mikillar skelfingar áttaði ég mig á því að ég var ekki með neina túrtappa, dömubindi eða neitt til að kippa þessu í lag svo ég fór fram og bað stelpurnar um að kíkja út í sjoppuna fyrir utan til að grípa fyrir mig nokkra túrtappa, vatn og einhvern mat. Þær sögðust víst þurfa að fara út að borða fyrst og svo í súpermarkaðinn svo ég sagðist bara geta beðið og bjó til tímabundna lausn á vanda mínum sem verður þó ekki útskýrð frekar hér.

Tveimur klukkutímum síðar komu þær loksins og ég spratt á fætur til að ná í matinn minn. „Hvar er hann!?!?!??!“  öskraði ég og fleygði mér í gólfið eins og óð manneskja. „Hver? Æji heyrðu já, við gleymdum matnum.. og vatninu.. en við keyptum túrtappa!“ Sagði Hannah og henti til mín kassa af túrtöppum sem voru allir allt of andskoti litlir því Tyrkneskar konur eru greinilega með stjarnfræðilega lítil leggöng. Ojæja, ég get svosem lifað með því, hugsaði ég, lagðist niður og vorkenndi mér í svona hálftíma, fór svo í sturtu og lagði mig aftur.

Klukkan sjö var ég nær dauða en lífi af hungri svo ég skipaði stelpunum sem ætluðu að fara að versla að koma með mér á Taj Majal þar sem þú getur fengið himneskan indverskan mat. Þegar við vorum komnar þangað og maturinn kominn á borð var ég svo glöð að ég réði mér ekki fyrir kæti og borðaði svona þrjá bita áður en ég áttaði mig á því að það var ekki allt með felldu. Fimm mínútum síðar varð mér ljóst að þar var greinilega á ferð heiftarleg matareitrun. Ég lét stelpurnar vita af vanda mínum, borgaði fyrir matinn og brunaði út í leigubíl á ljóshraða.

Leigubíllinn kemst ekki alveg að hótelinu svo ég strunsaði áfram í miklu offorsi á tólf sentímetra háum hælum, en þurfti auðvitað að stíga í eitthvað fjandans svarthol á miðri götunni og flaug áfram marga metra og lenti á gangstéttinni og rétt náði að bjarga andlitinu með handleggnum. Ég treysti ekki Tyrkneskum læknum svo ég er búin að greina sjálfa mig, ég er með brákaðan fokkjúputta, tognaðan olnboga og afar rispaðan upphandlegg, auk þess sem ég hlaut mikin sálrænan skaða af þessu sjúklega  vandræðalega atviki. Þegar ég loksins kom upp á hótel lagðist ég upp í rúm og fór að grenja, enda viti mínu fjær af hungri, matareitrun, hita og skömm. 

Stelpurnar hjúkruðu mér með kaldri dós úr míníbarnum og ég hélt áfram að vorkenna mér og horfa á Lost á þýsku. Eftir mikið þras náðu stelpurnar loks að sannfæra mig um það að sama hversu grautfúl ég var væri óásættanlegt að eyða seinasta kvöldinu mínu í Tyrklandi í rúminu með tárin í augunum, svo ég gerði mitt besta til að laga mig til og drullaði mér út með þeim.

Kvöldið var reyndar fínt, við kvöddum allt góða fólkið á Faros (ég held ég hafi aldrei kysst eins marga á kinnina), fórum á alla stóru klúbbana og dönsuðum eins og villidýr á pöllunum, svitnuðum í rusl, borðuðum síðasta nætursnarlið okkar með starfsfólkinu á rokkbar og undir morguninn var ég ein eftir með Chian frá rokkbar og rússnesku kærustunni hans sem heitir Yanna. Við fórum í göngutúr á ströndinni og lögðum okkur saman á sólbekk. Ég kvaddi þau á endanum innilega og hélt heim á leið klukkan sjö um morguninn. Fyrir utan hótelið hitti ég einn af þjónunum á hótelinu sem kom hálf skömmustulegur upp að mér og tjáði mér ást sína, sagðist hingað til hafa verið of feiminn til að tala við mig áður auk þess sem yfirmaður hans hafði bannað sér að tala við mig, svo bauð hann mér svo rausnarlega að kyssa sig en ég afþakkaði pent, skreið upp í og svaf þennan ógeðslega dag af mér. Þessi dagur er reyndar frekar sveittur og ógeðslegur líka, en ég er búin með væl-kvótann svo ég held ég segi það gott í bili.

Hekla Elísabet er farin að drekka mjólk, borða plokkfisk og afeitra sig fá þessu landi, og er afar fegin því að vera komin heim.


Kveðja frá sólbrenndri rauðhærðri diskódís í Tyrklandi

Í dag áttum við nokkuð góðan dag, þó mér til mikillar furðu hafi ég áttað mig á því að ég er sólbrunnin til kaldra kola í hársverðinum. Ég bara steingleymdi að bera á mig þar! Svo treysti ég mér ekki í það að setja gúrkugel í hársvörðinn, það bara hlýtur að vera frekar ógeðslegt. En að deginum í dag...

Ég vaknaði við lætin í stelpunum, ég hafði ætlað mér að sofa til fjögur því ég treysti mér ekki út í sólina fyrr en í fyrsta lagi þá. En þær freistuðu mín með mat, svo við kíktum á Faroes og fengum okkur sjóðandi heitt kjúklinga fajita. Síðan flatmöguðum við á vindsæng í smá stund. Ég meira að segja gerðist svo djörf að fara úr bikinítoppnum og gera heiðarlega tilraun til að hylja brunafarið í kring um það svæði. Ég var þó sú allra seinasta til að láta á það reyna, enda hafa stelpurnar verið berbrjósta mest allan tímann. Ég lá þarna á vindsænginni og langaði endilega til að snúa mér yfir á magann, en ég þorði því ekki því ég var nokkuð viss um að ég myndi detta ofan í og drukkna. Þess vegna bað ég Katrínu um að sýna mér hvernig það var gert. Ég datt samt... en allt í lagi með það. Þegar við ætluðum að synda í land uppgötvaði Katrín sér til mikillar skelfingar að bikinítoppurinn hennar var horfinn. Jább, í tilraun hennar til að sýna mér hvernig ég ætti að snúa mér við á vindsænginni hafði greyið bikinítoppurinn synt óséður á brott og haldið á ný mið (brjóst). Það var frekar fyndið, sérstaklega þegar hún kom í land nokkuð skömmustuleg og jet ski gæjinn reyndi að sjá brjóstin á henni.

Í kvöld langaði mig ekki að gera neitt, enda grautfúl með sólbruna í hársverðinum og flagnandi út um allt í þokkabót. En stelpurnar náðu einhvern veginn að plata mig á eitthvað djamm svo ég lét mig hafa það. Við fórum á frekar furðulegan bar þar sem áfengið var þó ódýrt og helltum (smekklega) í okkur. Það var einhver frekar sköllóttur og ógeðfelldur náungi við barinn að horfa á mig dansa og gefa mér perralegt augnaráð, en ég leiddi það framhjá mér. Ég fór að barnum og pantaði mér kokkteil, og gæjinn reyndi að tala við mig. Ég hristi höfuðið og barþjónninn fylgdist ákafur með því sem á gekk. Hann reyndi og reyndi en ég neitaði og neitaði. Loks sló barþjónninn gæjann í hausinn með kokkteilsjeiker og henti honum út..... ég veit ekki alveg hvað er í gangi í þessu landi en þeir eru afskaplega gjarnir á að reyna að vernda mann þessir Tyrkir. 

Eftir þetta ævintýri fórum við á annan klúbb þar sem gömul kona var að reyna við mig.. já, svona sjötug kerling sem var að vinna á barnum öskraði stöðugt í eyra mér "I love you, I love you!!!!" sem var svona semí krípí en ég lifi það af. Svo dansaði ég dónalega við barþjón og fjórtán ára strákar grátbáðu mig um koss á kinnina. Ég lét það eftir þeim, enda góðmenni mikið. Eftir það fórum við á Crazy Daisy sem er stærsti skemmtistaðurinn hér á landi og ég og Katrín dönsuðum ákaft í búri við góðar undirtektir viðstaddra. Að lokum hentum við okkur á froðudiskó þar sem ég káfaði á magavöðvunum á stæltum gæja, enda inni í froðu þar sem enginn sér neitt. Eftir þetta svaka djamm skutluðum við Katrín okkur í sundlaug hótelsins í öllum fötunum... svo rankaði ég við mér og fattaði að ég var í kjól sem má helst ekki fara í klór, svo ég fór í sturtu og hér er ég nú enn og aftur í lobbýinu um miðja nótt að blogga.

Hey! Um daginn þá hitti ég gæja frá Newcastle. Ég er búin að bíða eftir þessu tækifæri lengi vel, að hitta einhvern frá Newcastle, vegna þess eins að mig langaði að segja við einn slíkan "Hey, did you know there is a street in Iceland called Hnúkasel?" Svo sagði ég honum það, en honum fannst það ekkert sniðugt. Jæja, maður á aldrei að gera sér of miklar væntingar.

Og já, við erum í herbergi númer 341, sumsé three four one, eða "three for one" sem hljómar eins og ágætis díll. Þrjár íslenskar stelpur fyrir eina. Nei mér fannst það bara pínku fyndið..

Ég bið að heilsa öllum!
P.s. Ekki fara á McDonalds í Tyrklandi, það er... ekki gott fyrir mallann. Ég hef mínar heimildir.


Englarnir hans Kalla

Jæja, ég er ennþá í Tyrklandi og ekki laust við að ég sé farin að hlakka pínu til að fara heim, en seinustu dagar hafa þó svosem verið þolanlegir.

Í gær fórum við í vatnsrennibrautagarð og busluðum í fleiri fleiri klukkustundir, ég var þó svo dugleg að bera á mig að í þetta skipti brann ég sko ekki neitt! Ég fór reyndar bara einu sinni í rennibraut... var hrædd við allar hinar, enda rauðhærður hræðslupúki sem vill helst liggja í hnipri undir sólhlíf. Síðan fórum við út að borða því hótelmaturinn er ekki mönnum bjóðandi, og löbbuðum svo um.

Hér í Tyrklandi erum við kallaðar allskyns nöfnum, Powerpuff girls, spice girls, en lang oftast Charlie's Angels.. hahaha. Og á göngu okkar um ströndina í gærkvöldi rákumst við á mann að nafni Charlie sem skráði okkur englana sína í bátsferð um Tyrkland og gaf okkur vænan afslátt sem við þáðum og fórum snemma að sofa. Við vöknuðum eldsnemma í morgun og fengum okkur morgunmat og hlupum svo um borð í bátinn. Þar var allskonar fólk og við tönuðum mest allan tímann. Eða.. stelpurnar tönuðu, enda með sterka húð og sátu uppi á sólbekk makandi á sig kókosolíu og drekkandi bjór á meðan ég sat niðri í fullum skrúða með fýlusvip og hvítvínsglas. Nei ég segi svona, þetta var mjög gaman og við stoppuðum við margar strendur og fengum að svamla aðeins um í sjónum með fiskunum og ég er ennþá með sjóriðu, hahaha.

Í kvöld fórum við svo aftur út að borða á einhvern undarlegan karókíbar þar sem við fengum reyndar allar versta mat ævi okkar, en svo sendi managerinn yfir til okkar frían og vel skreyttan ávaxtabakka, stökk upp á svið og söng lagið "Words" eftir BeeGees, tileinkaði okkur það og veifaði íslenska fánanum í gríð og ergð. Stelpurnar eru núna farnar á djammið en ég bara meika ekki meira djamm og hef ákveðið að eyða kvöldinu í lobbýinu með tölvuna. Mamma hlýtur að vera svaka stolt.

Pabbi, þú verður að elda eitthvað gott þegar ég kem heim, ég sakna matreiðslu þínnar og mun aldrei gera grín að henni framar!
Mamma...... ekki elda handa mér. En þú mátt koma með mér á kaffihús.

Ég kem heim á mánudaginn, þangað til þá, tesekkurler!


Hremmingar á Hotel Poseidon

Jæja, Marmaris er núna að sparka í rassgatið á okkur. Við getum ekki borðað matinn hérna lengur því að eftir smá tíma höfum við komist að því að hann já.. rennur ekki svo ljúflega niður hérna. Þjónarnir á hótelinu eru allir brjálaðir út í okkur og hér kemur sagan af því.

Í gær vorum við að borða kvöldmat og einn þokkalega myndarlegur þjónn kom upp að okkur afskaplega lúmskur og bað um að fá að fara út með Hönnuh. Hún sagði að við skyldum bara allar fara út með honum og þá stakk hann upp á því að hann tæki með sér vin líka, sem var samþykkt, og við hittum þá fyrir utan Migros súpermarkaðinn klukkan ellefu vegna þess að það má enginn sjá að þeir séu að fara út með hótelgestum, enda stranglega bannað. Þeir fóru með okkur á einhvern strandabar, en gerðust svo aðeins of innilegir með stelpunum svo ég stakk upp á því að við myndum fara. Ég sagði við þá að við ætluðum að fara á bar street og við gætum kannski bara hitt þá á morgun því þeir væru að fara að vinna eftir fjóra klukkutíma og hlytu að vera orðnir þreyttir. Þá urðu þeir alveg geeeeðveikt móðgaðir, og líka frekar svekktir yfir að hafa ekki fengið neinn sykur svo þeir strunsuðu í burtu. Núna fáum við ENGA þjónustu á hótelinu okkar og ekkert nema illar augngotur og þeir neituðu meira að segja að selja okkur vatn með kvöldmatnum.

Annars er sólbruninn minn svona nokkuð nálægt því að lagast sem er gleðiefni, þá get ég farið í vatnsgarðinn og buslað eins og slefandi víkingur sem hefur aldrei séð rennibraut áður. Og svo ætlum við víst í bátsferð í kvöld, það verður gott og svalt, ég ætla allavega að skreppa upp á herbergi og leggja mig eða eitthvað, þetta saltleysi er að gera útaf við mig. Og já, við erum orðnar helvíti sleipar í Tyrknesku. Samt ekki svo en þú veist... já, bless.


Ævintýrin á Marmaris

Jæja, nú sit ég niðri í matsal að fela mig undan sólinni og borða morgunmat.. ein... því stelpurnar djömmuðu fram á rauða nótt í gær en ég var svo uppgefin að ég hékk bara heima og horfði á Lost á þýsku, enda held ég að ég deyji ef ég held áfram að djamma eins og innfæddir gera hér. Hér er djammað á hverjum einasta degi, engar undantekningar. Það eina sem er í raun og veru hægt að gera hérna er að djamma, eða horfa á útlenskt sjónvarp uppi á herbergi. Það er mjög erfitt að fá að borða í friði hérna, því allir þjónarnir eru svo skotnir í mér greyin, aldrei séð svona hálf rauðhærða-hálf albínóastelpu áður. Þeir eru alltaf að koma upp að mér og spyrja hvort mig vanti eitthvað, hvort þeir megi frá ímeilið mitt, hvort ég vilji hitta þá á diskóteki í kvöld o.s.frv. Ég veit aldrei hvað ég á að segja svo ég hristi bara höfuðið og segist ekki skilja þá, á íslensku. Þannig nenna þeir fljótt ekki lengur að tala við mig. Svo standa þeir bara í kring um mig og stara, hah.. frekar vandræðalegt, sérstaklega ef þeir vissu hvað ég er að skrifa núna.

En úr þessu í annað, ég lá í leti minni uppi á herbergi í gær á meðan stelpurnar fóru niður í kvöldmat því ég treysti mér engan veginn í að reyna að halda niðri mat. Eftir smá stund komu þær hlaupandi upp og sögðu mér að við ættum stefnumót við heilt fótboltalið. Ég lá þarna í afrískum náttkjól, sveitt og ógeðsleg svo ég hentist fram og skellti á mig smá farða á mettíma á meðan Katrín fór í sturtu. Hún var svo lengi að taka sig til að það var ákveðið að ég og Hannah færum niður fyrst og svo myndi hún fylgja á eftir. Þegar við komum niður leist mér þó ekki á blikuna. Þarna voru allir mennirnir mjög greinilega komnir á fertugsaldurinn, sumir sköllóttir og aðrir reykjandi. Ég hnippti í Hönnuh og sagði henni að þarna væru augljóslega ekki fótboltamenn á ferð, heldur graðir istanbúlar í fríi. Hannah panikkaði þá og sagði "fyrirliðanum" að við myndum hitta þá niðri eftir hálftíma og svo hlupum við upp.

Eftir það hófst mjög furðuleg atburðarrás, þar sem Hannah og Katrín reyndu að finna upp einhverja leið til að stinga þá af. Margar hugmyndir komu upp, eins og að bíða eftir að þeir færu, fara niður og segja þeim að við treystum okkur ekki til að vera einar með fullt af karlmönnum, hringja niður í lobbí og biðja starfsfólkið um að segja þeim að boði þeirra væri hafnað, og margt fleira. Ég neitaði að taka þátt í þessum sirkus í ljósi þess að mér hafði ekki einu sinni verið boðið fyrir það fyrsta. Þær fóru út á svalir og ætluðu að hugsa málin yfir drykk þar en obbobbojj, þá voru þeir á svölunum á móti og bentu og hrópuðu. Hannah panikkaði aftur, dró Katrínu út og sagðist ætla að flýja. Svo spurðist ekkert frá þeim næstu sex klukkustundirnar, en loksins þegar þær komu heim og vöktu mig heyrði ég söguna af því að einhver þjónn hafi hjálpað þeim að flýja í gegn um brunaútganginn. Jább, brunaútganginn.

Þar sem ég er ennþá eins og svínakjöt og þarf að bera á mig gúrkugel á korters fresti og nota handviftu til að kæla mig niður býst ég ekki við því að ég sóli mig mikið í dag, ég var jafnvel að spá í að halda bara áfram að liggja í leti og drekka eins mikið vatn og ég get til að lifa þetta ævintýri af. Já, eitt annað, það má ekki koma með mat og drykk inn á herbergið sem hótelið selur ekki þannig að við erum búnar að smygla inn mörgum lítrum af vatni og svaladrykkjum. Þess vegna getum við ekki látið þrífa herbergið okkar því við erum of hræddar við að þernurnar finni smyglið okkar svo við erum búnar að vera með do not disturb merki á hurðinni í marga daga, þernurnar halda örugglega að við séum einhver sjúkur lesbískur trekantur í dónalegu fríi. Jæja, segjum þetta gott, ég ætla að fara upp og fela smyglið því mig vantar ný handklæði, klósettpappír og rúmföt.

Patafix!
Sem þýðir ekki "bless" á tyrknesku, en það þýðir kennaratyggjó. Á Tyrknesku.
Ummmmm já, bæ.


Meira Tyrkland..............

Og ég er ógeeeeðslega fokking sólbrennd... í alvörunni. Sólarvörn SPF50, tveir klukkutímar á vindsæng, og ég lít út eins og reykt svínakjöt. Farvel fagra veröld.

Myndir og blogg frá Tyrklandi

Jæja, ég er ennþá í Tyrklandi og merkilegt nokk, við erum allar á lífi. Það leit þó ekki alveg út fyrir það í gær. Við fórum á rokkbarinn til vina okkar eins og vanalega en þegar líða fór á kvöldið var Katrín hin villta orðin þreytt á því og langaði á froðudiskó, svo hún og Hannah fóru á froðudiskó með hárprúðum Dönum á meðan ég var eftir á rokkbarnum. Eftir skamma stund komu þær til baka og Katrín afar lemstruð, með glóðarauga og risa skurð á hnénu. Piltarnir lokuðu barnum hið snarasta, settu umbúðir á herlegheitin og við héldum á Katrínu niður alla bar street (löööööng gata) þar sem hún vissi hvorki í þennan heim né annan og blæddi eins og enginn væri morgundagurinn. Kenningin er sú að eitthvað hafi verið sett í glasið hjá henni. Þetta var allavega hálf vandræðalegt í dag þegar við vöknuðum svo við fórum aftur á rokkbarinn, mötuðum þá alla á þjórfé í stórum stíl og báðumst afsökunar. Svo erum við búnar að flatmaga á vindsængum í dag, kíkja aðeins á djammið (edrú í þetta skipti), borða kvöldmat, og já! Lentum líka í hremmingum með pöddu.

Þegar við vorum að taka okkur til fyrir djammið í kvöld kom ég auga á furðulega pöddu sem ég hef aldrei séð áður. Hún var slímug, feit og skreið um veggina en var samt með vængi. Ég fríkaði út og ég og Hannah hlupum niður í leit að hjálp. Fyrsti starfsmaðurinn sem við rákumst á er þjónninn sem er víst ástfanginn að mér eða eitthvað en hann neitaði að hjálpa okkur nema ég kyssti hann. Ég neitaði og fann afar hjálplegan lítinn stökkbreyttan Tyrkja sem kom og gómaði kvikindið. Seinna um kvöldið hringdi staffi svo upp á herbergið og spurðu hvort við þyrftum huggun eftir þetta ævintýri en við afþökkuðum pent. Núna sit ég með grænu fartölvuna mína í náttkjól við sundlaugarbakkann með lappirnar dinglandi í frískandi köldu vatninu og bíð eftir að stelpurnar komi heim af djamminu, ég nennti ekki meir. Nokkrar myndir héðan áður en ég gefst upp og held í bólið.

Ferskar og sætar í flugvélinni áður en hvítvínið var borið fram...

Fyrstu skrefin okkar í Tyrklandi

Á leið á fyrsta djammið!

Þessi þráði mig heitt en fékk þó engan sykur.

Litli vinur okkar á rokkbarnum sem ber í okkur frí skot.

Sund!

Mikil ást á rokkbar.
Bið að heilsa heim...
Tesekkhuler! (Takk á tyrknesku... veit ekki hvernig það á við í þessu samhengi en ókei)


Meira Tyrkland

Jæja, annar dagur í Marmaris og ekkert lát á konunglegu meðferðinni. Við fórum út í gær með nuddaranum á einhvern risa furðulegan klúbb.. þar sem við vorum hvattar til að henda klósettpappír í gríð og ergð fram af svölunum. Þegar við vorum búnar að vera þar og drekka nokkra cosmopolitan fórum við aftur á gamla rokkbarinn þar sem smá misskilningur átti sér stað, Hannah sagði við barþjónavininn okkar að nuddarinn væri búinn að svindla á okkur eða eitthvað og hann gerði sér lítið fyrir og henti honum bara út. Núna forðumst við að labba framhjá spa-inu í hvert skipti sem við yfirgefum herbergið okkar af ótta við að mæta honum, haha. En í dag gerði ég ekki mikið, enda of rauðhærð fyrir 45 stiga hita svo ég dúllaði mér bara uppi á herbergi og stelpurnar fóru í sólbað. Ég reyndar gerði mér ferð út áðan til að sjá Katrínu bruna um á sjóskíðum og núna sit ég niðri því kvöldmaturinn var að byrja að bíða eftir stelpunum. 

Í kvöld skilst mér að við ætlum að kíkja á djammið með sjóskíðagæjunum enda eru þeir mun minna krípí en flestir Tyrkirnir hérna. Núna eru stelpurnar komnar og ég ætla að borða eitthvað. Ég mun láta vita af mér mjög reglulega en þangað til næst, bless!

Ég læt líka vita næst þegar ég kann að segja bless á tyrknesku.


Kveðja frá Tyrklandi

Jæja, þá erum við búnar að dvelja í þessu landi í rúman sólarhring og margt og mikið hefur gerst á þeim tíma. Í gær lentum við í Tyrklandi um sjöleytið á staðartíma en vorum ekki komnar til Marmaris fyrr en um ellefu. Þá fórum við upp á hótelherbergi (stæsta herbergið á öllu hótelinu, jeee) og máluðum aðeins yfir flugvélarljótuna. Þegar því var lokið hófst tveggja tíma leit að aðal skemmtistaðagötunni en á leiðinni þangað vorum við stöðvaðar nokkrum sinnum af mönnum sem vildu ólmir fá okkur inn á strandbarina sína og í eitt skiptið gáfum við eftir, en þá fengum við okkur bjór og horfðum á stælta pilta dansa berir að ofan á sviðinu, svo toguðu þeir okkur upp í smá konga, eftir það fengum við að sjá ansi forvitnilega Michael Jackson eftirhermu sem vann víst "So you think you can dance?" í Tyrklandi.

Eftir það fundum við gaur sem lítur út eins og Ted Mosby í þættinum "How I met your mother". Ég var svo ánægð að finna kunnuglegt andlit að við eltum hann, og hann leiddi okkur á endanum að þessari aðalgötu. Þar fundum við Rokkbar og þar voru að sjálfsögðu íslenskir piltar. Við drukkum nokkra bjóra en um leið og þeir héldu sína leið komu barþjónarnir með frí skot... og fleiri... og svo fleiri... og svo vann ég veðmál við yfir-barþjóninn og hann gaf mér frían kokkteil. Þeir lokuðu staðnum um fjögur leytið en héldu partíinu þó gangandi fyrir okkur fram á rauða nótt, við dönsuðum, sungum, drukkum og létum eins og verstu túristar, svo leiddu herramennirnir okkur að leigubílaröðinni og buðu góða nótt.

Í dag vöknuðum við furðulega snemma og fengum okkur hádegismat á mjög fyndnum stað sem heitir Faroe en þar var faróinn sjálfur að þjóna og skemmta gestum staðarins, til dæmis með því að kasta sígarettunni sinni í hringi, grípa hana og reykja. Maturinn var furðulegur en við pöntuðum kjúklinga fajitas sem var ennþá að eldast þegar það var komið á borð, sumsé var það borið fram á disk sem gerður var eingöngu úr sjóðandi heitu koli. Við vissum ekki hvað við vildum gera við restina af deginum en það kom tvennt til greina, vatnsrennibrautagarður eða tyrkneskt bað. Á endanum var ákveðið að kíkja í heilsulind hótelsins og fara í tyrkneskt bað. Þar var drengur sem stjanaði við okkur tímunum saman og bauðst til að fylgja okkur um bæinn í kvöld og sýna okkur helstu skemmtistaðina. Við þáðum það boð með þökkum og við ætlum að hitta hann fyrir utan eftir... jahérna, tuttugu mínútur! Best að klára þetta. En já, svo fengum við frekar perralegt nudd frá öðrum gæja sem ég vil helst gleyma sem fyrst...

Hér í Marmaris er það sko ekkert annað en Royal Treatment eins og þið heyrið, en nú þarf ég að skunda upp og fara að gera mig til fyrir næturlífið í Marmaris. Því við erum að fara á FROÐUDISKÓ. Óóóójá.

Kv. Hekla Elísabet hin konungborna ísdrottning.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband