21.10.2008 | 01:46
Helgin sem leið..
Á föstudaginn fór ég á djammið með mömmu. Við fengum okkur hvítvín heima hjá henni, dönsuðum eins og villtir apakettir á sýru í stofunni við lög sem eru komin langt yfir seinasta söludag, fórum á trúnó, veltumst um af hlátri, röltum yfir á ölstofuna og hittum þar allskonar furðulegt og kunnuglegt fólk og loks dröslaðist ég heim á leið með einhvern háaldraðan breta í eftirdragi sem ég týndi svo áður en leiðin var hálfnuð, á meðan mamma hjálpaði einhverjum skallapoppara að finna jakkann sinn og keypti handa okkur pítsu með klettasalati og hnetum, sem er virkilega ógeðslegt kombó svo ég minnist nú á það.
Á laugardaginn vöknuðum við mamma við fyrsta hanagal (klukkan fjögur) og fengum okkur rúnstykki og gallon af vatni, kókómjólk og kóki. Svo hékk ég við þá iðju að gera ekki neitt klukkustundum saman þar til ég var sótt og fór heim til Hönnuh með stelpunum. Til að gera langa sögu stutta var ógeðslega gaman og við dönsuðum á Kaffibarnum til lokunar. Og til að gera þessa sögu ENN styttri get ég sýnt ykkur myndir!
Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.10.2008 | 20:32
Ég er stundum fremur óheppin.
Á fimmtudagsmorguninn lagði ég upp í langferð með rifna tösku og gamalt strætókort. Það er löng og merkileg saga á bak við þetta gamla strætókort. Í sumar var ég að vinna í heimaþjónustu á vegum heilsuverndarstöðvarinnar, svo yfirmaður minn í þeirri deild gaf mér þetta líka fína rauða strætókort sem var í gildi frá 28. júní til 28. september. Mér fannst það mjög góður díll því ég gerði ráð fyrir því að þann 28. september yrði ég komin með skólakortið mitt svo ég sá fram á það að ég yrði ekki í nokkrum vandræðum með að koma mér á milli staða fyrr en kannski mögulega í maí 2009. Þetta var ég afskaplega ánægð með.
Tíminn leið og á endanum rann rauða kortið mitt út, en ég var ekki komin með skólakort vegna endalausra vandræða með umsókn mína. Ég hugsaði með mér að kannski gæti ég bara notast við rauða kortið þar til vandamálin með skólakortið yrðu úr sögunni, og vonaði að enginn tæki eftir því. Ennþá lengri tími leið, og sextándi október rann upp. Sumsé fimmtudagsmorguninn sem hér er um rætt. Ég var búin að nota þetta útrunna strætókort tvisvar á dag í rúmar tvær vikur án þess að nokkurn grunaði mig um græsku. En þessi fimmtudagur var öðruvísi. Ég steig inn í strætó, framvísaði kortinu hratt og ætlaði að halda mína leið en strætóbílstjórinn sá í gegn um mig og bað mig um að koma aðeins aftur fremst í strætóinn. Það leið næstum yfir mig, mér leið eins og búðarhnuplara eða einhverju þaðan af verra.
Hann bað um að fá að sjá kortið mitt aftur og tilkynnti mér það hátíðlega að það væri löngu kominn október. Ég sagðist vera meðvituð um það og reyndi eftir fremsta megni að útskýra fyrir honum vandamálin sem ég hafði strítt við með umsókn mína um skólakortið en hann vildi ekki heyra það (enda skildi hann mig varla) og tók af mér kortið. Ég náði þó einhvern veginn að sannfæra hann um að leyfa mér að fljóta með frítt og gefa mér skiptimiða, ég man ekki einu sinni hvernig ég gerði það því ég var að fara á taugum, enda lítið fyrir að fremja glæpi hvort sem þeir eru stórir eða smáir. Ég komst á endanum í vinnuna og huggaði mig við það að ég þyrfti ekki að taka strætó heim, því strákur sem er að vinna með mér skutlar mér alltaf þangað eftir vinnu. Í lok dagsins gerði ég mig líklega til að leggja í hann en þá sagði Aldo að hann væri á leið í Hafnarfjörð svo hann gæti ekki keyrt mig heim. Ojæja.
Ég var ekki með krónu á mér, hvorki í veskinu né á kortinu svo ég hringdi í pabba og bað hann um að leggja inn á mig fimmhundruðkall svo eg gæti farið í bónusvídeo, keypt mér eitthvað og tekið 300 kr. framyfir. Þegar þangað var komið ætlaði ég að kaupa mér kók og bað stelpuna um að taka akkurat 500 á kortið. Hún sagði mér að það væri búið að banna henni að taka framyfir. Ég grátbað hana um að gera undantekningu en hún þverneitaði og benti mér á aðrar verslanir í grenndinni. Ég fór í þær allar en það er víst búið að banna það allstaðar. Mér líkar illa að vera föst uppi á Vatnsenda svo ég sendi Örnu og Stefáni sos skilaboð því ég átti ekki inneign, en hvorugt þeirra svaraði. Ég sat í strætóskýlinu og hugsaði stíft um hvað ég gæti gert. Í sömu andrá keyrði fyrrverandi ökukennarin minn framhjá mér. Okkur lenti saman snemma á árinu 2006 þegar ég var nemandi hjá honum og hann sagðist ekki geta kennt mér lengur. Ég ætlaði þvílíkt að feisa hann, fá mér nýjan og betri kennara, og ná bílprófi með glans. Það verkefni hefur setið á hakanum í þó nokkurn tíma svo ég roðnaði niður í tær þegar hann keyrði fram hjá mér þar sem ég sat... Í strætóskýli.
Öll mín von virtist vera úti, svo það eina sem ég gat gert í stöðunni var að labba heim. Ég gekk af stað, og það var kalt. Allt í einu byrjaði að rigna. Það rigndi og rigndi og ég var orðin blaut í gegn. Ekki nóg með það heldur kom gat á skósólann minn og á endanum fór hann af. Þarna var ég eins og einhver umrenningur labbandi við hraðbrautina í átt að smáralind og náði á endanum að drösla mér þangað inn. Sem betur fer var Hannah að klára vinnuna svo ég fór með henni heim, fór í sturtu og í hrein föt. Svo skemmtilega vildi einnig til að ég átti skó heima hjá henni.
Þar með lýkur sögunni af þessum óhappadegi. Reyndar ekki en ég ætla að stoppa hér á meðan þið hafið ennþá einhvern snefil af virðingu fyrir mér.
- Hekla Elísabet, hrakfallabálkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2008 | 01:00
MSN brandarar í hæsta gæðaflokki
Hekla Elísabet says:
hahaha vá, gömul vinkona á facebook var að senda mér og öllum á facebookinu hennar eitthvað svona "hæ ég er að selja klósettpappír, viltu kaupa" skilaboð
Hekla Elísabet says:
og ég skrifaði eitthvað
Hekla Elísabet says:
"Nei takk, ég skeini mig bara með silki.
Djók, ég skal spyrja pabba
Haha"
Hekla Elísabet says:
og var næstumþví búin að ýta á send to all..
Lando Calrissian says:
HAHAHAHAHAHA
Lando Calrissian says:
Þú veist að svefn er frændi dauðans
Hekla Elísabet says:
jájá
Hekla Elísabet says:
mér líkar líka miklu betur við hann en frænda hans
Lando Calrissian says:
ömurleg ættarmót samt
Hekla Elísabet says:
tell me about it
Lando Calrissian says:
Father Time blindfullur
Hekla Elísabet says:
hahahaha
Hekla Elísabet says:
og móðir náttúra
Hekla Elísabet says:
dansandi uppi á borðum
Annars ætla ég að fara að sofa þrátt fyrir þessi ummæli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2008 | 03:38
Áhugaverð helgi og haustmyndir
Dyravörður: "Farðu inn."
Ég: "Í alvörunni?"
Dyravörður: "Já."
Ég: "En..... ég er ekki með nein skilríki!"
Dyravörður: "Hvað ertu gömul í alvörunni?"
Ég: "Nítján"
Dyravörður: "Já, farðu bara inn"
Ég: ".... ókei"
Þessar samræður áttu sér stað í raunveruleikanum á föstudaginn og stuttu eftir það var ég stödd inni á tælenskum karókíbar við hliðina á Vegas að syngja "She works hard for the money" með Donnu Summer. Hreinskilni borgar sig bara greinilega ekki. En haustið er komið og með því koma haustmyndir!
Arna í góðu skapi
Silju var greinilega kalt
Ölvun í stofunni og Stefán tók skellinn!
Silja er falleg
Arna er glöð
Þessi mynd var ekki plönuð, ótrúlegt en satt
Mmmmm, hvítvín!
Stefán var rosa sáttur
Hannah er pæja
Og hún blikkaði
Og Arnór brosir til ykkar í lokin.
Góða nótt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.10.2008 | 01:11
LOL
Það er svo gaman að sjá heiminn með nýjum og bjartari augum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2008 | 22:04
Sjitt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2008 | 02:38
Nýtt upphaf.
Í dag byrjaði ég í nýrri vinnu í Rofasölum hjá Félagsþjónustu Kópavogs sem starfsmaður í dagþjálfun fyrir minnissjúka, og hingað til líkar mér það ofsalega vel. Ég er í 90% starfi og með því er ég að taka átján einingar í fjarnámi. Verður þetta góð tilbreyting frá því sem ég er búin að gera undanfarinn mánuð, sumsé sofa, sitja á rassgatinu og gera ekki neitt nema leita að ákjósanlegri vinnu og sinna heimanáminu sem fór ansi hægt af stað. Datt mér þá í hug að breyta bara algjörlega um lífstíl. Því að gera ekki neitt fylgir óvenjulega mikil vanlíðan sem mig langar alls ekki að upplifa aftur, og vegna þess hef ég ákveðið að setja líf mitt í fimmta gír og gerast über aðdáunarverð og dugleg manneskja. Ég hef ákveðið að byrja að nýta mér líkamsræktarkortið mitt.
Það er þó ekkert grín að rífa sig á lappir og byrja að mæta aftur í ræktina. Ég opnaði skápinn minn áðan í leit að fötum sem ég gæti hugsað mér að stunda líkamsrækt í. Þá rann það upp fyrir mér að ég hef bara aldrei fjárfest í slíku, enda geri ég oftast ráð fyrir bráðri uppgjöf í byrjun átaka í ljósi þess hvernig sveiflur ég tek í þessum efnum. Ég á það neflilega til að fá smá Gillzenegger púka í mig, hjóla í ræktina, slíta mér út í þrjá tíma, skokka svo í sund, fara á handahlaupum heim og vakna í fósturstellingunni og geta ómögulega reist mig úr henni, og heita því svo að hreyfa mig aldrei aftur að ráði. Ég ætla þó að fara hægt í sakirnar í þetta skipti. Ég tók til einhverjar skræpóttar gammósíur og mussu, vegna þess að ég á hvorki buxur né boli, gamla, slitna og illa lyktandi strigaskó og röndótt handklæði, og tróð því í poka. Nú verður ekki aftur snúið, ég held á vit ævintýranna eftir vinnu á morgun og hoppa og skoppa um eins og hálfviti. Ef ég geri þetta ekki þá er ykkur frjálst að skalla mig í bumbuna.
Góða nótt! Það er stór dagur framundan.
Ykkar líkamsræktarfrömuður, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.9.2008 | 02:30
Múltíkúltí
Á föstudaginn drakk ég hvítvín með kólumbísk-írsku vinkonu minni, dansaði alla nóttina við Frakka, ræddi málin við Svía og sofnaði með litháenskum homma. Ég er svo líbó!
Einu sinni fór ég í partí hjá hálfum Færeying, en við skulum ekkert vera að ræða það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2008 | 03:49
Hin egósentríska Hekla
Í kvöld fékk ég mjög sérstaka spurningu
"Af hverju prófaru ekki að blogga um eitthvað annað en sjálfa þig?"
Ég velti þessu fyrir mér svo lengi að fólkið við borðið var farið að efast um að ég væri andlega viðstödd.
"Annað en sjálfa mig? Ég meina.... hvað annað gæti ég svosem skrifað um?"
-"Bara þú veist eins og annað fólk gerir, eitthvað sem þú hefur áhuga á, tísku, heimsmálin, fréttirnar, bíómyndir eða tónlist.. það er alveg fólk sem bloggar um svoleiðis sem fær borgað fyrir það"
Ég velti þessu fyrir mér aðeins lengur.
"En ég hef bara ekkert að segja um neitt af þessum hlutum, ég á mér ekki áhugamál og það er ekkert sem ég veit nógu mikið um til að þykjast vera sérfræðingur í því"
-"Nei, þú þarft ekkert að vera sérfræðingur, ég er bara að segja..."
Ég hætti að velta þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að ég ætla að halda áfram að skrifa um mig frá mér til mín þar til ég fæ doktorsgráðu í einhverju öðru, því ég er allt of fjandi hugmyndasnauð til að gera nokkuð annað.
Er einhver ósáttur við það hérna? Nei ég hélt ekki!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.9.2008 | 18:13
Sjitt!
Eftir mjög nána athugun á þessu máli hef ég komist að því að gestafjöldinn á þessari síðu er í sögulegu lágmarki!
Er ég svona leiðinleg?
HA?!?!?!?!
ER ÉG SVONA FOKKING LEIÐINLEG!?!?!?!?!?!?!?!
Djók. Vá, ég þarf að fara að klára þessa jarðfræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)