17.6.2008 | 23:45
Í dag er merkilegur dagur.
Ekki bara vegna þess að í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga.
Heldur vegna þess að í dag, akkurat núna, er ég að skrifa hundraðasta bloggið mitt á þessari bloggsíðu. Jebb. Þið megið klappa að vild.
Ég er einmitt sérstaklega hamingjusöm í dag. Byrjun sumars hefur örvandi áhrif á mig andlega og þá sérstaklega þessi dagur. Í ljósi þess ætla ég að endurbirta blogg sem ég skrifaði fyrir ári síðan, þó ekki á þessa síðu.
Sautjándi júní var mjög merkilegur dagur fyrir mér þegar ég var tveggja ára. Þá fékk ég blöðru.
Sautjándi júní var líka mjög merkilegur dagur fyrir mér þegar ég var fimm ára. Þá fékk ég blöðru og kandíflos.
Sautjándi júní var mun merkilegri dagur fyrir mér þegar ég var þrettán ára. Þá var ég í Svíþjóð svo ég forðaðist jarðskjálftann, og fékk sænskar kjötbollur og ný sólgleraugu.
Sautjándi júní var jafnvel merkilegri dagur fyrir mér þegar ég var fimmtán ára. Þá átti ég fullt af nýjum vinum en ég fékk ekkert kandíflos.
Sautjándi júní var ekkert svo merkilegur dagur fyrir mér þegar ég var sextán ára. Ég var bara blindfull og man ekki neitt hvað ég gerði. Ég fékk allavega ekkert kandíflos.
Sautjándi júní var ekki baun í tusku merkilegur dagur þegar ég var sautján ára. Ég og Laufey keyptum bómull (sko alvöru bómull) og rándýrt kandíflos.
(og smá viðbót...)
Sautjándi júní var æðislegur dagur þegar ég var átján ára. Ég og Hannah fórum á Austurvöll með teppi, hvítvínsflöskur og nýbakaða pítsu, borðuðum, hlógum, kjöftuðum, hittum fólk og fengum kandíflos.
.............Hæ hó og jibbý jei og jibb..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.6.2008 | 04:29
Ég var..
Allsber á svölunum!
Beat that!
Vona að mamma sé ekki að lesa....
Júúú hún er að lesa.
Mamma, ég var nakin á svölunum!
Bæ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2008 | 03:29
Ævintýri dagsins.
Föstudagurinn gekk í garð og járnfrúin fann sjálfa sig ráfandi um Seltjarnarnesið á náttkjól í síðdeginu. Hún ákvað að fara í smá ævintýraleit, þrátt fyrir að hún væri allslaus, svöng og áttavillt. Hún gekk framhjá vinnusvæði þar sem sjö dvergvaxnir pólverjar stóðu í þyrpingu. Henni datt í hug að ef til vill myndu þeir taka hana að sér, gera hana að vinnukonu og hýsa hana að launum, en það gerðu þeir ekki. Þeir hlógu bara og bentu, svo að járnfrúin hélt sína leið.
Hún ráfaði um stefnulaus lengi vel og varð veikari og veikari fyrir vikið. Þegar hún var nánast búin að gefa upp alla von barst hjálpin loks. Stefán, riddarinn á svarta bílnum kom henni til bjargar og kom henni heilli heim í kastalann. Hvort þau giftu sig og eignuðust börn og buru fylgir þó ekki sögunni.
Þegar í kastalann kom fór járnfrúin inn á klósett og var við það að fara að kveikja á sturtunni þegar sturtuhausinn byrjaði allt í einu að tala, og járnfrúnni brá svo heiftarlega að hún féll næstum í yfirlið. "Ég er guðmóðir þín, járnfrú" sagði hann. "Langar þig að komast á Grímuna?" - "Ó já, kæra guðmóðir!" sagði járnfrúin, "En ég hef svo stuttan tíma, er ekki með nein föt og bara ógeðslega sólbrennd og eitthvað!". "Iss við reddum því nú! Sveiflaðu mér í þrjá hringi" sagði sturtuhausinn, og viti menn, járnfrúin varð hrein, klædd og aðeins minna áberandi sólbrennd á mettíma. Loks var hún tilbúin til að fara a Grímuna. Á Grímunni var mikið af fallegu og vel klæddu fólki og járnfrúin skemmti sér konunglega, en rétt upp undir miðnætti var kominn tími fyrir hana til að láta sig hverfa, því eftir miðætti myndi allt meikið renna af og sólbruninn koma bersýnilega í ljós.
Þegar heim í kastala var komið var hún ekkert þreytt og ætlaði bara að eyða nóttinni í að flétta hárið sitt eða eitthvað, en þá gerðist svolítið sem hún hefði aldrei getað séð fyrir. Ill norn vaknaði upp af blundi sínum og sagði henni að fara að sofa eða hún myndi hneppa hana í álög. Járnfrúin þverneitaði, en nornin klekkti á járnfrúnni og gaf henni eitrað poppkorn. Járnfrúin slysaðist til að bíta í poppið, féll í slóv mósjön niður í rúm og sofnaði samstundis, og telja heimildarmenn líklegt að það muni hún einmitt gera næstu hundrað árin, eða þar til einhver sætur prins kemur og kyssir hana, vonandi fljótlega.
Einhver?
Köttur úti í mýri,
setti upp á sig stýri,
úti er ævintýri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.6.2008 | 00:48
Loksins.
Ég hef lengi leitað hins eina rétta.
Ég hef leitað að þessum eina sem fullkomnar allt.
Ég er búin að fara út um allt, prófa margt, en ekkert virðist ganga upp.
Ég var eiginlega bara búin að gefa upp alla von.
Ég hugsaði alltaf... þetta á aldrei eftir að ganga hjá mér.
Ég er bara ekkert svo góð í svona hlutum.
En ég veit það líka að núna þegar ég hef loksins fundið hann mun allt falla í ljúfa löð.
Heildarmyndin er fullkomnuð.
Rétti kubburinn er loksins fundinn.
Mikið ofboðslega finnst mér nú gaman að púsla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2008 | 21:25
Sko...
Það er fátt sem ég vil segja um þessa helgi, nema það að nú veit ég að það er ástæða fyrir því að Íslendingar eru lítt hrifnir af þeirri athöfn að fara á deit og eftir að hafa lifað mörg ár þar sem ég óskaði þess að það væri hluti af okkar menningu held ég að ég geti með sanni sagt að nú fyrst er ég því dauðfegin. Í alvörunni, mér er illt í sálinni. Og þá að öðru..
Síðastliðna viku var forsíðufrétt allra blaða nr. 1 á þann veg að nýskipuð Ungfrú Ísland ætlar víst að vinna á elliheimili í sumar. Hah, en ógeðslegt, sæt stelpa að skeina gamalt fólk!
Á föstudaginn síðasta og helming laugardagskvöldsins var ég í ástandinu. Núna hef ég ekki hugmynd um hverskonar ástandi ég er í.
Það styttist óðum í Mexíkó og ég þarf að fara að fá sprautur. Tilhugsuninni um það fylgir ógleði, tár og jafnvel magasár. Úúúú, það rímar. En mér líst samt ekkert á það.
Ég haaaaaaaaaata fótbolta, af mikilli ástríðu.
Nú ætla ég að fara að leigja mynd með Hjalta og drekkja sorgum mínum í ísköldu kóki. Bless!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2008 | 06:14
Heyr mína bæn
Heyr mína bæn, mildasti blær,
berðu kveðju mína yfir höf
syngdu honum saknaðarljóð.
Vanga hans blítt vermir þú sólmjúkum vörum
kysstu hans brá, ástarorð hvíslar mér frá.
Syngið þið fuglar, ykkar fegursta ljóðalag,
flytjið honum í yndælum óði, ástarljóð mitt.
Heyr mína bæn, bára við strönd,
blítt þú vaggar honum við barm,
þar til svefninn sígur á brá.
Draumheimi dveljum við þá daga langa,
saman tvö, heyr mínar bænir og þrár.
Syngið þið fuglar, ykkar fegursta ljóðalag,
flytjið honum í yndælum óði, ástarljóð mitt.
Æji mér finnst þetta bara svo yndislegt lag.
Góða nótt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2008 | 00:52
Föstudagskvöld.
Járnfrúin situr hér í mestu makindum fyrir framan tölvuskjáinn í nýjum kjól með barmafullt hvítvínsglas sér á vinstri hlið og serjósskál á hægri hlið (...) en henni finnst eitthvað vanta. Eflaust er það vegna þess að hún er alein og bíður eftir vinum sínum, en er ansi hrædd um að þeir láti ekki sjá sig. Á glasinu má sjá leifar af bleikum varalit og í svipnum má lesa vonbrigði, þar sem hún situr og strýkur fingrinum rólega í hringi meðfram glasbarminum og andvarpar í takt við klukkuna sem tifar svo hægt. Hún finnur hlýjuna frá víninu hríslast um líkamann, frá hársrótum niður í táneglur, og brosir út í annað á meðan lágstemmd tónlistin tekur hana með sér í ferðalag. Hún sparkar af sér háu hælunum sem krömdu tærnar, rífur af sér beltið sem þrengdi að öndunarveginum, dregur djúpt inn andann og sleppir svo, hægt en örugglega.
Hún kveikir sér í sígarettu og hugsar "sorrí mamma og pabbi". Hún blæs reyknum út í loftið, leggur sígarettuna niður í öskubakkann og heldur áfram að rita. Nei hvaða andskotans drama er þetta.... Hvar er síminn? Uhh... uhh... ég er farin.... bæ.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.6.2008 | 23:52
Tilkynning...
Og þessi tilkynning er þess efnis að fari ekki einhver einhverntíman að byrja að gera athugasemdir við færslurnar mínar þá gefst ég upp á þessu bloggi. Það er leiðinlegt að skrifa fyrir sjálfan sig.
Hnuss!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.6.2008 | 11:29
ZZZZ....zzzzzz.....ZZZZ....zzzzzzzz......
Í gær ætlaði ég að leggja mig eftir vinnu.
Ég var að vakna núna.
Velkomin á lappir, þyrnirós!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)