Færsluflokkur: Bloggar
23.10.2007 | 04:45
Hið ógurlega miðannarmat.
Miðannarmatið er komið í hús og útlitið er ekki gott fyrir söguhetjuna okkar. Hún hefur verið svikin og svívirt, og bíður nú dauða síns. Þó er þetta ekki í fyrsta skiptið sem hún hefur komist í kast við miðannarmatið, ónei, enda er hún mikil endaspretts manneskja og lifir eftir "Þetta reddast..." lífsreglunni sem hefur þjónað henni vel hingað til.
Nú langar mig að útskýra fyrir ykkur miðannarmatið. Þegar önn er hálfnuð í menntaskóla setjast kennarar okkar táninganna í gullið dómarasæti, íklæddir svörtum, drungalegum skikkjum og skarta rauðum hornum á höfði sér. Þvínæst taka þeir upp lista með nöfnum nemenda sem stunda hjá þeim nám, og meta stöðu þeirra eftir því hvernig þeir hafa staðið sig það sem liðið er af önninni. Þeir hafa í skúffu sinni, sem er staðsett við hliðina á gullna dómarasætinu, fjóra stimpla sem hafa allir sitthvora merkinguna, og eru ekki hræddir við að nota þá.
Stimpill G - Gott (Góður krakki! Já sko þig!)
Stimpill V - Viðunandi (Já, ókei, þetta er kúl.)
Stimpill Ó - Óviðunandi, þarf að laga (SKAMM!)
Ég veit ekki hvað sá fjórði heitir eða hvað hann merkir, því ég hef aldrei fengið hann. Ég veit samt að hann er til!
Og ég sit uppi með eitt gott, tvennt viðunandi og þrjár skammir í hattinn.
Í ensku fékk ég eitt gott klapp á bakið. Ég vissi það líka alveg frá byrjun. Þegar ég fyrst gekk inn í stofu V306 þann 22. ágúst 2007 inn í fyrsta enskutíma annarinnar var mér litið á kennarann, og það var ást við fyrstu sýn. Frá og með þeim degi ríkti skilningur á milli okkar, sá skilningur að svo lengi sem ég skilaði verkefnum og héldi áfram að fá góðar einkunnir mætti ég gera það sem mér sýndist í tímunum og jafnvel stinga af þegar krakkarnir voru látnir spila enskuspilið þarna með myndinni af egginu (meeega leiðinlegt). Reyndar skilaði ég ekki mínu eigin miðannarmati í ensku, en það hefur víst sloppið.
Ég fékk einkunnina "viðunandi" í fjölmiðlafræði og sálfræði (eða sálarfræði eins og fagið heitir víst núna, en það skiptir ekki öllu máli). Mér þykir sálfræðieinkunnin nokkuð góð, miðað við það að ég skilaði víst ekki verkefnamöppunni en hinsvegar er ég grautfúl yfir því að hafa ekki fengið hærra í fjölmiðlafræðinni, því ég er að sjálfsögðu að mínu mati botnlaus uppspretta mikilvægra upplýsinga um fjölmiðlafræði og allt sem henni tengist... eða eitthvað svoleiðis.
Hinsvegar get ég seint verið stolt af íslensku, spænsku og sögu. Mér finnst ég alveg illa svikin af sögukennaranum sem sagði held ég orðrétt tveimur vikum fyrir miðannarmatið: "Sko, Hekla, ég veit alveg hvernig þú ert. Þú varst hjá mér í þýsku í fyrra. Gef ég þér ekki bara V og þú verður sátt með það?" (þarna vísaði hann í ótakmarkaða hæfileika mína til að redda mér á síðustu stundu og sleppa vel). Ég þáði boð hans með þökkum, en hvað gerir svikahrappurinn? Hann svíkur hið óformlega loforð! Spænskumatið skil ég svosem vel, enda skilaði ég ekki möppu (ég er svaka léleg í að halda utan um gögn) og mér gekk ekkert allt of vel í eina spænskuprófinu sem ég er búin að taka, enda ekki við öðru að búast þar sem mér gengur illa að læra tungumál í tímum þar sem kennarinn talar eintóma spænsku en ljáist að útskýra fyrir okkur bullið sem vellur út úr henni.
Það heimskulegasta við miðannarmat er það að það þjónar engum raunverulegum tilgangi. það hefur engin áhrif á einkunn nemandans og kemur ekki niður á endanlegri niðurstöðu. Þetta ætti eiginlega að heita "Barasvonalátaþigvitahvarþústendurskítseyðiðþitt"-mat, en það þykir víst svo óþjált.
Jæja, nú ætla ég að fara að sofa. Mamma, ég vona að þér hafi ekki vöknað um augu við lesturinn.
ÞETTA REDDAST!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.10.2007 | 19:04
Lystin að lifa.
Ég var að horfa á þennan þátt í dag í annað skiptið, en ég sá hann einnig síðasta Sunnudagskvöld. Svei mér þá ef þetta er ekki með því óhuggulegra og skelfilegasta sem ég hef séð.
Arna Þórsdóttir er átján ára fárveik stúlka sem þjáist af alvarlegri átröskun og hefur barist við sjúkdóminn síðan hún var fjórtán ára gömul. Það sem virkilega stingur mig og ergir, er það sem hún segir þegar þátturinn er um það bil hálfnaður:
"Það sem að snart mig mest og dýpst er það að þegar ég var venjuleg og þegar ég var bara svona nokkurn veginn í minni þyngd, þá varð ég aldrei vör við að, eða ég minnist þess allavega ekki að mér hafi verið boðið að taka þátt í einhverjum fegurðarsamkeppnum eða tískusýningum. Um leið og kílóin fóru að hrynja af mér og eftir því sem ég varð óheilbrigðari, þá fékk ég fleiri og fleiri tilboð um að koma upp í Eskimo, um að taka þátt í fegurðarsamkeppnum, meira að segja um að fara erlendis.
Eftir því sem ég varð í raun og veru veiklulegri og veiklulegri, því meiri tilboð fékk ég. Ég var svo reið, afþví ég vissi alveg að ég væri mjög óheilbrigð, og er mjög óheilbrigð í vexti. Ég meina, ég er ekki á blæðingum. Ég er bara eins og lítill strákur."
Ég er líka reið. Hvers vegna vill tískubransinn fagna þessu óheilbrigði? Afhverju þykir fólki þetta flott? Er virkilega eftirsóknarvert að vera vaxinn eins og Óli Prik? Á meðan óhamingjusamir átröskunarsjúklingar vinna af öllum lífs og sálar kröftum við að losa sig úr viðjum sjúkdómsins eru fyrirsætuskrifstofur að reyna að klófesta þá og nýta sér sjúkdóminn. Og þetta einskorðast að sjálfsögðu ekki við Örnu og Eskimo, þetta er að gerast út um allt. Það er kannski bara spurning um að kreista sem mesta vinnu út úr greyunum áður en þær láta lífið af völdum átröskunar? Og já, skemmtileg staðreynd, vinkona Örnu sem kemur fram í myndinni ein farsælasta fyrirsæta Eskimo.
Þessum stúlkum er svo hampað í fjölmiðlum sem fyrirmyndum ungra stúlkna, þegar margar þeirra eiga við lífshættulegan geðsjúkdóm að stríða. Þegar ungar stelpur sjá þessar glæsilegu konur í glanstímaritunum halda þær að sjálfsögðu að svona eigi þær að líta út. Og ekki hjálpa allir megrunar- og útlitsbreytingaþættirnir (the swan, extreme makeover, you are what you eat, the biggest loser, valdir þættir af dr. phil, og svo lengi mætti telja). Þetta náði allt hræðilega mikið til mín á yngri árum. Þegar ég var yngri var ég alltaf í kjörþyngd og það var ekkert óeðlilegt við líkamsvöxt minn. Samt plagaði mig stöðugt samviskubit og sjálfstraustið var í lágmarki - alveg frá því að ég var tólf ára þangað til að ég skreið yfir sautján árin. Þökkum leti minni og aðgerðarleysi það að aldrei varð meira úr því. Nú í dag er ég vissulega stærri en ég var, en ég er yfirleitt alveg sátt við sjálfa mig, og það er ómetanleg tilfinning.
Mér líkar ofsalega vel við þáttinn "How to look good naked". Loksins er kominn þáttur sem hvetur konur til þess að vera sáttar við sjálfa sig og gera sitt besta með það sem þær hafa. Þáttur sem segir að svo lengi sem kona er heilsuhraust, líkamsþyngd hennar undir hættumörkum megi hún vera sátt við sjálfa sig og vera sjálfsörugg.
Í lokin vil ég benda á það að ég er ekki að segja að allar grannvaxnar stúlkur séu með átröskunarsjúkdóm, ég er ekki að fella dóm á neinn og ég er alls ekki að gera lítið úr þeim sem sjúkdómurinn hrjáir. Þetta er raunverulegt vandamál og mér finnst ótrúlegt að þrátt fyrir að í dag séum við öll upplýst um að það sé hægt að vera virkilega hættulega grannur þyki það ennþá eftirsóknarvert.
Þá má ég nú frekar biðja um að fá að vera eins og ég er.
- Hekla Aðalsteinsdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.10.2007 | 20:44
Hermikrákur!
Hafiði tekið eftir því hvað við íslendingar erum ófrumlegir?
Næstumþví allt sem við eigum í þjóðfélaginu er stolið, lánað eða hrein og bein eftiröpun.
Sjónvarpsþættir, karakterar, lög, tónlistarmenn, menning og ég veit ekki hvað og hvað. Tökum þetta aðeins fyrir hérna.
Sjónvarpsþættirnir eru eiginlega það versta. Logi Bergmann þykist nú vera Jay Leno, Jói Fel er Jamie Oliver, (ítalíuævintýri með Jóa Fel? Giv mí a breik), Stelpurnar eru "Smack the pony", ástarfleyið var loveboat, Allt í drasli er góð íslensk þýðing á "how clean is your house?" (eruði að djóka í mér? það eina sem er leiðinlegra en að taka til er að horfa á annað fólk taka til), ÍSLENSKI BACHELORINN? (ómæ), "Ertu skarpari en skólakrakki?" er einnig gerður eftir erlendri fyrirmynd, "Það var lagið" á sínum tíma en er það ekki lengur, fimmtudagskvöld með Hemma var reyndar ekki beint stolið en það var svo grátlega leiðinlegt að enginn var að meika það, Kompás er sextíu mínútur, Búbbarnir voru muppets, strákarnir voru með jackass-þema, TEKINN? Ford módel er svona nýmóðins íslensk útgáfa af America's next top model, nema hjá okkur er bara einn þáttur, að ógleymdum þáttunum um næsta bikinímódel íslands sem verður án efa skráð í sögubækurnar sem versta sjónvarpsefni nokkurntíman sýnt í sögu íslands og allra annarra landa ef út í það er farið.... eruð þið að sjá mynstrið?.... blablabla, ég gæti haldið áfram endalaust.
Ellý Ármanns þykist vera Carrie Bradshaw endurfædd í allri sinni dýrð og pósar nakin með fartölvuna á forsíðu mannlífs, stjarnan sjálf á moggablogginu. Núna er hún reyndar búin að læsa síðunni og aðeins þeir sem eru hátt skrifaðir hjá henni fá að lesa. Örvæntið eigi, ég ætla mér að vera arftaki hennar! Arnar Grant er mega Fabio, Geir Ólafs er samansafn af hverjum og einum einasta syngjandi sjarmör sem hefur átt góðu gengi að fagna (áfram, Geir, áfram! Ekki láta Audda Blö draga þig niður í Ashton Kutcher þættinum sínum), Dorrit er sko OKKAR Díana (má hún ekki bara vera Dorrit?), Jón Ásgeir er herra Trump og dóttir hans er Paris Hilton samkvæmt S&H....
Það eina sem við eigum sjálf er Björk, næturvaktin og friðarsúlan! (Þökk sé Yoko og orkuveitunni, takk elskurnar).....
Það er eitthvað bogið við þetta!
Nú mun ég hefjast handa við að myndskreyta þetta blogg. Látið skoðanir ykkar í ljós! Ekki vera feimin.
Í lokin vil ég biðjast afsökunar, skyldi ég hafa móðgað einhvern við þessi skrif.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2007 | 02:50
Vonbrigði.
Ég ákvað árla morguns (klukkan 16:08, maður verður að elska vetrarfríið) að í kvöld skyldi ég skralla og dansa eins og enginn væri morgundagurinn. Ég fletti í korkusögu, klappaði köttunum, horfði á sjónvarp, mátaði föt og eldaði mat. Loksins áttaði ég mig á því að klukkan var orðin átta og ég var ekki búin að gera neitt sem ég hafði ætlað mér að gera, svo ég hófst handa við að snyrta mig hátt og lágt. Þegar langt var liðið á kvöld og ég var búin að eyða skammarlega löngum tíma í að stríla mig upp og greiða mér rann það upp fyrir mér að ég átti eftir að boða komu mína í miðbæ Reykjavíkur og velja mér fylgdarlið. "Kjáni get ég verið!" hugsaði ég og flissaði (ekki upphátt). Gleðin rann af mér á augabragði eftir nokkur símtöl, eða þegar ég áttaði mig á því að það var enginn að fara með mér út á lífið.
Sölvi var á airwaves,
Hannah var að skipuleggja sig,
Sara var veik,
Laufey var á leið í háttinn,
Beta var í Hveragerði?
Tómas var í Danmörku,
Sigurgeir var í Svíþjóð,
Viktor var að sötra vín heima hjá sér,
Mamma vildi ekki hafa ofan af fyrir mér (skamm!)
Meira að segja pabbi var í einhverskonar djammpartíi!
Og restin var á Flensborgarballi þar sem hljómsveitin Bloc Party sem ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei hlustað á var að spila. Svo stíg ég hvergi fæti inn þar sem flensborgarar halda sig, þar verður mig sko seint að finna.
Allavega!
Það virtist enginn ætla í fjörið með mér. Í stjórnlausri reiði minni (nei, ég er friðsæl!) greiddi ég hárið niður, sleit af mér gerviaugnhárin og smeygði mér úr partígallanum. Á endanum tók ég strætó til Viktors og horfði á hann ásamt fleira fólki sötra vín á meðan ég þambaði hvert vatnsglasið á fætur öðru, sem verður víst, ótrúlegt en satt til þess að ég pissa oft og mikið. Þegar þeir piltar ákváðu loksins að fara niður í bæ var ég of vonsvikin og þreytt í pissublöðrunni til að gera nokkurn skapaðan hlut, svo ég fór bara heim og þar er ég nú, bíðandi eftir Sölva og Californication, sem er hinn ágætasti þáttur.
Góða nótt og góða helgi, ég vona að þið þarna úti hafið átt afdrifaríkari föstudag en ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2007 | 18:40
Teppi.
Nei, þetta var eiginlega ekki nóg. Ég verð að blogga meira. Lýst ekki öllum vel á að heyra sögur úr hversdagslegu lífi mínu? Það er eflaust skrautlegra en margra annarra.
Ég kýs að líta á sjálfa mig sem mjög friðsama og skynsama manneskju, en í dag lýsti ég yfir heilögu stríði á móti aðstoðarskólastjóra Fjölbrautarskólans míns í Garðabæ, sem ég kýs að nefna eigi á nafn. Nokkrir nemendur skólans hafa á síðustu dögum tekið eftir lækkandi hitastigi og sumir þoldu ekki við lengur, og tóku upp á því að koma með flísteppi með sér í skólann. Það þótti mér bráðsniðugt og í morgun ákvað ég að taka með mér mitt eigið sökum þess að sama hversu vel ég dúðaði mig var mér skítkalt. Í tveggja tíma samfelldu eyðunni minni varð mér á í messunni og lagði mig í sófanum með teppi yfir mér.
Þegar ég var alveg að hverfa inn í veröld dansandi einhyrninga á glitrandi regnboga hamingjunnar var eins og ég vaknaði upp við vondan draum. Þarna birtist hann mér, maðurinn sjálfur í mynd hins holdkennda guðs, aðstoðarskólastjórinn. Hann potaði í mig og sagði mér að ég ætti ekki að liggja svona með teppi yfir mér eins og einhver róni, þetta liti illa út fyrir utanaðkomandi aðila sem heimsækja skólann (eins og skólinn sé uppfullur af ókunnugu fólki í vettvangsleiðangri), og svo væri bannað að vera með teppi.
Ég horfði agndofa á hann og trúði varla mínum eigin eyrum. Uppreisnarseggurinn sem ég er spurði ég hann rólega og kurteisislega hvort hann væri í fullri alvöru að tilkynna mér það að væri mér kalt, væri mér meinað að grípa til minna ráða til að halda á mér hita. Á þessum tímapunkti fauk hressilega í kallinn og hann öskraði á mig fyrir framan alla að ég væri bara eins og einhver róni og auðvitað væri bannað að vera með teppi yfir sér í skólanum! Auk þess sem hann reyndi að sannfæra mig um það að það væri sko bara ekki neitt kalt, og það sæist greinilega á skólasystrum mínum sem voru bara nokkuð léttklæddar. Mig langaði helst að lýsa því yfir að ég hefði lítinn sem engan áhuga á því að fylgja í fótspor kynsystra minna og klæða mig eins og glyðra í nákvæmlega engu samræmi við veðrið en ég ákvað að loka fyrir þverrifuna áður en fauskurinn tæki upp á því að klippa teppið mitt í ræmur og búa til músastiga úr því. Hann benti mér þó á að ég mætti vera með teppi í andyrinu. Ég spurði hann sallaróleg í fasi að sjálfsögðu hvort hann væri virkilega að stinga upp á því að ég leggðist niður með teppi í andyrinu. Maðurinn varð þá svo reiður að ég ákvað að grjóthalda kjafti á meðan hann kenndi mér mína lexíu og öskraði eitthvað óskiljanlegt niður til mín.
Að þessu loknu sat ég í sófanum, teppalaus og niðurlægð það sem eftir var dagsins. Mig langaði bara að koma eftirfarandi hlutum á framfæri:
Mér finnst alveg út í hött að teppi séu bönnuð innan veggja skólans.
Mér finnst óviðeigandi að aðstoðarskólastjóri skuli öskra á nemanda fyrir framan fullt af fólki fyrir það eitt að breiða yfir sig teppi.
Mér finnst að aðstoðarskólastjórinn ætti að hætta að klæðast þröngum bolum.
Takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.10.2007 | 17:49
Rithringur
Við erum enn á sama stað...
Góðan daginn, Hekla Aðalsteinsdóttir!
Jæja, nú hefurðu ekkert heimsótt okkur á Rithringnum í langan, langan tíma!
Hvernig væri að líta við? :)
http://www.rithringur.is
Ef þú manst ekki lengur aðgangsorð og lykilorð, þá eru þau hér.
********
Sjáumst!
Rithringur.is
Kríííípííííí! Það er ekki nema mánuður síðan ég fór þarna inn síðast. Ég vissi ekki að vefsíður gætu verið uppáþrengjandi. Á ég að fá samviskubit eiða eitthvað svoleiðis?
Umsátur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.10.2007 | 02:15
Mæspeis.
Sem afsprengi mæspeiskynslóðarinnar og sérstakur áhugamaður um plássið sjálft finn ég mig knúna til að ausa hér úr brunni reiði minnar, þar sem það væri óviðeigandi og dónalegt að gera það á mæspeisinu sjálfu. Þetta vefsetur er á hraðri leið til heljar og verður meira og meira óþolandi með degi hverjum af eftirfarandi ástæðum:
SPAM: Auglýsingar fyrir megrunarkúra, frí gjafakort í Macy's, TYPPASTÆKKUNARPILLUR? Hættið bara að ýta á þetta, í guðanna bænum, er enginn búinn að ná þessu? Víííííruuuus. VÍÍÍRUUUUS! Það myndi spara mér mikinn tíma við að eyða út þessu rusli. Rúmlega helmingur síðanna hjá öllum mínum mæspeis-"vinum" er sýktur af þessum skelfilega sjúkdóm sem smitast hraðar en herpes undir fullu tungli á jónsmessunótt! Jesús, Pétur og María, passið ykkur.
TRÚGIRNI: Hafið þið einhverntíman frétt af einhverjum sem hefur verið skorinn í ræmur af eineygðri níu ára draugastúlku og blinda hundinum hennar Rúfus vegna þess að viðkomandi gerði þau mannlegu en stórhættulegu mistök að framsenda ekki viðvörunarbréfið sem hann fékk á mæspeis? Nei, líklegast vegna þess að það HEFUR ALDREI GERST. Og Tom er ekki að fara að skemmileggja síðuna þína afþví að þú framsendir ekki skilaboðin sem þú fékkst frá Önnu Guðmunds út í bæ til tuttugu mæspeis-"vina" á innan við sólarhring. Ef Tom skyldi detta í hug að eyða vefsíðum myndi hann líklega færa okkur fréttirnar sjálfur, sem þó væri skrýtið í ljósi þess að hann er löngu búinn að selja mæspeis.
HLJÓMSVEITIR OG BÚÐIR: Ég á mér þá ósk æðsta að óþekktar hljómsveitir úti í heimi og smekklausar uppboðssíður hætti "adda" mér. Ég á erfitt með að segja nei og sit þessvegna uppi með kristilegar metal-hljómsveitir og fatabúðir fylltar drasli af háaloftinu hjá ömmu. Ég vil ekki meir! LEYFIÐ MÉR AÐ VERA!
DÓNASKAPUR: Sóðaleg skilaboð frá sveittum perrum allt frá Úsbekistan til Sádi-Arabíu eru dottin úr tísku, hvað ætlast þeir eiginlega til að græða á þeim?
TOPPLISTAMÓRALLINN: Ég þoli ekki þegar fólk vælir yfir staðsetningu þess á mæspeis-topplistanum mínum. Vissulega gef ég sjálfri mér fullt leyfi til að skipta mér af því hvernig fólk hagar topplistanum sínum, en minn er eins og hann er og ef ég breyti honum er það á mínum eigin forsendum. Staðsetning gefur ekki beinlínis til kynna nákvæmt magn af væntumþykju minni í garð hvers og eins eftir röð, heldur fer listinn aðallega eftir því hversu mikið ég umgengst hvern og einn. Hjalti er reyndar undantekning, hann er bara í fyrsta sæti vegna þess að einhverntíman gerði ég samning við hann um að við yrðum að vera með hvort annað í fyrsta sæti á myspace að eilífu.
Jæja. Þá er því lokið. Mér líður strax miklu betur :)
Góða nótt.
Spurning dagsins: Afhverju er ekki hægt að ávarpa sjálfan sig með einskonar þérun?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.10.2007 | 15:42
Dauði náungakærleiksins.
Í gær var ég stödd í miðbæ Reykjavíkur og hafði ákveðið að gera mér glaðan dag eins og svo oft áður og fara út á lífið með vinum mínum. Kvöldið byrjaði vel í kokteilboði og seinna um kvöldið færði ég mig yfir á Hressó sem þetta kvöld bar sko aldeilis nafn með rentu og hitti þar fleira fólk. Þar var drukkið og dansað, hlegið og sungið en eftir klukkutíma eða svo fannst okkur kominn tími til að færa okkur um set, svo við héldum upp Laugarveginn í átt að hinum nýja vinsæla skemmtistað 7-9-13.
Þegar leiðin var hálfnuð heyrði ég brothljóð, og fann allt í einu blóð leka niður fótlegginn. Það næsta sem ég sá var að bílstjóri bílsins við hliðina á mér hló dátt með vinum sínum og brunaði í burtu. Það sem gerðist semsagt var það að þessi maður hafði keyrt yfir glerglas við hliðina á mér sem sprakk í tætlur og fór allt í vinstri fótinn á mér.
Ég fór inn á næsta bar til þess að komast í vask svo ég gæti þrifið sárin og plokkað glerbrotin úr. Þegar þangað var komið blasti við mér röð af fólki sem virtist hvergi ætla að enda. Í örvæntingu minni gekk ég upp að stúlkunni sem var fremst í röðinni því hún virtist vingjarnleg og spurði hana kurteisislega hvort ég mætti kannski skreppa inn á undan henni því skórinn minn væri að fyllast af blóði og ég þyrfti að tína glerbrot úr fótleggnum. Hún leit á mig, svo á fótinn, þagði í smá stund og kvaðst svo vera alveg skít drullusama um mig og minn fót því hún væri að míga á sig. Ahh, miskunnsami samherjinn.
Ég komst inn á karlaklósettið og Tómas hinn elskulegi tók nóg af klósettpappír í nesti, svo héldum við út. Þar komum við auga á lögreglubíl. Inni í honum voru þrír lögregluþjónar sem sögðust hafa við mikilvægari mál að fást. Ég spurði hvort það væri forgangur í leigubíl fyrir slasað fólk, en eina svarið sem ég fékk var að ég gæti ekkert gert nema labba niður að leigubílabiðröðinni eða hringja og bíða. Sjúkrabíllinn og sjúkraliðarnir í götunni höfðu einnig öðrum hnöppum að hneppa og höfðu engin ráð fyrir mig nema að hringja bara á leigubíl. Það var löng bið í leigubíl svo ég endaði á því að draga kærasta móður minnar úr rúminu klukkan fjögur um nótt til að skutla mér upp á slysó.
Nú er ég ekki að segja að ég hafi verið stórslösuð og það hefði þurft að bera mig í gullstól upp í Fossvog á fimm mínútum, en ætti þessi gæsluher sem hefur ekkert að gera niðrí í bæ allar helgar að bjóða upp á einhverskonar aðstoð fyrir lítillega slasað fólk? Er þetta sinnuleysi eðlilegt? Og hvað verður svo um fólkið sem á yfir höfuð engan pening fyrir leigubíl eða aðstandendur til að hringja í? Er náungakærleikurinn dauður úr öllum æðum? Á það ekki að heita glæpur að bruna á brott eftir að hafa slasað einhvern?
Ég er ringluð, reið og alsett plástrum. Ég hræki framan í náungann og yfirvöld.
Hrmpff.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)