Færsluflokkur: Bloggar
28.3.2008 | 00:20
ung stúlka í atvinnuleit.
Í ljósi þess að ég, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, einlægur atvinnuskeinir eldri borgara þurfti að leggja klósettpappírinn á hilluna nýlega fyrir leiklistina bráðvantar mig einhvera skemmtilega, upplífgandi, fræðandi, vel borgaða og þægilega vinnu. Einhverjar uppástungur? Ég er opin fyrir öllu nema...
Vinnu í Smáralind eða Kringlunni
Vinnu þar sem ég þarf að vakna fyrir átta
Vinnu sem fatafella
Vinnu þar sem ég þarf að vera að gera það sama allan daginn
Vinnu með leiðinlegu fólki
Vinnu á leikskóla.
Allar aðrar hugmyndir eru vel þegnar, og það sem fyrst
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.3.2008 | 04:55
Í dag...
Í dag áttu merkir hlutir sér stað.
Í dag var hárið á mér túperað þar til ég leit út eins og konungur ljónanna.
Í dag sá ég mjög mjóar stelpur í mjög stuttum pilsum.
Í dag hitti ég Gillzenegger, Ceres 4 og helling af vöðvatröllum.
Í dag lék ég mér við pínulítinn hvolp.
Í dag græddi ég þrjúþúsund krónur, inneign hjá símanum (ég er hjá vodafone) og pítsu.
Í dag seldi ég sálu mína djöflinum.
Í dag dansaði ég í Merzedes Club myndbandi.
Dæmið að vild.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2008 | 07:24
þegar allt fór til fjandans.
Sem smáborgari mikill brá mér í brún þegar ég lenti í samræðum um fall krónunnar. "Krónan féll um heil sjö prósent!" var mér sagt. Þar sem ég legg mikið upp úr því að reyna að vera með á nótunum fannst mér skammarlegt að átta mig á því að ég vissi bara ekkert hvað það þýddi, svo ég setti bara upp ógeðslegahneyksluðoghissa-svipinn minn. Smá svona sko ---> . Það var ekki fyrr en ég gluggaði í blöðum á klósettinu þar sem þetta var einfaldað fyrir aulum eins og mér, sem ég áttaði mig almennilega á ástandinu. Föt, matur og áfengi munu hækka um 30%! Allt sem ann ég heitast!
Nokkrum dögum seinna var ég að hlusta á fréttirnar. Pólverjar eru að berja aðra Pólverja. Afsökunum til að vera með fordóma í garð innflytjenda fjölgar með degi hverjum, og áður en varir byrja Íslendingar líklega að slást við Pólverja líka, en það verður líklega Pólverjunum að kenna, því að þúst, þeir byrjuðu.
Ég fór að fá ónot í magann yfir þessu öllu saman og var þungt hugsi þegar ég gekk niður stigann í Bæjargili 60. Áður en ég vissi af rann ég í miðjum stiganum og rann á rassinum niður á að giska tólf tröppur, og svo á steingólfið. Nú er ég með áverka á baki og rassi sem líta út eins og landakort, og ég get ekki beygt til vinstri. Og þó fór ég á Kaffibarinn í kvöld. Ég sat í makindum mínum þegar einhver stelpa reyndi að færa stól en missti stólinn ofan á mig. Ég fór niður til að jafna mig (enda afskaplega reið og bitur yfir þessu öllu saman) og gekk í áttina að klósettinu. Allt í einu potaði einhver náungi í augað á mér! Hvur andskotinn sagði ég, varstu að pota í augað á mér? En það skiptir ekki öllu máli.
Þegar ég fór loksins upp aftur var ég brennd á fæti með sígarettustubbi, en það var allt í lagi því að stuttu seinna var HRÆKT Á MIG! Og þess vegna er ég bara með ónot yfir þessu öllu saman? Hvað er næst? Verð ég lamin af fólki sem halda að ég sé Pólverji, úrskurðuð sem grænmeti og dæmd í hjólastól að eilífu? Skömmtunarmiðar? Stálhurðar? Hlýnun jarðar? JIHAD?! RAGNARÖK!?! HVUR ANDSKOTINN, ÞAÐ ER BYRJAÐ AÐ SNJÓA!?!, jæja, þá þarf ég að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar í bili.
- Hekla Elísabet, frekar smeyk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2008 | 18:59
bara brjóst.
Ég las grein um dagin sem fjallaði um sænska konu í samtökunum "bara bröst". Kona þessi fór í sund einn góðan veðurdag en varð það á í messunni að fara úr bikinítoppnum í hita augnabliksins, og var handtekin þegar hún neitaði að fara aftur í hann. Nú er mitt helsta baráttumál kannski ekki að fá að spóka mig um berbrjósta á almannafæri, en þessi kona hefur nokkuð til síns máls.
Það er vissulega ósanngjarnt að konur þurfi að hylja brjóstin sín en ekki karlmenn. Ég held ég þekki engan sem finnast kvenmanns brjóst ljót og myndu ekki vilja hafa þau í kring um sig, enda eru fituvefir ekkert svo brjálæðislega tabú. Þess vegna er ég með nýja hugmynd.
Klæðum karlmenn í brjóstahaldara líka! Afhverju mega þeir ganga um með flaksandi loðin brjóst hvar sem þeir vilja? Á meðan heimurinn heldur áfram að fitna fer karlmannsbrjóstum fjölgandi en ekki þurfa þeir að hafa áhyggjur af því að verða handteknir fyrir sjónmengun á almannafæri. Þetta myndi leysa öll heimsins sundlaugarvandamál. Nú getur Pippi Sörensen eða hvað sem hún heitir loksins verið ánægð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.3.2008 | 16:19
Hér hef ég í höndum mínum...
Það allra stærsta strokleður sem ég hef á ævi minni séð!
"For JUMBO mistakes."
Ég ætla að taka það með mér heim, kannski ég þurfi einhvern daginn á því að halda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2008 | 04:07
Þetta var einn af þessum dögum..
Ég vaknaði í morgun (klukkan fjögur) við fagurt bank á gluggann minn. Þetta var einskonar inngrip vinkonu sem finnst ég sofa og fast og ákvað að grípa í taumana eftir ótal ósvaraðar símhringingar.
Sólin glampaði á gluggann minn og einnig brosið hennar. Við sóttum fleiri vini, fórum á kaffihús, pöntuðum okkur smárétti og spjölluðum um heima og geima.
Við gengum öll niður Laugarvegin og komum við á matsölustað til að sníkja gamalt brauð. Næst gengum við niður að Reykjavíkurtjörn þar sem við köstuðum varningnum til fugla, og einnig í hvort annað. Það var mikið hlegið og loftið angaði af vori. Ég var reyndar slegin utan undir af gæs, en það er önnur saga.
Þegar sólin fór að setjast fórum við í ísbíltúr um gamla Vesturbæinn, og svo loks heim til mín þar sem við kúrðum uppi í sófa og horfðum öll saman á lesbíuklám.
Ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2008 | 19:21
Óður til skemmtanalífsins í Reykjavík.
Ég er bara 18 ára og kenna á því fæ
Klukkan tólf á miðnætti er mér dröslað nið'rí bæ
Undan háum skónum gef ég frá mér lítið kvein
Því haldi ég áfram svona verð ég bráðum allt of sein
Kríublundur til hádegis og hvítvínsflaska á kvöldin,
Mér er sagt að bíða meðan frostið bítur kinn
Kríublundur til hádegis og hvítvínsflaska á kvöldin,
Ég er orðin stressuð yfir að komast ekki inn.
Framar í röðina ég treð mér nú og ýti
Orðin frekar vönkuð eftir stympingar og tog
Stelpan fyrir aftan mig ryðst fram úr mér í flýti
Ég held ég tryllist bráðlega, detti og fái flog.
Kríublundur til hádegis og hvítvínsflaska á kvöldin,'
Ennþá látin bíða meðan næsti maður fer
Kríublundur til hádegis og hvítvínsflaska á kvöldin,
Eitt er víst að dyravörður ræður öllu hér.
Bráðum kemur sólin upp og ég er ennþá hér
Lykla-Pétur enn svo upptekinn af sjálfum sér
Tíminn er svo afskaplega lengi enn að líða
En sjá, nú þarf ég loksins ekki lengur hér að bíða...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.3.2008 | 07:39
sólskin og fuglasöngur.
Í þann mund sem að nágranninn á móti kveikir ljósin á veröndinni skríð ég loksins upp í rúm, köld, uppgefin og sjúklega hamingjusöm.
Á morgun tel ég mig færa í flestan sjó, enda er hann spegilsléttur þessa dagana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2008 | 07:39
það má ekki pissa bak við hurð...
Á ég að þurfa að smíða örk til að komast herbergja á milli?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)