Færsluflokkur: Bloggar

GAAAAAAAAARG!

Blog.is má deyja, ég er búin að eyða svona tveimur klukkutímum af lífi mínu í að skrifa færslu sem hvarf og ég fæ aldrei aftur. Djöfulsins bull.

Ég auglýsi eftir nafnlausri manneskju

Áðan fékk ég undarlegt en krúttlegt nafnlaust sms í símann minn sem í stóð "Halló rauðhærða gyðja... Hafðu það alveg rosalega gott í dag og mundu að BROSA :D"

Ekki það að ég hafi neitt á móti því að fá sms á leiðinlegum vinnudegi, og síður en svo finnst mér leiðinlegt að vera kölluð gyðja, en núna er ég svo óóógeeeeðslega forvitin um hver sendi mér þetta að ég er gjörsamlega að missa vitið. Vinsamlegast gefðu þig fram við afgreiðsluborð.

- Hekla Elísabet vinnupúki


Verslunarmannahelgin víðfræga

Þá er ég loksins komin heim úr þessari yndislegu svaðilför minni, sem var æðisleg í alla staði. Sérstakar þakkir fá...

  • Græni sardínudósarbíllinn, fyrir að koma okkur nokkuð örugglega á milli staða
  • Bensínstöðvar landsbyggðarinnar, fyrir að fæða okkur með ruslmat á leiðinni
  • Svenni, fyrir að hýsa okkur í þakíbúð ömmu sinnar yfir helgina
  • iPodinn hans Bergen, fyrir að sjá okkur fyrir brakandi ferskri elektró-tónlist í þrjá sólarhringa
  • Vigtin í kvennaklefa Sundlaugar Akureyrar, fyrir að tilkynna mér það að ég hef misst tæp tíu kíló síðan í vor án þess að hafa hugmynd um það
  • Arnar Ari, fyrir bolluna, bjórinn og fyrir að hafa útbúið þetta líka fína rúm á eldhúsgólfinu
  • Myndavélin hennar Hönnuh, fyrir að taka skemmtilegar myndir sem þið fáið að sjá innan skamms
  • Frúin í Hamborg, fyrir að selja mér falleg föt á afslætti og gefa mér þverslaufu í kaupbæti
  • La vita bella, fyrir að selja okkur besta mat í geimi á afmælisdegi Katrínar
  • Kaffi Akureyri, fyrir að senda okkur fötu af bríser á þessum sama afmælisdegi
  • Plötusnúðurinn á Kaffi Akureyri, fyrir að spila óskalagið mitt fjórum sinnum
  • Senegalinn Dúmbai (eða eitthvað), fyrir að dansa dónalega við Katrínu og leyfa mér að vinna hann í sjómann
  • Hannah, Katrín og Úlfur fyrir að vera snilldar ferðafélagar og frábærir vinir
  • Allir skyndibitastaðir bæjarins, fyrir þynnkumatinn
  • Hannah, fyrir að setja Treo töflu upp í sig og byrja að froðufella því hún vissi ekki að hún ætti að leysast upp í vatni

Sérstakar óþakkir fá...

  • Stelpan á Kaffi Akureyri, fyrir að banna mér að skjótast á klósettið eftir lokun og neyða mig til að pissa í runna með tveimur kerlingum
  • Amma Svenna, fyrir að eiga ekki nægan klósettpappír á heimilinu
  • Beljurnar sem notuðu andlitsþurrkurnar mínar sem klósettpappír þegar góð ráð voru dýr
  • Ljóti krakkinn með pulsuna á AK-Inn fyrir að stara á mig of lengi
  • Hver sá sem kúkaði í buslupottinn í sundlauginni með þeim afleiðingum að þurfti að loka honum
  • Ónafngreindur, fyrir að láta sér blæða um allt stofugólf í bullandi áfengisvímu
  • Plötusnúðurinn á Kaffi Akureyri, fyrir að neita að spila óskalagið mitt í fimmta skiptið

 Eins og þið sjáið eru fleiri þakkir en óþakkir. Það er líka svaka fínt. En nú ætla ég að pissa. Góðar stundir.


UGghhhhgfrr

Svo ég spóli hratt yfir hræðilega skelfilega niðurlægjandi kvöld sem ég átti í gær þá varð það svo mikill hryllingur að á hápunkti þess ákvað ég að fara til Akureyrar um helgina.

Já, ég er að fara á útihátíðina "Ein með öllu" á Akureyri um verslunarmannahelgina, með Hönnuh og Úlf, og við erum með gistingu þar. Innandyra.

Mamma, ekki fá flog.


Tiltekt aldarinnar!

Í gær eftir vinnu (kl. fjögur) var ég svo þreytt að ég ákvað að leggjast upp í rúm og fá mér smááá lúr.. bara leggja mig aðeins og fara svo að gera eitthvað. Sú áætlun mín gekk þó ekki alveg eftir því ég vaknaði ekki upp af þessum fegurðarblundi fyrr en einhverntíman upp úr hádegi í dag.. ekki jafn falleg og ég hafði búist við þó. En þessi dagur var þó aldeilis afdrifaríkur. Í dag tók ég til í herberginu mínu. Um leið og ég vaknaði spratt ég á lappir og byrjaði að taka til, og hætti ekki fyrr en kl. ellefu í kvöld. Já, það tók mig tíu klukkutíma að taka til í herberginu. Engin orð fá því lýst hversu ógeðslegt herbergið mitt var áður, en kannski ég geti sýnt ykkur myndir...

Ruslruslrusl

Daman

meira rusl

Þessar myndir eru þó pínu gamlar, gítarinn þarna var sumsé löngu kominn á kaf þegar ég hóf tiltektina. Sem betur fer lítur það allt öðruvísi núna. Öll fötin eru hrein og komin inn í skáp (þvoði tíu vélar, takk fyrir!), hrein rúmföt (í staðinn fyrir engin rúmföt), diskar og glös eru í uppþvottavélinni, skórnir í hillunni, hátalararnir á skenknum, matarleifar í ruslinu, ljósaperur í lömpunum, ryk í ryksugunni, glerbrot (já, glerbrot) komin í öruggan skókassa, og í fyrsta skipti síðan í janúar get ég séð gólfið mitt. Mér finnst þetta pínu skrýtið, ég verð eiginlega að fá smá tíma til að venjast þessu. Herbergið mitt hefur eiginlega alltaf á einhvern undarlegan hátt endurspeglað huga minn, eins og góður maður sagði eitt sinn þegar hann gekk inn í herbergið mitt í fyrsta skipti: "Vá, mér líður eins og ég sé kominn inn í sálina þína". Ætli ég verði þá ekki að fara að taka til í heilanum líka fyrst allt er orðið svona fínt hérna inni!

Ég fann undarlega hluti þarna inni, og hefst nú upptalningin. Ég fann til dæmis..

  • Vel harðnaðan brauðmola
  • Ógrynni af pallíettum
  • Þrjá diska
  • Fjögur glös
  • Vegabréfið mitt (JESS!)
  • Hnésokkana alla sem ég týndi í vetur
  • Þrjátíu-og eitthvað kjóla
  • Nokkra Seinfeld diska
  • Átján innkaupapoka úr hinum ýmsu verslunum
  • Nokkur brotin herðatré
  • Svuntu (?)
  • Rykmaurafjölskyldu
  • Gamlar stílabækur frá því tímabili er ég gekk í Menntaskólann við Sund

Og fleira og fleira... Nú ætla ég að fara að sofa, með sængurföt. Tíhí, mér líður eins og prinsessu.

P.s. Málverkið af djörfu konunni er eftir hana Silju vinkonu mína, og er ekki af mér, bara svo það sé á kristaltæru.

- Hekla Elísabet tiltektarfrömuður


GAAAAARG!

Ekki veit ég afhverju síðan mín er allt í einu appelsínugul en einhver fær að gjalda fyrir þetta.

Hvar er sveðjan mín!?!?!?!?!

                   

Sunnudagur...

Fátt er verra en vondur sunnudagur.
Sólin er farin og ég var rifin á lappir eftir klukkutíma svefn, enn aðra andvökunóttina og aldrei þessu vant var vaktin mín í eldhúsinu. Ég minnist þess ekki að hafa verið ráðin þangað sem eldhússtúlka, og er ekki par hrifin af þessu enda finnst mér fátt ógeðslegra en matarleifar og rúsínuputtar. Ég fór heim eftir vinnu og lagði mig, en vaknaði upp við vondan draum. Pabbi minn er að halda óvænt matarboð og húsið mitt er fullt af fólki. Ég náði að læðast inn á klósett og fara í stutta sturtu og er nú komin aftur í öruggt skjól, veit ekki alveg hvort ég fari fram yfir höfuð.

Í kvöld hef ég engin plön en ég býst fastlega í því að ég muni ekki gera neitt merkilegt, enda er sunnudagur og ég í sögulega vondu skapi. Ég dansa sko ekki við neinn í kvöld.


Lauuugardagur!

Það er fátt yndislegra en góður laugardagur.
Sólin skín og ég var rifin upp eftir tveggja tíma svefn, átti neflilega aðra svona skemmtilega túrverkja-vökunótt. Vaktirnar á Heilsuverndarstöðinni á laugardögum eru yndislegar. Allir eru í góðu skapi og fátt um að vera, alveg hreint stóísk ró yfir staðnum núna. Svo eftir vinnu gæti ég kíkt á kaffihús með móður minni, ég ætlaði að hringja í hana og athuga það núna áðan en fattaði svo að klukkan er ekki nema hálf tíu og mamma yrði líklega ekki kát yfir því að vera vakin svona snemma. Mamma, hringdu í mig þegar þú lest þetta.

Í kvöld er svo Studio 54 kvöld á q-bar og erum við vinkonurnar farnar að venja ferðir okkar þangað ef markmiðið er að dansa, og það er einmitt það sem mig langar að gera í kvöld. Ég sá kvikmyndina um stúdíóið fræga og er orðin ansi spennt. Spurning um að setja upp afró og fara á hjólaskauta? Adios amigos! Dansið við mig í kvöld.


Óður til tíu-ellefu starfsmanns.

Kæri búðarklerkur

Ég veit að þessi heimsókn mín er ekkert fagnaðarefni, hvorki fyrir mig né þig. Ég er sjálf hundsvekkt yfir því að þurfa að borga fúlgu fjár fyrir aumt oststykki, og þú eflaust hálf leiður yfir því að þurfa að líta upp úr séð og heyrt blaðinu og sinna starfi þínu, en ef við drögum bæði djúpt inn andann ætti þetta að taka fljótt af. Ég get rétt ímyndað mér af hverju svipurinn sem myndast á andliti þínu gefur til kynna væna blöndu af tregafullri sálarkvöl og sársaukafullri hægðatregðu þegar ég nálgast afgreiðsluborðið, það er örugglega ekkert gaman að vera sölumaður dauðans í sólarhringsbúð tíu-ellefu, og þá sérstaklega þegar þú þarft að rífa þig upp af rassgatinu og vinna fyrir kaupinu.

Þú horfir ekki í augun á mér, enda er ég antikristur holdi klæddur, þessi óþolandi kúnni sem læðist aftan að þér þegar þú hélst að það væri ekkert að gera og spillir friðnum á svo svívirðilegan hátt. Og ekki dettur þér í hug að bjóða gott kvöld, enda er þetta kvöld jafn dimmt og drungalegt og pínulitla sálartetrið sem er fast í þínum luralega og hálf kynþroska líkama. Ég dáist að þér fyrir að ná að stynja því upp úr þér að það sé ekki heimild á kortinu mínu, og rétti þér hitt kortið með samúðarfullt blik í augum.

Ég afþakka afritið til að tryggja það að þú verðir ekki ónáðaður meir, brosi og þakka fyrir mig. Þú þarft ekkert að brosa samt, það reynir á fleiri vöðva en þig órar fyrir. Á leiðinni heim bið ég fyrir glataðri sálu þinni og vona innilega að þú munir finna hamingjuna og þína löngu glötuðu þjónustulund þegar vaktinni er lokið.

Þín einlæg, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir.


Ég talaði of hratt...

Og er nú komin með hita aftur :(
Hvers á ég eiginilega að gjalda???
Jæja.. best að skríða aftur upp í svitablautt rúmið...

kv. Lasarus


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband