Blöggað á ný.

Mikið andskoti er ég löt. En þá að öðru. Ég á við vandamál að stríða.

Þannig er mál með vexti að ég bý nú á tveimur stöðum, hjá mömmu, og hjá pabba. Eins og ég var nú búin að venjast því vel að búa hérna ein í stóra húsinu, getað dansað nakin við háværa tónlist um miðja nótt og neyta allskyns eiturlyfja í fullkomnu einrúmi (ókei ég gerði það ekki, en ég hefði getað gert það), þá var Adam ekki lengi í paradís. Nú er ég ekki lengur eyland, ég hef endurheimt föður minn og fengið lítinn bróður í kaupbæti. Ekki misskilja mig, báðir eru ágætis gaurar. En þessi bróðir! Hann bara... öskrar og öskrar! Allan daginn! Annaðhvort er hann skríkjandi af gleði, organdi af spenningi eða vitstola af bræði. Þetta er allt gott og blessað á daginn (enda hefur hann oft merkilega hluti að segja) en næturnar eru öllu erfiðari. Ég vakna af meðaltali 1728 sinnum á hverri nóttu við ópin í honum. Nú veit ég að þið mæður þarna úti vorkennið mér eflaust ekki neitt því ég þarf ekki að sinna honum, leyfa honum að taka yfir lífi mínu og gubba á öll fötin mín, en þetta er samt pirrandi og þreytandi til lengdar.

Og svo ef ég vil flýja þetta umhverfi hef ég að vísu annan kost, það er að fara heim til móður minnar. En það er ekki mikið friðsælla umhverfi. Hún heldur hávaðanum að vísu í lágmarki þegar hún er vakandi, en þegar hún sofnar, þá byrjar ballið. Margir myndu halda að hrotur væru einfalt vandamál til að leysa og ráðleggja mér að sofa bara á sófanum. En það er einfaldlega ekki hægt, vegna þess að sófinn er u.þ.b. einum metra frá rúminu sem við móðir mín deilum.. í 37 fermetra íbúð. Og þetta eru engar smá hrotur. Við erum að tala um manneskju sem hljómar eins og múrbrjótur á amfetamínsterum um leið og hún festir svefn. Eina lausnin væri mögulega að fara í útilegu á svölunum, en þá myndi ég örugglega rekast á Einar sem deilir með okkur svölum. Einar er lítill skrýtinn kall sem á lager af tuskudýrum sem ganga fyrir batteríum og hlustar á Útvarp Sögu allan liðlangan daginn. Svona án gríns.

Þó fellur allt í ljúfa löð innan skamms. Ég og mamma erum að fara að flytja í íbúð í Vesturbænum, sem er með TVEIMUR svefnherbergjum. Ójá, það þýðir sko eitt herbergi á mann.

Ég er farin að pakka! Veiiiii!

P.s. þetta er alvöru comeback


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband