Mjólkursamsalan

Já gott fólk, þó svo að nú sé ég loksins búin að finna mig í náminu er óhætt að segja að það hafi tekið sinn tíma. Á árum áður var það nefnilega þannig að ég hafði eiginlega ekki hugmynd um hvað mig langaði að gera eða hvað væri gott fyrir mig að læra. Þá var það eina sem mér datt í hug að gera það sem ég væri best í, sem þá var að læra tungumál. Til þess að geta valið úr sem flestum tungumálum sótti ég um í Menntaskólanum við Hamrahlíð, og annars vegar Menntaskólann við Sund í varaval. Seinni skólinn var í rauninni valinn af handahófi, enda var ég alveg viss um að ég kæmist inn í MH, en annað kom í ljós. Þann dag er ég fékk neitunarbréfið grét ég mikið, ég er ekki viss um hvort það hafi verið höfnunartilfinningin eða tilhugsunin um það að ég þyrfti að fara í MS. Ljósið í myrkrinu var þó hún Beta vinkona mín sem fyrir nákvæmlega sömu sök endaði í MS, og við lentum saman í bekk.

Ég á aldrei eftir að gleyma skólasetningunni. Við Elísabet vorum ansi fúlar þegar við gengum upp að skólanum. Fyrir utan andyrið komum við auga á furðulegan strák. Hann var hokinn, í flíspeysu og kuldaskóm og var með hvítt hár yfir öllu andlitinu. "Þessi gaur á örugglega eftir að vera eini vinur okkar", sagði Beta í gríni.

Þegar inn var komið litum við Beta í kring um okkur. Hún í gardínupilsi og ég í brúnni lopapeysu. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Hvert sem ég leit voru skinkur, endalaus hafsjór af skinkum af öllum stærðum, gerðum og kynjum, og allar horfðu þær á okkur eins og við værum með fjögur höfuð og grænar bólur. Reyndar er ég nokkuð viss um að við horfðum eins á þær til baka. Ég virti fyrir mér þessa ókunnugu tegund á meðan ég áttaði mig smám saman á því að ég hefði gert stærstu mistök ævi minnar. Þarna átti ég greinilega ekki heima.

Tvær vikur höfðu liðið af skólanum og ennþá höfðu krakkarnir í bekknum ekki haft nein orðaskipti við hvort annað. Við nánari athugun á málinu kom í ljós að við vorum afskaplega sein í þeim málum því hinir busabekkirnir voru þegar farnir að halda bekkjarpartý og létu eins og risastórar fjölskyldur. Því fannst okkur Betu kominn tími á að opna aðeins fyrir samskiptin í hópnum og tókum til máls fyrir utan stærðfræðistofuna einn morguninn. Við kynntum okkur, og Beta ávarpaði svo hópinn. "Eruð þið að vinna einhversstaðar?", spurði hún. Enginn svaraði. Hún spurði aftur. Enginn svaraði. Óttinn leyndi sér ekki í augum þeirra, enginn þorði að hreyfa legg né lið. "...Ég var að vinna í Nóatúni í sumar", náði loks ein stúlkan að stynja upp úr sér. Stórsigur var unninn. Í kjölfarið kynntu hinir sig líka og svöruðu spurningunni. Þá heyrðist úr horninu frá furðulega síðhærða stráknum "Ég er leigumorðingi...". Og þá varð aftur þögn.

Það leið ekki á löngu áður en spá Betu hafði ræst. Furðulegi síðhærði strákurinn var orðinn besti (og eini) vinur okkar í bekknum, hann Hallvarður. Ég stelst hér til að birta bút úr bloggfærslu hans sem skrifuð var í september 2005 eftir að ég og Beta höfðum misboðið bekknum á svo svívirðilegan hátt að enginn vildi tala við okkur, eða bjóða okkur með þegar bekkurinn fór út að borða. Ég skil það samt eiginlega vel, við vorum ógeðslega leiðinlegar. Það var eiginlega orðið uppáhalds sportið okkar.

"Talandi um rússnesku, ástandið í bekknum mínum hefur horfið til hins verra. Þetta er aðeins það sem ég er að skynja í loftinu, en svo lítur út fyrir að bekkurinn sé að skilja misfit-ana tvo (Betu og Heklu) út undan, það finnst mér verulega ljótt, við búum í samfélagi og við eigum að koma vel fram við alla, sama hvernig þær klæða sig.
Það eru til tvenns konar misfits, það eru adorable misfits eins og áður nefndar bekkjar-systur mínar og svo er það hljómsveitin misfits. Fismits kallaði græni púkinn. Fismits. En hvað þýðir það og hvað er ég gaula hér eins og galdranorn frá Grímsfirði?"

Já, við vorum misskildar. Um miðja önn tók einn bekkjarbróðir okkar upp á því að koma með skopparabolta í skólann, og lék sér flissandi og slefandi að honum allan daginn. Um hádegið fór hann svo út með boltann og fleygði honum langar vegalengdir og sótti hann aftur, svolítið eins og hundur að leika við sjálfan sig. Á endanum kom svo náttúrulega að því að hann fann ekki boltann aftur. "Þorri, hvar er boltinn þinn?" spurði einhver þegar hádegishléið var búið, og ég gekk framhjá. "Hekla borðaði hann!" svaraði Þorri skelfingu lostinn og benti á mig. Ég hló svolítið þar til mér varð ljóst að hann ætlaði sér ekki að segja neinum að hann væri að grínast. Fólk gapti af undrun yfir þessu uppátæki mínu. Nú var ég ekki aðeins frík, heldur frík sem borðaði skopparabolta. Betu fannst þetta drepfyndið og fullyrti að hún hefði séð mig fremja þennan gjörning.

Þetta var ekki í eina skiptið sem ég öðlaðist frægð innan veggja skólans. Maggi vinur minn ákvað einn daginn að taka þátt í keppninni Ungfrú Belja.is (dragkeppni emmessinga), og til þess þurfti hann að fá eitt og annað lánað hjá mér. Ég lánaði honum kjól, farða, krullujárn og brjóstahaldara, og úr varð þessi líka myndarlega kona. Þegar Maggi var búinn að dansa uppi á sviði við Britney lag og grúttapa héldu menn sáttir heim á leið. Mánuði síðar var brjóstahaldarinn minn orðinn partur af sýningu sem listanefndin stóð fyrir og var búið að hengja hann upp ásamt orðum um kúgun kvenna á vegg í miðjum skólanum. Á meðan ég reyndi að púsla saman mögulegum ástæðum fyrir því að bjóstahaldarinn minn væri þarna niðurkominn tókst Betu að sjóða upp eldheitt slúður þess efnis að ég hefði sofið hjá Ásgeiri formanni listanefndar í kjallaranum, og hlaupið svo skömmustuleg og brjóstahaldaralaus út. Ásgeir hefði svo geymt haldarainn til minja, rétt eins og í Öskubuskuævintýrinu. Þessu gleymdu menn seint.

Já góðir lesendur, það var margt sem gerðist á þessari einu önn sem ég eyddi í MS sem vert er að muna eftir, áður en ég gerðist droppát í hálft ár. Ævintýri þessi hafa hér með verið skráð í væntanlega ævisögu mína sem mun koma út í þremur bindum árið 2024 og svo örugglega fleiri í framhaldið af því, vegna þess að ég skrifa alltaf allt of mikið. Með þessari bloggfærslu fylgja svo eftirfarandi myndir sem allar voru teknar á umræddu tímabili, ykkur til yndisauka.

Verið heil og sæl þangað til næst,
Ungfrú Belja.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg færsla! Bloggaðu oftar stúlka!

kristin Reynisdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2009 kl. 01:57

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 26.6.2009 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband