Vitiði hverjum ég vorkenni mest?

Ég vorkenni mest þeim sem sitja í eigin fangelsi. Reisa sér rimlabúr, læsa sig þar inni og kyngja lyklunum. Þeim sem lifa bara eftir reglum, takmörkum og markmiðum.

Ég vorkenni þeim sem neita sér um lystisemdir lífsins, hverjar sem þær kunna að vera í augum einstaklinganna, og þeim sem refsa sjálfum sér fyrir að uppfylla ekki óraunhæf skilyrði sín eða annarra.

Ég vorkenni einnig þeim sem finnst að allir aðrir ættu að gera slíkt hið sama. Þeim sem finnst ekkert vit í því að lifa frjálsu og kærulausu lífi vegna þess að þeim finnst óeðlilegt að fara út fyrir kassann. Þeim sem halda að það sé bara ein leið til að lifa lífinu.

Ég vorkenni þeim sem eru fullir af yfirlæti og hroka. Þeim sem halda að þeir séu betri en allir aðrir. Þeim sem líður ekki vel nema öðrum líði illa.

Þeim sem eru sífellt í kappi við sjálfa sig og aðra, og sætta sig ekki við að vera ekki betri en allir aðrir í öllu. Þeim sem eru nískir, geyma allt sem er gott og spara fram á seinasta söludag.

Ég finn til með þeim sem gleyma sér í lífsgæðakapphlaupinu í of langan tíma til þess að átta sig á því að það færir manni ekki hamingju að eiga og geta mest af öllum.

Ég vorkenni þeim sem eru of uppteknir af öllu sem er að og gæti verið betra til þess að sjá hvað augnablikið er gott, og hvað heimurinn og lífið er oft fallegt, þó það geti auðvitað stundum líka verið ljótt.

Ég vorkenni þeim sem gagnrýna sjálfa sig í sífellu og eru endalaust háðir áliti og samþykki annarra. Þeim sem rækta ekki hæfileika sína, og þora ekki að koma þeim á framfæri. Þeim sem þrá að gera eitthvað, en láta aldrei verða að því.

Ég sárvorkenni þeim sem lifa fyrir annað og aðra en sjálfa sig, og vanmeta eigið líf. Þeim sem hafa ekki trú á neinu, og sjá ekki það góða í sér og öðrum. Þeim sem einblína á galla í eigin fari og annarra.

 Þeim sem geta ekki elskað sjálfa sig fyrr en allir aðrir gera það líka. Þeim sem kunna ekki að meta það sem er öðruvísi og famandi. Þeim sem kvíða öllu og lifa í stöðugum ótta við að bregðast sér og öðrum.

Ég vorkenni þeim sem eru ófærir um að elska og sjá fegurðina sem í því felst. Þeim sem hafa verið sviptir hugrekkinu til að gefa sig öðrum. Þeim sem bera ör frá fortíðinni. Þeim sem byrgja inni tilfinningar sínar og segja ekki það sem þeim liggur á hjarta.

Þeim sem eyða ævinni í að fylla upp í innra tómið með vitleysu því þeir vita ekki hvað það var sem skapaði tómið til að byrja með. Þeim sem leita sífellt að hamingjunni á vitlausum stöðum. Þeim sem kunna ekki gott að meta. Þeim sem hata og fyrirlíta. Þeim sem eru afbrýðisamir, og þeim sem eru alltaf reiðir og neikvæðir.

Mest vorkenni ég alltaf þeim sem eru yndislegir að innan sem utan, og sjá það aldrei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

er þetta bloggið um mig hekla?

djók.

Gyða Lóa (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 19:56

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 5.12.2008 kl. 01:48

3 identicon

Já... ég held að þetta eigi við um alla að einhverju leyti.

kv.

mamma

kristin (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 10:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband