13.11.2008 | 02:52
Kreppuvæl
Ég veit ekki með ykkur, en ég er komin með nóg af kreppuvæli, reyndar er frekar langt síðan.
Hér er hugleiðing handa ykkur sem ég fann uppi á korktöflu í vinnunni í dag.
"Eins og fram hefur komið höfum við verið að styrkja ugandískan námsmann sem óvænt varð á vegi okkar fyrir rúmu ári síðan þar í landi, til vegs og virðingar þ.e. hann er í námi sem við greiðum fyrir. Hann var búinn að lofa að senda mér einkunnirnar sínar sem hann og gerði. Góður árangur er nefnilega lykillinn að því að hann fái áfram styrk. Eins og hann vissi. Nú er frí í skólanum og hann byrjar aftur 10. nóvember.
Ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að reyna að útskýra fyrir honum hvernig gangur mála væri hér á landi ég stórefa að fréttir berist alla leið til hans þarna í Entebbe. Ég var að velta því fyrir mér hvernig ég gæti útskýrt þetta fyrir honum. Ef ég stæði augliti til auglitis við hann ímynda ég mér að samtalið færi svona:
- (Ég) Hæ E.
- Heyrðu það er úr vöndu að ráða íslenska þjóðin er orðin gjaldþrota!
Hvað segirðu, en leiðinlegt að heyra systir kær. Eigið þið þá ekki fyrir baunum og maís?
- Jú reyndar eru búðir fullar af mat og kindur og mjólk til í nægu magni.
Hvað segirðu, þið eigið þá mat, það er gott. En leiðinlegt að heyra að þið eigið ekki skjól eða þak yfir höfuðið!
- Jú við eigum reyndar íbúð eins og flestir, það eru fáir heimilislausir á Íslandi.
En hvað segirðu, eru þá allir veikir (sérstaklega þeir eldri og yngri) og heilbrigðiskerfið lamað?
- Nei nei reyndar ekki, við fáum nánast ókeypis læknaþjónustu og erum með ágætt heilbrigðiskerfi.
Nú jæja systir, gott að heyra en leiðinlegt samt að menntunin muni fara halloka og að ekki muni allir hafi tækifæri til að læra að lesa, sérstaklega ekki konur.
- Jú reyndar er 99% læsi á Íslandi og menntakerfið er ágætt, margir með háskólagráður jafnt konur sem karlar.
Það er nú gott, þannig að það eina sem þið þurfið að passa er að lenda ekki í stríði við nágranna ykkar.
- Uuuu við erum reyndar ekki með her og erum nú friðsæl þjóð. Leiðinlegt samt að þurfa alltaf að hlusta á helvítis vælið í honum Gordon Brown
Ok en samt verst að þið komist ekki í hreint vatn.
- Jú við eigum reyndar besta vatn í heimi.
Nú en vegakerfið er þá eflaust ónýtt og fáir bílar á ferð..í Afríku ganga jú allir eða nota troðna strætóa, asna, reiðhjól o.fl leiðinlegt ef að ekki einu sinni strætóarnir ganga.
- Uuu það er verið að ræða hvort almenningssamgöngur eigi að vera ókeypis og vegir eru malbikaðir og flestir eru á bílum, mótorhjólum og fallegum, skínandi reiðhjólum (gömul reiðhjól eru lúxusvara þarna um slóðir).
En það er verst ef þið eigið enga peninga til að gera ykkur glaðan dag, ef þjóðin er gjaldþrota.
- Flestir eiga reyndar sparnað á bókum þó margir hafi tapað honum síðustu daga, kannski erfitt að kaupa stærri sjónvörp og svoleiðis og utanlandsferðunum verður jafnvel að fækka.
Samt svakalegt ef atvinnuleysi er yfir 50-70% þannig að nánast ómögulegt sé að fá vinnu?
- Reyndar er atvinnuleysið um 2% Íslendingar nenna bara ekki að vinna vinnuna sem útlendingarnir unnu
Hmmm svo þið hafið húsnæði, mat, húsaskjól, heilsu, menntun, frið, hreint vatn, samgöngur (og bíla), peninga hvert var vandamálið aftur?
Eftir að hafa lent í samræðum við ugandíska lærlinginn í huganum þá ákvað ég að vera ekki að íþyngja honum með ræfilslegum áhyggjum mínum af gjaldþrota eyríki. Ég sendi honum fyrir námsgjöldum næstu annar og kannski smá vasapening með. Hann þarf nefnilega að ganga í marga klukkutíma annars til að komast í skólann því hann hefur ekki efni á strætó, húsnæði, mat, bókum, skriffærum né neinu öðru. Systir hans E hefur hótað því að lemja hann ef hann stendur sig ekki vel (sagði hún mér sjálf) og ég vil ómögulega gera honum þetta erfiðara fyrir."
Sjálfsagt þykir einhverjum þessi samanburður barnalegur. Ég geri mér grein fyrir því að það eru slæmir hlutir að gerast hérna heima, fólk er að missa peninga, eignir og fyrirtæki og veit ekki hvað það á að gera. Þetta verður að sjálfsögðu allt erfiðara en það hefur verið áður, en persónulega mun ég ekki leyfa mér að kvarta og kveina yfir kreppunni fyrr en ég missi matinn, vatnið, heilsuna, vinnuna, ferðakostina, rétt minn til náms, öryggi heimalandsins og fólkið mitt. Þó ástandið sé ömurlegt er hvorki heimskulegt né barnalegt að vera ánægður með það sem maður á, vera jákvæður og vona það besta.
- Hekla Elísabet
Athugasemdir
Þetta er alveg rétt hjá þér.
Verðugt umhugsunarefni.
TH
Tryggvi Hübner, 13.11.2008 kl. 03:45
Mér finnst þetta ekkert barnalegt.
Það var aftur á móti barnalegt af íslendingum að trúa þessum fermingarstrákum fyrir öllnum aurunum okkar og sparnaði og leyfa þeim síðan að spila með þá eftirlitslaust. Það er barnaskapur að halda að allir geta grætt.
Marta Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 13.11.2008 kl. 18:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.