Ég er stundum fremur óheppin.

Á fimmtudagsmorguninn lagði ég upp í langferð með rifna tösku og gamalt strætókort. Það er löng og merkileg saga á bak við þetta gamla strætókort. Í sumar var ég að vinna í heimaþjónustu á vegum heilsuverndarstöðvarinnar, svo yfirmaður minn í þeirri deild gaf mér þetta líka fína rauða strætókort sem var í gildi frá 28. júní til 28. september. Mér fannst það mjög góður díll því ég gerði ráð fyrir því að þann 28. september yrði ég komin með skólakortið mitt svo ég sá fram á það að ég yrði ekki í nokkrum vandræðum með að koma mér á milli staða fyrr en kannski mögulega í maí 2009. Þetta var ég afskaplega ánægð með.

Tíminn leið og á endanum rann rauða kortið mitt út, en ég var ekki komin með skólakort vegna endalausra vandræða með umsókn mína. Ég hugsaði með mér að kannski gæti ég bara notast við rauða kortið þar til vandamálin með skólakortið yrðu úr sögunni, og vonaði að enginn tæki eftir því. Ennþá lengri tími leið, og sextándi október rann upp. Sumsé fimmtudagsmorguninn sem hér er um rætt. Ég var búin að nota þetta útrunna strætókort tvisvar á dag í rúmar tvær vikur án þess að nokkurn grunaði mig um græsku. En þessi fimmtudagur var öðruvísi. Ég steig inn í strætó, framvísaði kortinu hratt og ætlaði að halda mína leið en strætóbílstjórinn sá í gegn um mig og bað mig um að koma aðeins aftur fremst í strætóinn. Það leið næstum yfir mig, mér leið eins og búðarhnuplara eða einhverju þaðan af verra.

Hann bað um að fá að sjá kortið mitt aftur og tilkynnti mér það hátíðlega að það væri löngu kominn október. Ég sagðist vera meðvituð um það og reyndi eftir fremsta megni að útskýra fyrir honum vandamálin sem ég hafði strítt við með umsókn mína um skólakortið en hann vildi ekki heyra það (enda skildi hann mig varla) og tók af mér kortið. Ég náði þó einhvern veginn að sannfæra hann um að leyfa mér að fljóta með frítt og gefa mér skiptimiða, ég man ekki einu sinni hvernig ég gerði það því ég var að fara á taugum, enda lítið fyrir að fremja glæpi hvort sem þeir eru stórir eða smáir. Ég komst á endanum í vinnuna og huggaði mig við það að ég þyrfti ekki að taka strætó heim, því strákur sem er að vinna með mér skutlar mér alltaf þangað eftir vinnu. Í lok dagsins gerði ég mig líklega til að leggja í hann en þá sagði Aldo að hann væri á leið í Hafnarfjörð svo hann gæti ekki keyrt mig heim. Ojæja.

Ég var ekki með krónu á mér, hvorki í veskinu né á kortinu svo ég hringdi í pabba og bað hann um að leggja inn á mig fimmhundruðkall svo eg gæti farið í bónusvídeo, keypt mér eitthvað og tekið 300 kr. framyfir. Þegar þangað var komið ætlaði ég að kaupa mér kók og bað stelpuna um að taka akkurat 500 á kortið. Hún sagði mér að það væri búið að banna henni að taka framyfir. Ég grátbað hana um að gera undantekningu en hún þverneitaði og benti mér á aðrar verslanir í grenndinni. Ég fór í þær allar en það er víst búið að banna það allstaðar. Mér líkar illa að vera föst uppi á Vatnsenda svo ég sendi Örnu og Stefáni sos skilaboð því ég átti ekki inneign, en hvorugt þeirra svaraði. Ég sat í strætóskýlinu og hugsaði stíft um hvað ég gæti gert. Í sömu andrá keyrði fyrrverandi ökukennarin minn framhjá mér. Okkur lenti saman snemma á árinu 2006 þegar ég var nemandi hjá honum og hann sagðist ekki geta kennt mér lengur. Ég ætlaði þvílíkt að feisa hann, fá mér nýjan og betri kennara, og ná bílprófi með glans. Það verkefni hefur setið á hakanum í þó nokkurn tíma svo ég roðnaði niður í tær þegar hann keyrði fram hjá mér þar sem ég sat... Í strætóskýli.

Öll mín von virtist vera úti, svo það eina sem ég gat gert í stöðunni var að labba heim. Ég gekk af stað, og það var kalt. Allt í einu byrjaði að rigna. Það rigndi og rigndi og ég var orðin blaut í gegn. Ekki nóg með það heldur kom gat á skósólann minn og á endanum fór hann af. Þarna var ég eins og einhver umrenningur labbandi við hraðbrautina í átt að smáralind og náði á endanum að drösla mér þangað inn. Sem betur fer var Hannah að klára vinnuna svo ég fór með henni heim, fór í sturtu og í hrein föt. Svo skemmtilega vildi einnig til að ég átti skó heima hjá henni.

Þar með lýkur sögunni af þessum óhappadegi. Reyndar ekki en ég ætla að stoppa hér á meðan þið hafið ennþá einhvern snefil af virðingu fyrir mér.

- Hekla Elísabet, hrakfallabálkur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta hefði getað verið verra og mér finnst þú nú bara heppin að hafa hitt þessa hönnu og að hún hafi verið með skó handa þér. Svo ertu líka rosalega heppin að það sé nóg af ódýru og heitu vatni á íslandi til að hlýja sér eftir svona raunir. Svo sparaðir þú pening í strætó og þetta varð að ágætri sögu sem þú gast bloggað um.

Ég hef ekki verið jafn heppin og þú í langan tíma, það gerist aldrei neitt hjá mér.

Bjöggi (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 21:02

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Hólmdís Hjartardóttir, 19.10.2008 kl. 21:30

3 identicon

Hehehe. Strætó bílstjórar eru brútal. Þeir eru orðnir skuggalega góðir í að sjá í gegnum fólk og fylgjast vel með að allir séu að borga!

LMH (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 23:09

4 Smámynd: Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir

Hoho, Bjöggi pollíanna.

Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, 20.10.2008 kl. 00:53

5 identicon

hver var ökukennarinn þinn?

Ég er sammála Bjögga ég var farin að vera meðvirk orðið ískalt og vorkenndi þér alveg óendanlega mikið og þegar ég heyrði að þú komst þér inní smáralind hugsaði ég úff en hún á eftir að labba alla leiðina frá Smáralindinni og enn þú heppin af hafa hitt manneskju sem þú þekktir til að keyra þig heim, þetta er líka frábært blogg ég vorkenni þér rosalega mikið en þetta er ótrúlega skemmtileg saga, sem þú getur sagt við ýmis tilefni :) 

strætóbílstjórinn sem keyrir mig á morgnanna er rosalega góður :) (reyndar held ég að þetta sé ekki alltaf sami maðurinn á hverjum morgni en ég tala samt um hann í eintölu) en það var heldur ekki rosalega mikið vesen með strætókortið mitt. :/ vonandi fer þetta að komast í lag hjá þér :) þ.e. strætókortavesenið annars geturu kannski freistað þess að fá skaðabætur frá strætó allavega fyrir ónýtan skó því .. en það getur verið að ég sé búin að lifa og  hrærast aðeins of mikið í lögfræði seinustu daga :D 

Tinna Borg (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 11:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband