Einelti og heilræði

Ég fór í viðtalið í dag, um eineltið sem ég setti inn færslu um þann 1. sept fyrir þá sem ekki eru búnir að lesa hana. Í viðtalinu benti sálfræðingurinn mér á mynd sem gerð var eftir bókinni "Odd girl out" eftir Rachel Simmons, sem ég hef lesið aðeins úr á netinu. Ég var að ljúka við að horfa á myndina á youtube. Hér er fyrsti hluti www.youtube.com/watch?v=rvS-hZNRRuY og ég mæli með því að allir horfi á þessa mynd. Ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunum sem vakna upp við að horfa á hana, ég er eiginlega ennþá með kökk í hálsinum og hnút í maganum. Þessi mynd er um stelpu sem er útskúfuð frá vinahópnum sínum vegna "misskilnings" sem á sér stað þess að innan og hlutirnir byrja að vinda upp á sig þar til allir eru með í hatrinu og eineltinu. Það er kannski ein minning sem kemur sterkt upp í hugann við áhorfið og það er minning frá því að ég hætti í fyrsta skólanum sem ég var lögð í einelti í og byrjaði í öðrum, þar sem ég lenti í svipuðum atvikum, og man ég sérstaklega vel eftir einu atviki sem ég hef ekki rifjað upp áður en hérna kemur það, haft skal þó í huga að ég hef aldrei tjáð mig um þetta áður, sérstaklega ekki á eins opinberum vettvangi og þessum nema kannski við mömmu mína og nánustu vini...

Þegar ég var í held ég sjöunda bekk í þessum skóla og átti ekki marga vini voru samt margir sem reyndu að ná mér eitthvað út úr skelinni. Ein vinsælasta stelpan í bekknum ákvað að halda upp á afmælið sitt rétt fyrir jól. Hún kom til mín í fatahenginu eftir skóla þegar ég var á leiðinni heim og sagði mér að hún ætlaði að halda upp á afmælið sitt og mér væri boðið en það væri samt ein stelpa sem væri ekki boðið afþví að öllum fyndist hún leiðinleg og hún vildi ekki hafa hana í afmælinu sínu. Ég fékk sting fyrir hjartað því ekki svo löngu áður hafði ég verið þessi manneskja. Í sjokki mínu talaði ég við eina vinkonu mína í skólanum og sagði henni frá því sem hún hafði sagt mér, og mér fyndist þetta ekki rétt enda höfðu afmælisstelpan og sú sem ekki var boðið verið vinkonur. Einhvern veginn barst það sem ég sagði út og þegar sagan hafði tekið á sig fullkomna mynd barst hún þannig til afmælisbarnsins að ég hefði sagt að hún væri léleg vinkona. Ég man ekki hvort þetta var fyrir eða eftir afmælið, ég man ekki einu sinni hvort ég fór í afmælið eða ekki.

Andinn í kring um mig fór fljótt að verða undarlegur og ég fór á jólaball skólans eitt kvöldið og fór svo heim til frænda míns að passa dóttur hans. Stuttu eftir að ég var komin þangað og litla frænka var sofnuð fékk ég símtal frá afmælisbarninu. Hún öskraði og öskraði og spurði hvernig ég dirfðist að halda því fram að hún væri vond vinkona, ég þekkti hana ekki nógu vel til að segja svoleiðis hluti og svo rétti hún símann á milli stelpna sem voru þarna sem öskruðu allar ókvæðisorð að mér þar til ég lagðist í hnipur í sófann og grét og grét, slökkti á símanum og þorði ekki að svara í hann allt jólafríið. Ég hafði verið nógu niðurbrotin fyrir en þetta gerði útslagið og ég lá bara í leti og sleni yfir jólin, og hafði enga löngun til að gera neitt. Ég hafði verið hálf þunglynd síðan í fyrsta skiptið sem ég var lögð í einelti, og var nú orðin ennþá verri. Ég vildi ekki trúa því að þetta ætlaði að endurtaka sig. 

Í nokkra daga áður en skólinn byrjaði aftur eftir jólafríið var ég í hálfgerðu kvíðakasti. Ég var viss um að ég myndi ekki lifa það af að fara aftur í skólann og langaði helst að hlaupast á brott og fara aftur í gamla skólann minn. Ég fór þó í skólann aftur en þá var eins og þetta hefði aldrei gerst, og ég var dauðsfegin því að þurfa ekki að takast á við það, í sannleika sagt. Þetta var ekki í síðasta skiptið sem eitthvað svona gerðist. Ég minnist þess þegar ég eignaðist vinkonu sem var nýflutt í hverfið mitt og við vorum mikið saman, þar til að hún fór að vera með annarri stelpu í sama bekk sem var vinsælli en ég og gat þar af leiðandi ekki verið vinkona mín lengur. Einn daginn fór allt rafmagnið af húsinu mínu svo ég rölti yfir til hennar til að fá að hringja í pabba minn. Þær komu báðar til dyra og stóðu í dyragættinni á meðan ég útskýrði mál mitt fyrir þeim, þær sögðu að ég mætti hringja en ég mætti ekki koma inn, því strákarnir í bekknum væru allir í heimsókn, hvað sem það átti svosem að þýða, svo þær komu með símann út til mín og ráku mig svo á dyr.

Já gott fólk, grunnskólaganga er enginn dans á rósum. Ég vil taka það sérstaklega fram að með þessum eineltis-færslum er ég ekki að reyna að fá vorkunn, spila mig sem fórnarlamb, segja að ég hafi aldrei gert neitt ljótt eða væla yfir löngu liðnum hlutum. Mér finnst einfaldlega að það minnsta sem ég get gert er að miðla reynslu minni yfir til þeirra sem eru að lenda í þessu í dag. Þetta er alltaf til, allstaðar. Það getur enginn sem ekki hefur lent í svipuðu gert sér hugmynd um þá sálarangist sem fylgir því að vera lagður í einelti, og það eru ekki allir jafn heppnir og ég að eiga góða fjölskyldu og fólk sem þykir vænt um mann sem styður þá í gegn um það. Þess vegna er ég að skrifa þetta, ég vona að einhver geti leitað eftir styrk í því sem ég hef lent í og komið vel út úr. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að enda þessa færslu því það eru einfaldlega svo mörg skilaboð sem mig langar að koma á framfæri.

Nú hef ég heyrt að seinasta blogg mitt um þetta hafi farið víða, og jafnvel skilað sér til þeirra sem þurfa að þola einelti í dag. Það sem mig langar að segja við þau er eftirfarandi:

Einelti varir ekki að eilífu, og það sem drepur þig ekki gerir þig sterkari. Það er hægt að öðlast svo marga eftirsóknarverða eiginleika af því sem þú lærir af því að þurfa að grafa þig upp úr erfiðleikum, með hjálp þeirra sem þykja vænt um þig. Þetta kemur að öllum líkindum ekki til með að ásækja þig, heldur frekar þá sem leggja í einelti. Einelti sprettur oftast upp af öfundsýki. Einelti þitt verður ekki til af einhverju sem þú gerir, heldur einhverju sem er að gerast innra með þeim sem leggur í einelti. Andlegt ofbeldi er mun algengara og oft skaðsamlegra en líkamlegt ofbeldi, og einelti er sjaldnast líkamlegt. Sumum finnst þeim þurfa að gera lítið úr öðrum til að upphefja sitt eigið sjálfstraust. Eftir að hafa verið lagður í einelti, er það versta sem maður getur gert sjálfum sér, að halda í reiðina. Besta hefndin felst í því að lifa góðu lífi í sátt við sjálfan sig þegar erfiðið er yfirstigið, sem það er alltaf á endanum.

- Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá Heklan mín.. ég sit liggur við hérna með tárin í augunum...

vildi bara segja þér að mér finnst þú algjör hetja.

maður saknar þess nú svolitið að þú sért ekki í skólanum... cooome back :)

en og aftur.. hetja hetja og hetja :) 

Guðrún Gylfa (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 20:49

2 identicon

Jæja mín kæra. Þú ættir að fara á milli skóla og halda fyrirlestra. Ég er svo stolt af þér og svo ánægð með að þú skulir hafa öðlast þann þroska að sjá hvernig slæmir hlutir í lífinu geta stundum haft góð áhrif á það sem seinna gerist!

Mamma

kristin (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 21:09

3 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

  







Hólmdís Hjartardóttir, 13.9.2008 kl. 01:09

4 identicon

eg bara tók ekkert eftir þessu í 8 bekk

ég var örugglega inni í sims eða að búa til stuttmynd :)

tóta (IP-tala skráð) 14.9.2008 kl. 20:38

5 Smámynd: Elísabet Kristjánsdóttir

Já ég vil bara hér með biðja þig afsökunnar Hekla. Þó við höfum rætt þetta á léttu nótunum hef ég held ég aldrei sagt fyrirgefðu við þig.

Ég man ekki mikið frá þessum tíma en man þó að ég tók þátt og var ekkert að stoppa þetta. 

Ég man þó að í sjötta bekk þegar þú varst nýbyrjuð þá sagði ég við aðra stelpu að mér þætti þú rosalega falleg. Stelpan sagði við mig að þú værir leiðinleg og við ættum ekkert að vera að tala við þig. Og auminginn ég fór eftir þessu. 

Og þegar kom að 8 bekk, eins og Tóta segir þá héldum við tvær okkur svolítið útaf fyrir okkur og vorum ekki að fylgjast með miklu í skólanum. 

 Vildi ég óska að ég hefði í þá daga verið sú manneskja sem ég er í dag og gert eitthvað í hlutunum, talað við þig eða varið þig þegar aðrir töluðu niðrandi um þig. Ég var ekkert nema fylgifiskur í þá daga og reyndi að gera mitt besta til þess að verða ekki sjálf fyrir barðinu. Skammast ég mín mikið fyrir það í dag.

En þú ert búin að blómstra í þessa frábæru, sterku og fallegu konu og er það heiður fyrir mig að geta kallað þig eina af mínum bestu vinkonum. 

Er ég feginn að þú hafir boðið mér í límonaði og kettlingaskoðun í 10. bekk og var það upphaf af frábærri vináttu sem ég hefði viljað að hefði byrjað fyrr.

Ég elska þig Hekla mín.

Þín vinkona, 

Elísabet.

Elísabet Kristjánsdóttir, 15.9.2008 kl. 11:12

6 Smámynd: Alexandra Briem

Vá, og ég sem hélt að það sem ég lenti í í grunnskóla hefði verið leiðinlegt.

Hjá mér dugði allavega til lengdar að vera sterkari en þeir og berja þá af mér þegar þeir sem voru að reyna að leggja mig í einelti réðust á mig. Stelpu einelti er einhvern veginn miklu illskeyttara.

Ég hafði ekki hugmynd um að þú hefðir lent í einelti, hvað þá svona slæmu. En þú mátt alveg vita að mér þykir þessi saga svakaleg, og þú átt mikið hrós skilið.

Alexandra Briem, 16.9.2008 kl. 16:42

7 identicon

Gott hjá þér Hekla mín að opna umræðu um einelti.

En að tala um það getur vonandi hjálpað einhverjum.

Það sem drepur mann ekki, styrkir mann, ekki satt?

Knús til þín og mundu þú ert frábær Kveðja frá Mörtu í Köben.

Marta Sævarsdóttir (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 18:43

8 Smámynd: Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir

Vá, ég hafði ekki hugmynd um þetta. Að lesa þessa færslu og líka þessa sem þú skrifaðir 1. september er eins og að láta draga orð úr hausnum á mér og sjá þau myndast á blaði...

"einu sinni þegar ég fór niður í matsal með nestið mitt og settist við hliðina á stelpunum í bekknum. Þær litu allar á hvor aðra, stóðu upp og settust við annað borð, og ég með mitt saklausa hugarfar hugsaði að þetta væri örugglega bara afþví að það voru of margir við borðið."

Þetta endaði með að ég fattaði hvað var í gangi og át inni á klósti mest allan 9. & 10. bekk.

"Ég átti til dæmis eina vinkonu sem kom stundum til mín eftir skóla og við lékum okkur saman. Áður en hún fór minnti hún mig á það að ég mátti samt ekki segja neinum að hún væri að leika við mig. Svo í skólanum lét hún eins og hún þekkti mig ekki, og tók þátt í eineltinu."

Við vorum "leynivinkonur" =)

"Svo áttu líka allir að vera ósammála mér. Ef ég var spurð um álit á einhverju, þá voru allir ósammála mér eftir að ég var búin að lýsa yfir skoðun minni. Ég man reyndar eftir því að oft þegar ég talaði þá var mikið hlegið að því sem ég sagði, því ég notaði svo flókin orð og það þótti ekki kúl."

Ég var kölluð amman því ég notaði alltof háfleyg orð og notaði ekki slangur þússt, skiluru? Nema hjá mér var þetta þannig að í hvert skipti sem ég sagði eitthvað tóku allir fyrir eyrun, þótt það væri í miðjum tíma.

Ótrúlegt hvað maður er líkur á margan hátt sem manni dettur ekki í hug að ræða? ;)

Mér langar að skrifa bók!

Þorgerður Ösp Arnþórsdóttir, 3.10.2008 kl. 12:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband