1.9.2008 | 00:47
Einelti og gleymska
Um daginn var ég beðin um að fara í viðtal. Ekki starfsviðtal, heldur hefðbundið djúpviðtal í rannsóknarskyni hjá sálfræðingi sem er að rannsaka stelpueinelti eftir að hafa kynnt sér bókina "Odd girl out". Sálfræðingur sá er kunningi móður minnar og sagði henni frá verkefninu og spurði hvort hún þekkti eitthvað til í þeim málum, móðir mín sagðist jú þekkja mjög náið stelpu sem hafði orðið fyrir því í fyrri tíð. Það er víst hún ég. Ég var að spá í að fara þetta viðtal því það er nú eitt og annað sem það að hafa verið lögð í einelti hefur gefið mér. Þið haldið kannski að ég sé snælduvitlaus að halda því fram að það sé jákvæður hlutur að ég hafi verið lögð í einelti, en svo er alls ekki. Ég er meira að segja eiginlega dauðsfegin að hafa lent í því. Allavega, reynsla sem gott er að miðla og allt það...
En svo fór ég að hugsa um þetta einelti sem fór mest megnis fram þegar ég var í fimmta bekk.. þá hef ég verið hvað, tíu eða ellefu ára? Allavega. Ég man eiginlega ekkert eftir því. Ég man bara að ég var lögð í einelti, og svona eitt og tvö atvik eins og einu sinni þegar ég fór niður í matsal með nestið mitt og settist við hliðina á stelpunum í bekknum. Þær litu allar á hvor aðra, stóðu upp og settust við annað borð, og ég með mitt saklausa hugarfar hugsaði að þetta væri örugglega bara afþví að það voru of margir við borðið. Ég fór að rifja þetta allt upp með mömmu minni í kvöld, og ég trúi því eiginlega ekki að ég hafi bælt niður svona gífurlega margar minningar. Ég fékk að heyra margt sem ég var löngu búin að gleyma. Ég átti til dæmis eina vinkonu sem kom stundum til mín eftir skóla og við lékum okkur saman. Áður en hún fór minnti hún mig á það að ég mátti samt ekki segja neinum að hún væri að leika við mig. Svo í skólanum lét hún eins og hún þekkti mig ekki, og tók þátt í eineltinu. Þessu var ég löngu búin að gleyma.
Það var víst líka einhver leikur í gangi þar sem allt sem ég snerti var eitrað. Ef þær renndu sér niður í rennibraut og ég í sömu rennibraut á eftir þeim, þá fór enginn aftur í rennibrautina. Ef ég var búin að snerta penna, þá mátti enginn snerta hann á eftir mér. Þetta var grafið og gleymt. Svo áttu líka allir að vera ósammála mér. Ef ég var spurð um álit á einhverju, þá voru allir ósammála mér eftir að ég var búin að lýsa yfir skoðun minni. Ég man reyndar eftir því að oft þegar ég talaði þá var mikið hlegið að því sem ég sagði, því ég notaði svo flókin orð og það þótti ekki kúl. Það skal haft í huga að það voru þó bara stelpur sem tóku þátt í þessu, og ég vildi bara helst leika með strákunum, sem ég gerði.
Ég þoldi þetta lengi vel, en á endanum brotnaði ég víst og treysti mér ekki til að fara í skólann. Það var þá sem mamma arkaði upp á skrifstofu skólastjórans og lýsti því yfir að aleigan hennar gengi í þennan skóla, og það væri verið að eyðileggja hana og í ljósi þess ætlaði hún að taka mig úr skólanum. Ég var tekin úr skólanum í tvær vikur og á endanum fluttum við og ég fór í nýjan skóla. Ég man ekkert eftir þessu heldur. Ég man eftir því að hafa verið tekin úr skóla í einhvern tíma, en ég mundi ekkert af hverju fyrr en mamma rifjaði það upp fyrir mér.
Mér finnst þetta hálf ótrúlegt, að ég sé bara búin að blokka þetta allt út án þess að reyna það. Veit einhver af hverju þetta gerist? En svo ég haldi áfram með smjörið...
Þær stelpur sem stóðu á bak við þetta einelti voru allar teknar í viðtal á meðan ég var heima í einkakennslu (gott að eiga mömmu sem er kennari) og þær spurðar að því hvað það væri í mínu fari sem fengi þær til að koma svona fram við mig. Þá var nú fátt um svör, en eitt af því sem þær svöruðu allar var það að ég talaði svo fullorðinslega, og vildi bara leika við strákana. Það fór víst eitthvað fyrir brjóstið á þeim.
En ég trúi því að hver og ein einasta manneskja sem verður fyrir einhvers konar einelti og líði ekki varanlegan skaða fyrir það verði mun betra fólk fyrir vikið. Auðvitað tók það mig langan tíma að eignast vini eftir þetta, ég þurfti að kynnast sjálfri mér upp á nýtt og íhuga hvernig manneskja ég vildi verða (tímabil sem ég man þó vel eftir). Það eina sem ég var alltaf ákveðin í var að láta þetta ekki buga mig, og að þegar ég yrði eldri skyldu þessar stelpur fá að sjá að þrátt fyrir að þær reyndu að brjóta mig niður, þá sæi ekki á mér. Og viti menn, hér er ég í dag, heilsteyptur einstaklingur, samt ponku rugluð, og sé ekki eftir neinu. Því það er ekki ég sem þarf að lifa með það á samviskunni að hafa eytt heilu ári í að vera vond við einhvern vísvitandi. Ég þarf ekki að rifja það upp hvað ég var illgjarn krakki eða horfast í augu við manneskju sem ég lagði í einelti.
Vildi bara deila þessu hugsanaflæði með ykkur :)
-Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, sörvævor.
Athugasemdir
mjög góður pistill
Hólmdís Hjartardóttir, 1.9.2008 kl. 00:58
Frábær færsla. Ég er svo mikill gullfiskur að ég hætti yfirleitt að lesa ef þær fara yfir 2-3 stuttar málsgreinar, en ekki þessa.
Svo fannst mér fyndið að lýsingin um sjálfa þig er nákvæm lýsing á mér, nema kannski að eg er ekkert sérstaklega ungur lngur.
Villi Asgeirsson, 1.9.2008 kl. 03:32
fantagóð lesning. takk!
baun (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 09:45
Hmm, vá. Þetta er bara þónokkuð góð færsla.
Djöfull eru krakkar samt "þróaðir" 10 ára gamlir, allir þessir eineltis"leikir"sem þú lentir í ekki í takt við hugsanagang 10 ára krakka.
Maggi (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 10:19
Hekla snillingur! Alltaf verið og munt alltaf verða! Snillingar eru ekki vel þokkaðir af sjúkum og veikum einstaklingum. Það er dýrmætt að geta staðið uppi sem fullorðin manneskja og geta sagt "ég hef aldrei tekið þátt í einelti". Nokkuð sem þær munu aldrei geta. Greyin... Að hafa unnið svona vel úr þessu er einstakt, enda ertu einstök mín kæra.
Mamma
kristin (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 18:40
Takk fyrir að deila þessu með okkur Hekla mín. Það er ómeteanlegt að geta litið til baka og sagt "iss - ég leyfi ykkur ekki að skemma mig". Framkoman sem þú lýsir er óhugnanlega dæmigerð og á sér stað aftur og aftur, út um allt, særandi og meiðandi. Ég vona að sem flest börn lesi þetta og finni þann styrk sem þú hefur gullið mitt.
Iðunn Magnúsdóttir (IP-tala skráð) 1.9.2008 kl. 23:28
Reglulega áhugaverð lestning.
En þú hefur svo sannarlega ekki látið þetta buga þig, sem er jákvætt.
En annars megi Guð vera með þér og við hittums vonandi hress og kát sem fyrst.
Bjarni (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 09:52
I love you
Búbba (IP-tala skráð) 7.9.2008 kl. 02:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.