28.8.2008 | 19:41
Vægast sagt furðuleg framkoma á vinnustað..
Í maí á þessu ári hóf ég störf á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg. Ég var ekki búin að vera þar lengi þegar ég fann fyrir því hvað mér líkaði vel að vinna þar. Andrúmsloftið var afslappað, samstarfsfólkið var kammó, bjart var yfir öllu og staðsetningin að sjálfsögðu óaðfinnanleg. Ég var að vinna í öllum deildunum, á dagdeild, legudeild og heimaþjónustu. Eftir einn og hálfan mánuð var ég allt í einu tekin af öllum vöktum í heimaþjónustunni en fékk engar útskýringar á því, sama hvern ég spurði og var mér sagt að framvegis yrði ég aðeins á legudeildinni og stöku sinnum á dagdeildinni. Mér fannst það frekar leiðinlegt þar sem starfið sem ég var upphaflega ráðin í var mun fjölbreyttara og skemmtilegra, en ég kvartaði ekki og vann bara mínar vaktir. Þegar kom að því að gera starfssamning tjáði starfsmannastjórinn mér að hún ætlaði aðeins að gera tímabundinn samning til 1. september, eða þar til hún vissi betur hversu mikla vinnu ég gæti tekið að mér í haust, og svo yrði samningurinn minn endurnýjaður. Mér fannst ekkert athugavert við það svo ég skrifaði bara undir.
Í byrjun ágúst, rétt áður en ég hélt til Tyrklands í sumarfrí fór ég á fund með yfirmanninum mínum á dagdeildinni þar sem hún sagði mér að það væri ekki víst að ég gæti haldið áfram á legudeildinni í vetur, því fyrirtækið væri í krísu og til stæði að hafa aðeins faglært fólk á deildinni svo ég skyldi hafa augun opin fyrir nýju starfi en ennþá væri ekkert víst og ég fengi eflaust einhvern uppsagnarfrest. Mér fannst það leitt að heyra þar sem ég var búin að skipuleggja allan næsta vetur með það í huga að ég hefði fasta vinnu á Heilsuverndarstöðinni, en ég ákvað að velta mér ekki upp úr því og skellti mér út í sumarfrí.
Tveimur vikum seinna eftir fríið mitt kom ég í vinnuna á kvöldvakt og ætlaði að skoða vaktaplanið og brá mjög þegar ég tók eftir því að nafnið mitt var hvergi, og enginn sem var að vinna með mér hafði nokkra hugmynd um þetta. Ég var með hnút í maganum alla vaktina, enda erfitt að koma úr fríi og vera slegin í andlitið með blautri tusku sem þessari. Daginn eftir það kallaði yfirmaðurinn minn mig á fund aftur þar sem hún sagði mér það að samningurinn minn yrði ekki endurnýjaður vegna þess að það væri ekkert pláss fyrir mig lengur því deildirnar væru að skiptast í sundur og allt er víst í gasalegu uppnámi.
DAGINN ÁÐUR EN ÉG VERÐ ATVINNULAUS FÆ ÉG AÐ HEYRA ÞETTA.
Og í ofanálag á ég engan rétt á uppsagnarfresti vegna þess að samningurinn minn rennur út á mánudaginn. Ég spurði hana af hverju í ósköpunum hún væri að segja mér þetta fyrst núna. Ástæðan var víst sú að ég væri búinn að vera erlendis og enginn hefði það í sér að trufla mig. Núna er ég sumsé atvinnulaus, að fara að borga 70.000 króna fjarnám, bækur fyrir ég veit ekki hvað mikið, á leið að leigja herbergi í miðbænum (til að vera nálægt vinnunni) og ég er atvinnulaus.
Ég hringdi í VR og sú sem talaði við mig þar sagði að ég væri fullkomlega réttlaus í þessum aðstæðum, fyrst samningurinn minn væri tímabundinn. Þó var hún sammála mér í því að þetta væri gjörsamlega siðlaust og óréttlætanlegt. Og ég er ekki sú eina, kona sem var að vinna á dagdeildinni lenti í því sama, að koma úr sumarfríi og vera allt í einu ekki lengur skráð sem starfsmaður án þess að vita nokkuð til þess að það ætti að láta hana fara. Hún fær þó uppsagnarfrest vegna þess að samningurinn hennar var ekki tímabundinn.
Núna er ég að vinna seinustu vaktina mína hér og er skapi næst að ganga bara út en ég hef ákveðið að vera stærri manneskja en það. Svo komst ég að því bara í gær að búið er að vera að segja upp fólki þarna í stórum stíl, aðallega fólki í stærri stöðum innan fyrirtækisins. Ég las svo frétt á forsíðu 24 stunda í dag þar sem stendur að ég fái víst ekki borgað í lífeyrissjóð eða félagsgjöld heldur? Æji ég veit það ekki. Ég er bara hálf ringluð ennþá eftir þetta allt saman og finnst ég ba illa svikin.
- Hekla Elísabet, atvinnulaus, ráðvillt og fátæk.
Athugasemdir
Já. Velkomin í "einkarekum heilbrigðiskerfið" ...stefnu Sjálfstæðisflokksins!!!
kv.
Mamma
kristin (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 21:52
Hmm, þetta er ekki gott. Ertu ekki með neitt annað starf í huga?
Maggi (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 21:56
Og í þokkabót komin úr utanlandsferð þar sem maður er ekkert að spara. Þetta þykir mér ömurleg framkoma. Þú verður líklegast að skottast á Hrafnistu og athuga með vinnu?
Svo eru líka allar stórverslanir svosem Bónus, Hagkaup osfrv alltaf að leita að starfsfólki og sérstaklega ef viðkomandi er eldri en 12 ára. (Ég veit það eru ekki áhugaverðir vinnustaðir en þú veist, nakin kona neyðist til að spinna eða eitthvað).
Gangi þér vel og ég sendi þér góða strauma frá danaveldi.
Beta (IP-tala skráð) 28.8.2008 kl. 22:05
Gangi þér vel skottan mín
Hólmdís Hjartardóttir, 29.8.2008 kl. 00:22
Júbb, sendi starfsumsókn á svæðisskrifstofu fatlaðra í Reykjavík fyrr í kvöld.. nú er bara að krossa putta
Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, 29.8.2008 kl. 00:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.