26.8.2008 | 05:24
Komin heim! Með sögu sem ég skrifaði á meðan ég beið eftir rútu.
Sunnudagurinn 24. ágúst var versti dagur lífs míns. Hér kemur sagan af honum.
P.s. Karlmenn sem vilja helst ekki viðurkenna að konur séu mennskar, fari á blæðingar og skreppi á einstaka klósettferð eru vinsamlegast varaðir við því að lesa þetta blogg.
Ég kom heim af djamminu með Katrínu klukkan tíu mínútur í sjö um morguninn. Okkur langaði gífurlega mikið til að horfa á leikinn sem byrjaði korter í ellefu á Tyrkneskum tíma, en okkur langaði líka alveg afskaplega mikið til að sofa. Þá datt Katrínu sko snjallræði í hug. Hey! Við getum borðað morgunmat hér, farið svo með vindsængurnar út á strönd og sofið undir sólhlífinni fyrir utan Faros, vaknað svo korter í ellefu og farið beint inn að horfa á leikinn!. Þetta fannst mér að sjálfsögðu stórkostleg hugmynd, vart þarf að taka fram að það var ekki ennþá runnið af okkur þegar þessi hugdetta leit dagsins ljós. Við borðuðum morgunmat, smurðum á okkur sólarvörn og trítluðum niður á strönd með vindsængurnar. Ég var ekki búin að liggja þar lengur en í sirka sjö mínútur þegar mér varð ljóst að það væri óbærilega heitt og ekki nokkur smuga að festa svefn á slíkri steikingarpönnu. Ég fékk áfall, hljóp út í sjó og kældi mig.
Þegar við vorum loksins búnar að bíða nógu lengi til að horfa á leikinn vorum við orðnar svo myglaðar og þreyttar að við gáfumst upp og stauluðumst upp á herbergi og ég steinrotaðist. Ég vaknaði svo við hungurverki í sundfötum sem vægast sagt lyktuðu og staulaðist á lappir til að komast á klósettið, en þá byrjaði ég á túr. Mér til mikillar skelfingar áttaði ég mig á því að ég var ekki með neina túrtappa, dömubindi eða neitt til að kippa þessu í lag svo ég fór fram og bað stelpurnar um að kíkja út í sjoppuna fyrir utan til að grípa fyrir mig nokkra túrtappa, vatn og einhvern mat. Þær sögðust víst þurfa að fara út að borða fyrst og svo í súpermarkaðinn svo ég sagðist bara geta beðið og bjó til tímabundna lausn á vanda mínum sem verður þó ekki útskýrð frekar hér.
Tveimur klukkutímum síðar komu þær loksins og ég spratt á fætur til að ná í matinn minn. Hvar er hann!?!?!??! öskraði ég og fleygði mér í gólfið eins og óð manneskja. Hver? Æji heyrðu já, við gleymdum matnum.. og vatninu.. en við keyptum túrtappa! Sagði Hannah og henti til mín kassa af túrtöppum sem voru allir allt of andskoti litlir því Tyrkneskar konur eru greinilega með stjarnfræðilega lítil leggöng. Ojæja, ég get svosem lifað með því, hugsaði ég, lagðist niður og vorkenndi mér í svona hálftíma, fór svo í sturtu og lagði mig aftur.
Klukkan sjö var ég nær dauða en lífi af hungri svo ég skipaði stelpunum sem ætluðu að fara að versla að koma með mér á Taj Majal þar sem þú getur fengið himneskan indverskan mat. Þegar við vorum komnar þangað og maturinn kominn á borð var ég svo glöð að ég réði mér ekki fyrir kæti og borðaði svona þrjá bita áður en ég áttaði mig á því að það var ekki allt með felldu. Fimm mínútum síðar varð mér ljóst að þar var greinilega á ferð heiftarleg matareitrun. Ég lét stelpurnar vita af vanda mínum, borgaði fyrir matinn og brunaði út í leigubíl á ljóshraða.
Leigubíllinn kemst ekki alveg að hótelinu svo ég strunsaði áfram í miklu offorsi á tólf sentímetra háum hælum, en þurfti auðvitað að stíga í eitthvað fjandans svarthol á miðri götunni og flaug áfram marga metra og lenti á gangstéttinni og rétt náði að bjarga andlitinu með handleggnum. Ég treysti ekki Tyrkneskum læknum svo ég er búin að greina sjálfa mig, ég er með brákaðan fokkjúputta, tognaðan olnboga og afar rispaðan upphandlegg, auk þess sem ég hlaut mikin sálrænan skaða af þessu sjúklega vandræðalega atviki. Þegar ég loksins kom upp á hótel lagðist ég upp í rúm og fór að grenja, enda viti mínu fjær af hungri, matareitrun, hita og skömm.
Stelpurnar hjúkruðu mér með kaldri dós úr míníbarnum og ég hélt áfram að vorkenna mér og horfa á Lost á þýsku. Eftir mikið þras náðu stelpurnar loks að sannfæra mig um það að sama hversu grautfúl ég var væri óásættanlegt að eyða seinasta kvöldinu mínu í Tyrklandi í rúminu með tárin í augunum, svo ég gerði mitt besta til að laga mig til og drullaði mér út með þeim.
Kvöldið var reyndar fínt, við kvöddum allt góða fólkið á Faros (ég held ég hafi aldrei kysst eins marga á kinnina), fórum á alla stóru klúbbana og dönsuðum eins og villidýr á pöllunum, svitnuðum í rusl, borðuðum síðasta nætursnarlið okkar með starfsfólkinu á rokkbar og undir morguninn var ég ein eftir með Chian frá rokkbar og rússnesku kærustunni hans sem heitir Yanna. Við fórum í göngutúr á ströndinni og lögðum okkur saman á sólbekk. Ég kvaddi þau á endanum innilega og hélt heim á leið klukkan sjö um morguninn. Fyrir utan hótelið hitti ég einn af þjónunum á hótelinu sem kom hálf skömmustulegur upp að mér og tjáði mér ást sína, sagðist hingað til hafa verið of feiminn til að tala við mig áður auk þess sem yfirmaður hans hafði bannað sér að tala við mig, svo bauð hann mér svo rausnarlega að kyssa sig en ég afþakkaði pent, skreið upp í og svaf þennan ógeðslega dag af mér. Þessi dagur er reyndar frekar sveittur og ógeðslegur líka, en ég er búin með væl-kvótann svo ég held ég segi það gott í bili.
Hekla Elísabet er farin að drekka mjólk, borða plokkfisk og afeitra sig fá þessu landi, og er afar fegin því að vera komin heim.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.