Ævintýrin á Marmaris

Jæja, nú sit ég niðri í matsal að fela mig undan sólinni og borða morgunmat.. ein... því stelpurnar djömmuðu fram á rauða nótt í gær en ég var svo uppgefin að ég hékk bara heima og horfði á Lost á þýsku, enda held ég að ég deyji ef ég held áfram að djamma eins og innfæddir gera hér. Hér er djammað á hverjum einasta degi, engar undantekningar. Það eina sem er í raun og veru hægt að gera hérna er að djamma, eða horfa á útlenskt sjónvarp uppi á herbergi. Það er mjög erfitt að fá að borða í friði hérna, því allir þjónarnir eru svo skotnir í mér greyin, aldrei séð svona hálf rauðhærða-hálf albínóastelpu áður. Þeir eru alltaf að koma upp að mér og spyrja hvort mig vanti eitthvað, hvort þeir megi frá ímeilið mitt, hvort ég vilji hitta þá á diskóteki í kvöld o.s.frv. Ég veit aldrei hvað ég á að segja svo ég hristi bara höfuðið og segist ekki skilja þá, á íslensku. Þannig nenna þeir fljótt ekki lengur að tala við mig. Svo standa þeir bara í kring um mig og stara, hah.. frekar vandræðalegt, sérstaklega ef þeir vissu hvað ég er að skrifa núna.

En úr þessu í annað, ég lá í leti minni uppi á herbergi í gær á meðan stelpurnar fóru niður í kvöldmat því ég treysti mér engan veginn í að reyna að halda niðri mat. Eftir smá stund komu þær hlaupandi upp og sögðu mér að við ættum stefnumót við heilt fótboltalið. Ég lá þarna í afrískum náttkjól, sveitt og ógeðsleg svo ég hentist fram og skellti á mig smá farða á mettíma á meðan Katrín fór í sturtu. Hún var svo lengi að taka sig til að það var ákveðið að ég og Hannah færum niður fyrst og svo myndi hún fylgja á eftir. Þegar við komum niður leist mér þó ekki á blikuna. Þarna voru allir mennirnir mjög greinilega komnir á fertugsaldurinn, sumir sköllóttir og aðrir reykjandi. Ég hnippti í Hönnuh og sagði henni að þarna væru augljóslega ekki fótboltamenn á ferð, heldur graðir istanbúlar í fríi. Hannah panikkaði þá og sagði "fyrirliðanum" að við myndum hitta þá niðri eftir hálftíma og svo hlupum við upp.

Eftir það hófst mjög furðuleg atburðarrás, þar sem Hannah og Katrín reyndu að finna upp einhverja leið til að stinga þá af. Margar hugmyndir komu upp, eins og að bíða eftir að þeir færu, fara niður og segja þeim að við treystum okkur ekki til að vera einar með fullt af karlmönnum, hringja niður í lobbí og biðja starfsfólkið um að segja þeim að boði þeirra væri hafnað, og margt fleira. Ég neitaði að taka þátt í þessum sirkus í ljósi þess að mér hafði ekki einu sinni verið boðið fyrir það fyrsta. Þær fóru út á svalir og ætluðu að hugsa málin yfir drykk þar en obbobbojj, þá voru þeir á svölunum á móti og bentu og hrópuðu. Hannah panikkaði aftur, dró Katrínu út og sagðist ætla að flýja. Svo spurðist ekkert frá þeim næstu sex klukkustundirnar, en loksins þegar þær komu heim og vöktu mig heyrði ég söguna af því að einhver þjónn hafi hjálpað þeim að flýja í gegn um brunaútganginn. Jább, brunaútganginn.

Þar sem ég er ennþá eins og svínakjöt og þarf að bera á mig gúrkugel á korters fresti og nota handviftu til að kæla mig niður býst ég ekki við því að ég sóli mig mikið í dag, ég var jafnvel að spá í að halda bara áfram að liggja í leti og drekka eins mikið vatn og ég get til að lifa þetta ævintýri af. Já, eitt annað, það má ekki koma með mat og drykk inn á herbergið sem hótelið selur ekki þannig að við erum búnar að smygla inn mörgum lítrum af vatni og svaladrykkjum. Þess vegna getum við ekki látið þrífa herbergið okkar því við erum of hræddar við að þernurnar finni smyglið okkar svo við erum búnar að vera með do not disturb merki á hurðinni í marga daga, þernurnar halda örugglega að við séum einhver sjúkur lesbískur trekantur í dónalegu fríi. Jæja, segjum þetta gott, ég ætla að fara upp og fela smyglið því mig vantar ný handklæði, klósettpappír og rúmföt.

Patafix!
Sem þýðir ekki "bless" á tyrknesku, en það þýðir kennaratyggjó. Á Tyrknesku.
Ummmmm já, bæ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja hérna... Ekki vissi ég að þið væruð svona spenntar fyrir fótboltamönnum en... alltaf heyrir maður eitthvað nýtt! Farðu vel með þig mín kæra!

Kv.

mamma

kristin (IP-tala skráð) 17.8.2008 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband