12.8.2008 | 18:40
Kveðja frá Tyrklandi
Jæja, þá erum við búnar að dvelja í þessu landi í rúman sólarhring og margt og mikið hefur gerst á þeim tíma. Í gær lentum við í Tyrklandi um sjöleytið á staðartíma en vorum ekki komnar til Marmaris fyrr en um ellefu. Þá fórum við upp á hótelherbergi (stæsta herbergið á öllu hótelinu, jeee) og máluðum aðeins yfir flugvélarljótuna. Þegar því var lokið hófst tveggja tíma leit að aðal skemmtistaðagötunni en á leiðinni þangað vorum við stöðvaðar nokkrum sinnum af mönnum sem vildu ólmir fá okkur inn á strandbarina sína og í eitt skiptið gáfum við eftir, en þá fengum við okkur bjór og horfðum á stælta pilta dansa berir að ofan á sviðinu, svo toguðu þeir okkur upp í smá konga, eftir það fengum við að sjá ansi forvitnilega Michael Jackson eftirhermu sem vann víst "So you think you can dance?" í Tyrklandi.
Eftir það fundum við gaur sem lítur út eins og Ted Mosby í þættinum "How I met your mother". Ég var svo ánægð að finna kunnuglegt andlit að við eltum hann, og hann leiddi okkur á endanum að þessari aðalgötu. Þar fundum við Rokkbar og þar voru að sjálfsögðu íslenskir piltar. Við drukkum nokkra bjóra en um leið og þeir héldu sína leið komu barþjónarnir með frí skot... og fleiri... og svo fleiri... og svo vann ég veðmál við yfir-barþjóninn og hann gaf mér frían kokkteil. Þeir lokuðu staðnum um fjögur leytið en héldu partíinu þó gangandi fyrir okkur fram á rauða nótt, við dönsuðum, sungum, drukkum og létum eins og verstu túristar, svo leiddu herramennirnir okkur að leigubílaröðinni og buðu góða nótt.
Í dag vöknuðum við furðulega snemma og fengum okkur hádegismat á mjög fyndnum stað sem heitir Faroe en þar var faróinn sjálfur að þjóna og skemmta gestum staðarins, til dæmis með því að kasta sígarettunni sinni í hringi, grípa hana og reykja. Maturinn var furðulegur en við pöntuðum kjúklinga fajitas sem var ennþá að eldast þegar það var komið á borð, sumsé var það borið fram á disk sem gerður var eingöngu úr sjóðandi heitu koli. Við vissum ekki hvað við vildum gera við restina af deginum en það kom tvennt til greina, vatnsrennibrautagarður eða tyrkneskt bað. Á endanum var ákveðið að kíkja í heilsulind hótelsins og fara í tyrkneskt bað. Þar var drengur sem stjanaði við okkur tímunum saman og bauðst til að fylgja okkur um bæinn í kvöld og sýna okkur helstu skemmtistaðina. Við þáðum það boð með þökkum og við ætlum að hitta hann fyrir utan eftir... jahérna, tuttugu mínútur! Best að klára þetta. En já, svo fengum við frekar perralegt nudd frá öðrum gæja sem ég vil helst gleyma sem fyrst...
Hér í Marmaris er það sko ekkert annað en Royal Treatment eins og þið heyrið, en nú þarf ég að skunda upp og fara að gera mig til fyrir næturlífið í Marmaris. Því við erum að fara á FROÐUDISKÓ. Óóóójá.
Kv. Hekla Elísabet hin konungborna ísdrottning.
Athugasemdir
Þú veist að ég verð með kíki og fylgist með
Hólmdís Hjartardóttir, 12.8.2008 kl. 18:53
oo þetta hljómar vel, ertu ekki til í að koma með fréttir svona eins og einu sinni á dag svo ég geti lifað í gegnum þig :) ég er í smá sjálfsvorkunni yfir því að vera ekki að fara neitt í sólinu sjálf, :) nei ég segi bara svona en vonandi var gaman á froðudiskóinu og skemmtu þér alveg æðislega þarna úti, hvernig fór þetta með ömmu þín og fleiri sem eru úti á sama tíma? ekkert búin að plana að gera með þeim?
Nosy (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 09:10
já haha ég er Tinna Borg
Nosy (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 09:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.