24.7.2008 | 00:40
Óður til tíu-ellefu starfsmanns.
Kæri búðarklerkur
Ég veit að þessi heimsókn mín er ekkert fagnaðarefni, hvorki fyrir mig né þig. Ég er sjálf hundsvekkt yfir því að þurfa að borga fúlgu fjár fyrir aumt oststykki, og þú eflaust hálf leiður yfir því að þurfa að líta upp úr séð og heyrt blaðinu og sinna starfi þínu, en ef við drögum bæði djúpt inn andann ætti þetta að taka fljótt af. Ég get rétt ímyndað mér af hverju svipurinn sem myndast á andliti þínu gefur til kynna væna blöndu af tregafullri sálarkvöl og sársaukafullri hægðatregðu þegar ég nálgast afgreiðsluborðið, það er örugglega ekkert gaman að vera sölumaður dauðans í sólarhringsbúð tíu-ellefu, og þá sérstaklega þegar þú þarft að rífa þig upp af rassgatinu og vinna fyrir kaupinu.
Þú horfir ekki í augun á mér, enda er ég antikristur holdi klæddur, þessi óþolandi kúnni sem læðist aftan að þér þegar þú hélst að það væri ekkert að gera og spillir friðnum á svo svívirðilegan hátt. Og ekki dettur þér í hug að bjóða gott kvöld, enda er þetta kvöld jafn dimmt og drungalegt og pínulitla sálartetrið sem er fast í þínum luralega og hálf kynþroska líkama. Ég dáist að þér fyrir að ná að stynja því upp úr þér að það sé ekki heimild á kortinu mínu, og rétti þér hitt kortið með samúðarfullt blik í augum.
Ég afþakka afritið til að tryggja það að þú verðir ekki ónáðaður meir, brosi og þakka fyrir mig. Þú þarft ekkert að brosa samt, það reynir á fleiri vöðva en þig órar fyrir. Á leiðinni heim bið ég fyrir glataðri sálu þinni og vona innilega að þú munir finna hamingjuna og þína löngu glötuðu þjónustulund þegar vaktinni er lokið.
Þín einlæg, Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir.
Athugasemdir
Heyr heyr!!! fallega ort hjá þér hekla mín:D
Katrín Björg (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 12:49
Sammála Kötu. Afar vel skrifað og flott blogg. Erfitt að vera 10/11 starfsmaður...
Laufey Mjöll Helgadóttir, 24.7.2008 kl. 20:22
haha snilld! :D
Lilja Salóme (IP-tala skráð) 25.7.2008 kl. 01:05
eg er 10/11 starfsmaður það er sko ekkert erfitt hekla mín þér hlytur að hafa bara liðið eitthvað illa þetta kvöld
dagny (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 01:22
Dagný, hver sem þú ert þá er þetta blogg ekki stílað á þig og mér leið bara alls ekkert illa en vesalings búðarklerkurinn var ekki í sama gírnum því miður.
Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, 6.10.2008 kl. 22:06
eg veit að þetta blogg er ekki stilað a mig hehe en kannt þu ekki að lesa heldur
dagny (IP-tala skráð) 16.10.2008 kl. 15:35
....... Ég veit ekki hvað þú meinar með því. En jú ég er fyllilega læs.
Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir, 19.10.2008 kl. 19:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.