18.6.2008 | 17:23
Smá yfirferð...
Hér verður fallað um það helsta sem hefur gengið á í mínu lífi upp á síðkastið. Ekkert vera að halda ykkur fast þó, enda fátt minna sjokkerandi en líf járnfrúar.
Um helgina vann ég sko vel fyrir peningunum, og djammaði smá í leiðinni. Ég, Hannah og Sara skelltum okkur í hælaskó og blönduðum vafasama kokkteila. Þegar við loksins komum niður í bæ ákvað ég að ég væri of full til að umgangast fólk svo ég fór heim, eða Siggi, Silja og Elna komu með mér heim og þegar ég vaknaði var stór mynd af útglenntri allsberri kerlingu á veggnum mínum. Smekklegt. Nei samt í alvöru, furðulega smekklegt miðað við lýsinguna.
Á mánudaginn fékk ég upp í hendurnar þrjá fría VIP miða á David Guetta svo mér datt í hug að kíkja. Þegar þangað var komið.... vá sko, ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Ég minnist þess að hafa um daginn skrifað eitthvað um það að hvergi væri hægt að finna fleiri skinkur en á Hawaiian Tropic keppninni. Mér skjátlaðist hrapanlega og neyðist til að éta orð mín með smá hliðarskammti af skinkusalati. Sé Hawaiian Tropic keppnin skinkuárshátíð voru þessir tónleikar Ólympíuleikar skinknanna. Ég ákvað að flýja snemma og dansa frekar á Kaffibarnum.
En í dag er ég rosa fullorðins. Mamma flúði land og í ljósi þess fæ ég að dvelja í hennar glæsilegu íbúð á fullkomnum stað í 101 Reykjavík, með því skilyrði að ég: hafi handklæði hrein, hengi upp úr vélinni, þrífi gólf og ryksugi, þrífi sturtubotn, vask, klósett og spegil, athugi hvort annað sé hreint, tæmi ísskáp og þrífi örbylgjuofn, þurrki af, og pissi ekki á bak við hurð. Hvernig man ég þetta allt? Jú, ég er með listann. Ég fór líka í Bónus í dag og keypti í matinn, missti mig aðeins og tróð þessu öllu saman í poka. Svo gekk ég út og hugsaði.. hmm, ég þarf að labba heim. Eftir þá lífsreynslu tel ég ekki annað sanngjarnt en að einhver fjarlægi handleggina mína og leggi þá inn á heilsuhælið í Hveragerði í minnst þrjár vikur.
Undanfarið hef ég orðið vör við það að um vinnustaðinn minn, Heilsuvernarstöðina hafa sagnir af því að ég sé eigi kona einsömul farið á milli gamalmenna eins og eldur í sinu. Fyrst varð ég vör við það þegar kona nokkur kom sér beint að efninu og spurði mig hreinlega hvort ég væri ófrísk. Ég svaraði henni að sjálfsögðu neitandi, enda er ég mjög svo kona einsömul og læt ekki segja mér annað. Næsta dag var ég að púla við að brjóta saman pappakassa þegar ein daman sagði mér að ég yrði nú að hvíla mig fyrir barnið. "Hvaða barn?" spurði ég í mesta sakleysi. "Nú, barnið sem þú berð undir belti!". Viku eftir það atvik heyrði ég frammi á gangi tvær fínar frúr spalla saman. "Hún er nú alveg rosalega myndarleg þessi" - "Já, hún ber barnið sitt alveg ótrúlega vel". Gráti nær strunsaði ég inn í eldhús þegar ævaforn maður gekk upp að mér og spurði mig hvernig mér liði. Ég svaraði því að mér liði nú bara alveg ágætlega, og spurði hann hins sama. "Þú gengur með annan einstakling, er það ekki?" sagði hann þá. Og svo síðast í morgun þegar ég var að aðstoða mann við að klæða sig klappaði hann á magann minn og sagði "Neih! Er þetta lítil kúla sem er að myndast þarna?" Ég þverneitaði. Þá reyndi hann að kyssa mig. Kannski ég ætti bara að svara þessu játandi næst. Svo ætla ég að kaupa mér bumbubanann.
En jæja, þá er þessu lokið hjá mér í dag, ég hef öðrum mikilvægum skyldum að sinna, vaska upp, þvo á mér hárið, horfa á Dr. Phil og svona. Jájá.
Athugasemdir
þegar ég var á þínum aldri var ég eitt sinn stödd á skemmtistað sem kallaður var Kjallarinn. kleip þar gamall bjánakall vinkonu mína óvænt í brjóstið, ég hló hátt og þá sagði kallinn (og horfði aðdáunaraugum á mig): nei, sjáið þessa, með allar í efri!
er ekki viss hvað við getum lært af þessu.
baun (IP-tala skráð) 19.6.2008 kl. 08:30
Hahaha. Fólk á elliheimlinum er svo skemmtilega ruglað. Svo má til gamans geta að litli bróðir minn fer í FG, þannig að þú verður að vera góð við hann.
Laufey (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 16:24
ÞETTA KALLAST ÞRIÐJA BRJÓSTIÐ! EKKI BUMBA!
Beta (IP-tala skráð) 20.6.2008 kl. 17:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.