14.6.2008 | 03:29
Ævintýri dagsins.
Föstudagurinn gekk í garð og járnfrúin fann sjálfa sig ráfandi um Seltjarnarnesið á náttkjól í síðdeginu. Hún ákvað að fara í smá ævintýraleit, þrátt fyrir að hún væri allslaus, svöng og áttavillt. Hún gekk framhjá vinnusvæði þar sem sjö dvergvaxnir pólverjar stóðu í þyrpingu. Henni datt í hug að ef til vill myndu þeir taka hana að sér, gera hana að vinnukonu og hýsa hana að launum, en það gerðu þeir ekki. Þeir hlógu bara og bentu, svo að járnfrúin hélt sína leið.
Hún ráfaði um stefnulaus lengi vel og varð veikari og veikari fyrir vikið. Þegar hún var nánast búin að gefa upp alla von barst hjálpin loks. Stefán, riddarinn á svarta bílnum kom henni til bjargar og kom henni heilli heim í kastalann. Hvort þau giftu sig og eignuðust börn og buru fylgir þó ekki sögunni.
Þegar í kastalann kom fór járnfrúin inn á klósett og var við það að fara að kveikja á sturtunni þegar sturtuhausinn byrjaði allt í einu að tala, og járnfrúnni brá svo heiftarlega að hún féll næstum í yfirlið. "Ég er guðmóðir þín, járnfrú" sagði hann. "Langar þig að komast á Grímuna?" - "Ó já, kæra guðmóðir!" sagði járnfrúin, "En ég hef svo stuttan tíma, er ekki með nein föt og bara ógeðslega sólbrennd og eitthvað!". "Iss við reddum því nú! Sveiflaðu mér í þrjá hringi" sagði sturtuhausinn, og viti menn, járnfrúin varð hrein, klædd og aðeins minna áberandi sólbrennd á mettíma. Loks var hún tilbúin til að fara a Grímuna. Á Grímunni var mikið af fallegu og vel klæddu fólki og járnfrúin skemmti sér konunglega, en rétt upp undir miðnætti var kominn tími fyrir hana til að láta sig hverfa, því eftir miðætti myndi allt meikið renna af og sólbruninn koma bersýnilega í ljós.
Þegar heim í kastala var komið var hún ekkert þreytt og ætlaði bara að eyða nóttinni í að flétta hárið sitt eða eitthvað, en þá gerðist svolítið sem hún hefði aldrei getað séð fyrir. Ill norn vaknaði upp af blundi sínum og sagði henni að fara að sofa eða hún myndi hneppa hana í álög. Járnfrúin þverneitaði, en nornin klekkti á járnfrúnni og gaf henni eitrað poppkorn. Járnfrúin slysaðist til að bíta í poppið, féll í slóv mósjön niður í rúm og sofnaði samstundis, og telja heimildarmenn líklegt að það muni hún einmitt gera næstu hundrað árin, eða þar til einhver sætur prins kemur og kyssir hana, vonandi fljótlega.
Einhver?
Köttur úti í mýri,
setti upp á sig stýri,
úti er ævintýri.
Athugasemdir
Þú ert afbragðs penni Hekla litla.
kv.
Mamma
Kristin (IP-tala skráð) 15.6.2008 kl. 13:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.