þegar allt fór til fjandans.

Sem smáborgari mikill brá mér í brún þegar ég lenti í samræðum um fall krónunnar. "Krónan féll um heil sjö prósent!" var mér sagt. Þar sem ég legg mikið upp úr því að reyna að vera með á nótunum fannst mér skammarlegt að átta mig á því að ég vissi bara ekkert hvað það þýddi, svo ég setti bara upp ógeðslegahneyksluðoghissa-svipinn minn. Smá svona sko ---> Gasp. Það var ekki fyrr en ég gluggaði í blöðum á klósettinu þar sem þetta var einfaldað fyrir aulum eins og mér, sem ég áttaði mig almennilega á ástandinu. Föt, matur og áfengi munu hækka um 30%! Allt sem ann ég heitast!

Nokkrum dögum seinna var ég að hlusta á fréttirnar. Pólverjar eru að berja aðra Pólverja. Afsökunum til að vera með fordóma í garð innflytjenda fjölgar með degi hverjum, og áður en varir byrja Íslendingar líklega að slást við Pólverja líka, en það verður líklega Pólverjunum að kenna, því að þúst, þeir byrjuðu. 

Ég fór að fá ónot í magann yfir þessu öllu saman og var þungt hugsi þegar ég gekk niður stigann í Bæjargili 60. Áður en ég vissi af rann ég í miðjum stiganum og rann á rassinum niður á að giska tólf tröppur, og svo á steingólfið. Nú er ég með áverka á baki og rassi sem líta út eins og landakort, og ég get ekki beygt til vinstri. Og þó fór ég á Kaffibarinn í kvöld. Ég sat í makindum mínum þegar einhver stelpa reyndi að færa stól en missti stólinn ofan á mig. Ég fór niður til að jafna mig (enda afskaplega reið og bitur yfir þessu öllu saman) og gekk í áttina að klósettinu. Allt í einu potaði einhver náungi í augað á mér! Hvur andskotinn sagði ég, varstu að pota í augað á mér? En það skiptir ekki öllu máli.

Þegar ég fór loksins upp aftur var ég brennd á fæti með sígarettustubbi, en það var allt í lagi því að stuttu seinna var HRÆKT Á MIG! Og þess vegna er ég bara með ónot yfir þessu öllu saman? Hvað er næst? Verð ég lamin af fólki sem halda að ég sé Pólverji, úrskurðuð sem grænmeti og dæmd í hjólastól að eilífu? Skömmtunarmiðar? Stálhurðar? Hlýnun jarðar? JIHAD?! RAGNARÖK!?! HVUR ANDSKOTINN, ÞAÐ ER BYRJAÐ AÐ SNJÓA!?!, jæja, þá þarf ég að minnsta kosti ekki að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar í bili.

- Hekla Elísabet, frekar smeyk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, ég er alltaf að reyna að segja þér það.... vertu meira heima hjá þér.

kristin (IP-tala skráð) 25.3.2008 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband