stundum bregst manni nú bogalistin...

snú-snú.Þar sem aðeins TVEIR DAGAR eru í frumsýningu hins stórkostlega söngleiks BIRDCAGE (sem ég á heilar tvær línur í) ákvað ég að taka massíva upphitun á þetta í dag og tók upp gamalt reipi, og efndi til endurfunda við hinn forna frímínútnaleik, snú-snú. Ég fékk nokkrar dömur í leikinn með mér og við byrjuðum á rykk-einum, sumsé leik þar sem farið er í röð og hoppað einu sinni, í næstu röð tvisvar, og svo framvegis.

Ég var agndofa yfir eigin frammistöðu þar til kom að tíunda, og jafnframt síðasta hoppinu mínu. Ég réði mér vart fyrir kæti, leikurinn á enda og ég hafði hvorki flækt mig í reipinu né valdið stórslysum. Ég hoppaði, og tók svo á rás til að verða ekki undir, en það hefði ég betur látið ógert. Sjáið til, nælonsokkabuxur eru neflinlega ekki svo sniðugur klæðnaður í snú-snú, því ég þeyttist svoleiðist yfir ganginn, þveran og endilangan, og hafnaði ofan á ruslatunnu, með hausinn í gólfinu. Gróflega áætlaður áhorfendafjöldi var eitthvað í kring um þrjátíu manns, sem gerði þetta að einni vandræðalegustu stund lífs míns. Ég meiddi mig ekki einu sinni, ég skammaðist mín svo mikið.

- Hekla Elísabet, þekkt á fjöllunum undir nafninu Klaufa-Bárður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jamm.... smá minningarbrot sem tengjast þér og snú snú.

Þegar þú varst í barnaskóla... held að þú hafir verið átta ára, komst þú afar leið heim úr skólanum og sagðir að þér leiddist hræðilega í frímínútum af því að allir væri í snú snú en þú kynnir það ekki og bara hreinlega gætir ekki lært það. Þú varst svo hrædd um að bandið berði þig niður, fannst ekki hvenær ætti að stökkva inn, taktinn við að hoppa og allt í molum. Allur bekkurinn í snú snú og þú ráfaðir um og hefðir ekkert að gera. Ég vorkenndi þér hræðilega svo ég hringdi í Sigurgeir frænda til koma að snúa bandinu á móti mér, því nú skyldi sko taka á þessu vandamáli af mikilli fagmennsku í innkeyrslunni á Freyjugötu.

Sigurgeir mætti og snér og snér á móti mér og ég sagði þér að hoppa í takt við bandið áður en þú færir inn í hringinn svo þú fengir tilfinninguna fyrir taktinum. Síðan sagði ég ..... þegar bandið er hér.... og benti upp í loftið, áttu að hlaupa hingað og gerði hring með krít á stéttina. Planið gekk algjörlega upp. Þú stökkst inn í á réttan stað, á réttum tíma og hoppaðir fimmtán eða sextán sinnum í röð án þess að fipast svo byrjaðir þú að hlægja. Þú hlóst og hlóst sem endaði á því að þú hrundir niður í algjöru hláturskasti og ég og Sigurgeir líka. Svo lágum við í innkeyrslunni og hlóum og hlóum í langan tíma. Við vorum svo glöð og það var svo gott veður og gaman að lifa.... Manstu eftir þessu? Eftir þetta varstu alltaf í snú snú í frímínútum.

Ég þarf greinilega að mæta í F.G. stjórna verkinu... Snú snú kennslunni er greinilega hvergi nærri lokið.

Mamma

kristín (IP-tala skráð) 23.2.2008 kl. 13:30

2 identicon

Athugasemd... snér og snér átti að vera snéri og snéri. Hvað er að mér?

mamma

ksr@ismennt.is (IP-tala skráð) 24.2.2008 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband