4.2.2008 | 04:02
Opinbert kvörtunarbréf til kuldabola.
Kæri Kuldaboli.
Ég veit að þú hlýtur að vera í frekar vondu skapi í ljósi þess að jörðin er að hlýna og allt það og þú getur ekkert gert í því, en þetta bara gengur ekki lengur. Þú getur ekki bara tekið alla þína reiði út hér á elsku fróni, þú ert að alveg að fara með okkur öll.
Síðasti fimmtudagur var annasamur dagur fyrir mig og ég var mikið á þönum. Því þurfti ég að notast við hina ómögulegu samgönguleið, strætó. Það sem strætó felur oftast í sér er t.d. löng bið í svokölluðu skýli, þar sem ég eyddi samtals fjörutíu mínútum í bið yfir daginn. Fyrst þegar ég fór út, eða klukkan fjögur, var skítkalt, svo ég fór í peysu, kápu og vettlinga. Það dugaði svosem, eða alveg þar til að líða fór að kvöldi og það fór að kólna. Fyrst fór smá hrollur um mig, svo ég fór inn á Hlemm og beið þar. Þegar ég kom út aftur hljóp ég inn í næsta strætó, því það var orðið svo afskaplega kalt. Þegar ég fór út úr honum aðeins eftir það, og þá í Garðabæ, var orðið svo óbærilega kalt að mig sveið. Ég held þú gerir þér ekki grein fyrir því hversu sársaukafullt það er fyrir kvefað stúlkugrey að sitja í óbærilegum kulda og bíða og bíða á meðan hún finnur frostið bíta hvern krók og kima líkamans og blóðið frjósa í æðum sínum.
Á tímabili var mér svo kalt að ég gat varla hreyft mig, og mig langaði til að gráta en tárin hefðu líklega bara frosið á leiðinni út, svo ég ákvað að sleppa því bara. En nú bið ég þig í einlægni um að hlífa okkur, við höfum ekki gert þér neitt. það eina sem ég bið um er að þú farir ekki lengra en þrjú stig undir frostmark, og þá ég lifað sátt. Svo finnst mér ekkert sniðugt við allan þennan snjó, ég á fullt af fallegum hælaskóm sem ég hef ekki fengið að klæðast svo mánuðum skipti, og í sannleika sagt þá er ég orðin þreytt á því. Stígvél eru alveg sæt stundum, en ég kæri mig ekkert of mikið um þau. Ég vona allavega að þú takir mark á beiðni minni og gerir það sem þú getur. Ég hef trú á því.
Virðingarfyllst,
Hekla Elísabet, fórnarlamb þitt.
Athugasemdir
Kuldaboli er grimmur. Honum fylgja kostir og gallar.
Kostir: Stjörnubjartur himinn. Yfirleitt ekki mjög vindsamt þó svo að örlítill vindur geti orsakað mikla vindkælingu ef hitastig er mjög lágt. Afsökun fyrir því að kúra inni. Ef þú et myglður/myglaður þá þarftu aðeins að hoppa út á svalir og hrista þig í eina mínútu. Virkar betur en Botox. Yfirleitt fallegt um að litast. Snjór.
Ókostir: Maður þarf að klæða sig vel, þ.e. tískan verður að víkja fyrir stóru dúnúplunni. Hálka og þar af leiðandi morgun-traffík. Rautt nef.
Laufey Mjöll (IP-tala skráð) 5.2.2008 kl. 14:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.