25.1.2008 | 03:28
VARÚÐ!!! - til stelpna.
Mig langar að deila með ykkur kynsystrum (og jafnvel ykkur karlkyns lesendum) einni sögu af sjálfri mér. Í sumar fór ég út að skemmta mér á menningarnótt með vinkonum mínum. Við vorum búnar að drekka smá en engin af okkur var óhóflega drukkin eða í annarlegu ástandi. Eftir að dagskránni úti lauk, fórum við allar saman á ónefndan bar og fengum okkur bjór. Ég man ekki lengur hvernig það vildi til, hvort einhver bauð okkur upp í glas eða hvort við borguðum sjálfar, enda man ég ekki nema brot og brot frá þessu kvöldi. Eftir að hafa drukkið þennan bjór fór ég að finna óvenjulega mikið á mér og fannst ég allt í einu dauðadrukkin.
Ég gat varla gengið eða komið upp orði, næsta sem ég vissi var að ég var í grátkasti úti á götu og vinkona mín líka. Sem betur fer var önnur vinkonan með fullu viti og náði að koma okkur heim í heilu lagi, og með erfiðismunum náði ég að ganga upp að húsinu mínu úr innkeyrslunni (datt svona sex sinnum á leiðinni) og inn í herbergið mitt þar sem við ældum báðar í bala og grátkasti mínu linnti ekki fyrr en ég var sofnuð. Daginn eftir var allt þokukennt og ég skildi ekki hvernig ég fór að því að verða svona rosalega drukkin, og ég hálf skammaðist mín þegar ég sagði foreldrum mínum og vinum frá því. Flestir voru á því að ég hefði hreinlega orðið ofurölvi á mettíma og ég trúði því alveg næstum sjálf, en það læddist samt að mér sá grunur að einhverju hefði verið laumað í glasið mitt.
Í gær fékk ég símtal frá móður minni, sem ég hafði sagt þessa sögu fyrir löngu, en hún var búin að gleyma því. Hún sagði mér samt sögur af þremur kunningjakonum sínum, sem allar hafa lent í þessu sama. Að fara á bar, drekka lítið en enda uppi eins og hlaupkerlingar í óstöðvandi grátkasti. Ég minnti hana á atvik mitt sem lýsti sér nákvæmlega eins, en þetta er víst einhver nauðgunarpilla sem fer eins og eldur í sinu um skemmtistaði Reykjavíkur, og tilfellum hefur fjölgað til muna upp á síðkastið. Ég var mjög fegin að fá staðfestingu á því að þetta hafi ekki bara verið rugl í mér, og þá sérstaklega að mér hafi verið komið heim í tæka tíð áður en óbermið sem setti þetta í glasið mitt náði mér einni! Því menn sem gera þetta eru greinilega sjúkir.
Það er ekkert mál að lauma svona pillu í glasið þitt ef þú ert ekki varkár. Ekki þiggja drykk frá hverjum sem er, og kauptu heldur bjór í flösku (þó það sé dýrara), því það er erfiðara að lauma pillu ofan í flösku heldur en í glas. Og ef þú kaupir þér drykk í glasi, í guðanna bænum, hafðu augun á glasinu allan tímann því þetta er svo auðvelt. Ef þið sjáið vinkonu ykkar, eða bara einhvern fá þessi einkenni, reynið þá að tala við viðkomandi og ef það er ekki hægt, reynið að senda hana heim. Menn sem gera þetta eru augljóslega ekki heilir á geði, því flestir myndu segja að það væri álíka spennandi að horfa á sjónvarpið á meðan það er slökkt á því eins og að hafa samfarir við rænulausa stúlku.
Stelpur: Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu, takk fyrir lesturinn, og í guðanna bænum, passið ykkur.
Strákar - Bendið vinkonum ykkar á þetta, þið gætuð átt þátt í því að fækka nauðgunum.
- Hekla Elísabet
Athugasemdir
Ja, ljótt er að heyra. Ég held að maður þurfi að passa sig á hinum ýmsu sviðum næturlífsins.
Bergur Thorberg, 25.1.2008 kl. 07:07
Oj. Ég fæ hroll við tilhugsunina.
Maggi (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 08:26
Vá! Þetta er virkilega óhugnalegt! Maður verður víst að passa sig....og kannski bara ..drekka heima;)
Mjög áhrifaríkt blogg hjá þér Hekla mín!
Rakel (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 18:12
Lyfið sem hér um ræðir er líklega smjörsýra.
fyrir forvitna er nánari upplýsingar að finna á Vísindavefnum góðkunna.
http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2550
oli marteins (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 18:21
Gott blogg og ég vona að það fari víða.
Mamma
kristín (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 11:21
Mannstu ekki þegar ég var á Barnum? Þú varst að vísu ekki með en ég varð kolrugluð, mér fannst hendurnar á mér vera risastórar... man varla meira en það.
Elísabet Kristjánsdóttir, 27.1.2008 kl. 20:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.