Hekla Elísabet rifjar upp fortíðina.

Ég man þegar ég var sjö ára og ég og Sigurgeir frændi fórum með ömmu í Gummó og hún keypti handa okkur sitthvorn sleikjóinn. Svona tívolísleikjó, kringlótta plötu í allskonar sýrulitum. Þegar heim var komið eldaði amma kjötbollur, en við frændsystkinin kepptumst við að ljúka við sleikjóinn sem var nánast ógerlegt þegar maður var svona lítill og kjaftlaus. Nema hvað, Sigurgeir lauk við sleikjóinn sinn á undan mér, og ég var ógeðslega montin og veifaði mínum stolt framan í hann með glettið bros á vör og söng "liggaliggalái" af mestu innlifun. Þá greip Sigurgeir til sinna ráða, tók eina kjötbolluna og kastaði í sleikjóinn, með þeim afleiðingum að hann mölbrotnaði og féll til jarðar. Ég var óhuggandi það sem eftir var kvölds, og Sigurgeir var ansi skömmustulegur.

Þegar ég var tólf ára að byrja á gelgjunni lagði ég upp í langferð með nesti og nýjan maskara ásamt tíðræddum Sigurgeiri frænda og foreldrum hans, Ásu og Svanbergi. Við fórum með Norrænu til Danmerkur og keyrðum á milli landa með fellihýsi í eftirdragi. Eitt kvöldið vorum við á tjaldstæði í Þýskalandi, og kynntumst strák á okkar aldri sem hét Christopher, sem var þýskt óbermi. Okkur samdi nú öllum ágætlega og hann veiddi froska í nálægri tjörn til að sýna okkur, og túristarnir við vorum að sjálfsögðu agndofa yfir þessu náttúruundri, enda engir froskar á Íslandi. Það var ekki fyrr en ég snéri mér við í mesta sakleysi og ætlaði að skreppa á náðhúsið (afskaplega girnilegur ferðakamar) sem þetta gerpi tók frosk og stakk inn á bolinn hjá mér. Ég brást að sjálfsögðu við með tilheyrandi látum og brast í einhverskonar dans með frumbyggjayfirbragði þar til helvítis froskurinn rataði út. Ég læsti mig inni í fellihýsinu og neitaði að tala við hann. Daginn eftir kom hann þó með ís og baðst afsökunar, en ég var ekki alveg tilbúin til þess að fyrirgefa honum.

Þegar ég var fjórtán ára var ég ótrúlega skotin í strák. Við fórum saman á tónleika, gengum um bæinn, fórum heim til mín, horfðum á mynd, svo fórum við í sleik. Fyrsti sleikurinn sko, og mér fannst hann koma alveg ógeðslega seint. Allar hinar stelpurnar í bekknum voru löngu búnar að fara í sleik, í sjötta bekk eða eitthvað. Svo hætti hann að tala við mig, og mér fannst ég vera í geðveikri ástarsorg.

Þegar ég var sextán ára vann ég í Debenhams við að mæla brjóstastærðir. Beta var líka að vinna í Smáralind, í Ice in a bucket, svo við fórum stundum í mat saman og svona, enda vorum við að fara að byrja í sama menntaskólanum og þurftum á stuðningi hvor annarrar að halda. Þegar við fórum mættum á skólasetninguna í Menntaskólanum við Sund leist okkur hreint ekki á blikuna, því þar var ekkert nema ljóshærðar stelpur í diesel buxum. Við lentum sem betur fer saman í bekk og vorum ekki lengi að afla okkur óvinsælda og frægðar, sökum þess hversu ógeðslega óþekkar við vorum og hallærislegar í klæðaburði. Við skrópuðum, lærðum ekki neitt, fórum á fyllerí og oft í sleik á böllum. Þessi önn er mér þó ómetanleg, enda hef ég sjaldan lært jafn margar lexíur á svo stuttum tíma.

Þegar ég var sautján ára fór ég í algjörri blindni í nýjan skóla og fór í prufur fyrir Morfíslið skólans og söngleikinn. Ég komst inn í bæði og var næstum rifnuð úr monti af sjálfri mér. Svo átti ég líka kæró, nýja vini og keppti fullt af ræðukeppnum.

Þegar ég var átján ára var ég alveg ótrúlega hamingjusöm og sátt með minn stað í lífinu, þrátt fyrir brostna sleikjóa, froska, ástarsorg, brjóstamælingar, skróp, fyllerí og óvissu.

- Hekla Elísabet


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá. Ég sakna barnæsku okkar svolítið.

Hún átti nú sína ljósu punkta. En skrítnast er þó kannski að minningar um að byrja í menntaskóla séu farnar að nálgast bernskuminningar...

"Er hann raunverulegur eður ei?!"

Mér er spurn. 

Viktor Orri (IP-tala skráð) 22.1.2008 kl. 02:15

2 identicon

Stutt smásaga:
ég man þann dag sem þú hringdir í mig áhyggjufull og andandi í takt við hjartsláttinn. haha. þú sagðir ,,Tóta HVAR ERTU?" ég er EIIIN og þetta fólk er allt svo skrítið SHIIIT.

 ég hraðaði mér í fötin og skokkaði niðrí skóla (haha skokkaði alls ekki).

þarna var hekla í svitabaði, enda var þetta fyrsti skóladagurinn hennar :D

Tóta (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 18:13

3 identicon

ef þér líður eitthvað betur var ég ekki búin að fara í sleik þegar ég var 14 ára ;) ég fór meira að segja ekki í sleik fyrr en ég var 15 ára ;)

gaman að sjá þig um daginn elskan mín og við hittumst vonandi bráðum sæta :*

Tinna Borg (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband