20.11.2007 | 18:31
Faraldur í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ!
Ég hélt að gærdagurinn yrði bara ósköp venjulegur dagur, en ég hafði svo sannarlega rangt fyrir mér. Ég varð uppvís að því að heyra ónefnda unga stúlku segja "mig hlakkar til". Það var svosem allt í lagi, en sem forseti málfundarfélagsins fannst mér ég einfaldlega bera þá ábyrgð að þurfa að leiðrétta þennan miður skemmtilega misskilning, svo ég truflaði hana og sagði henni að það réttasta í þessu samhengi væri að segja "ég hlakka til". Mig sveið í hjartað og fékk furðulegan verk í vinstri handlegginn þegar einhver tilkynnti mér það hátíðlega að svo væri ekki, heldur væri það mig eða mér. Deilan endaði sko ekki þarna.
"Ekki myndiru segja HEKLA HLAKKAR TIL er það?!?"
"Hlakkar ÞÚ þá til?!"
"Honum SIGGA hlakkar til!"
"MÉR hlakkar til, OKKUR hlakkar til!"
"MIG hlakkar til að fá þennan misskilning leiðréttan Hekla!"
"Hekla þetta er bara úrelt málfar!"
"MÉR langar að finna íslenskufræðing!"
Þetta var meira en ég þoldi. Hálfur skólinn var alvarlega sýktur af þolfalls- og þágufallssýki! Ég var ráðþrota, og hljóp um allan skólann í örvæntingarfullri leit að löggiltum íslenskufræðingi á vappi, en fann engan slíkan. Allir vinir mínir voru greinilega búnir að ákveða að ég hefði rangt fyrir mér, og ætluðu sko að sanna það fyrir mér. Öll von var úti.
En viti menn! Ég eygði Þorstein skólameistara og Torfi Geir hljóp upp að honum í veikri von um það að hann gæti sannað að ég hefði rangt fyrir mér. En nei. Nei, ó nei.
"Ég hlakka til, Þorsteinn hlakkar til, nefnifall"
Að heyra þessi orð var eins og að heyra hunangsdropa og mjólk drjúpa af himnum ofan. Loksins, LOKSINS. Fjölbrautarskólinn minn er nú að batavegi, þökk sé mér og hinum snjalla Þorsteini. Framtíðaráform mín snúast nú einungis um það að útrýma þessum skelfilegu sjúkdómum fyrir fullt og allt, nefnifalls-nasisminn kemur til bjargar!
Mynd af þágufallssjúkum einstaklingi.
Athugasemdir
Ó hekla ég skil þig svo vel. Ég veit ei hversu oft ég hef lent í rökræðum útaf einmitt þessu máli.
Elísabet Kristjánsdóttir, 21.11.2007 kl. 16:36
Þorsteinarnir vita hvað þeir syngja.
Þorsteinn (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 23:53
Tengist þetta fólk tilhlökkunarefnum sínum ekki bara á annan hátt? Það er ekki þau sem hlakkar, heldur er eitthvað hlakkar þau (þeim?) til. Mætti ekki segja að þetta sé birtingarmynd þess að sjálfið/einstaklingurinn sé ekki lengur frumlagið; það ert ekki þú sjálf sem ákveður til hvers .. þig (þér?) hlakkar.
Nei bara.
Sölv (IP-tala skráð) 23.11.2007 kl. 19:33
Og hver fær annars staðist gáskann í hundsaugum, sem þessum? : )
Sölv (IP-tala skráð) 25.11.2007 kl. 02:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.