3.11.2007 | 19:41
Ég er ennþá reið.
Einn örlagaríkan dag í janúar mætti ræðulið FG Flensborgarskólanum í átta liða úrslitum MORFÍS. Umræðuefnið var þróunaraðstoð og við FG-ingar mældum með, og Flensborgarar á móti. Lið Flensborgarskólans var ansi gott, og það fannst mér okkar lið vera einnig. Í dómarahléi voru skiptar skoðanir um það hvort liðið myndi bera sigur úr býtum, en á endanum stóðum við FG-ingar uppi sem sigurvegarar, og ég ýki alls ekki þegar ég segi að ég hafi aldrei verið jafn hamingjusöm og þegar úrslitin voru tilkynnt. Ég bara hló og grét, og vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér. Mér fannst ég eiga skilið að fá að vera glöð. Ég hafði ásamt liði mínu keppt morfískeppni, og unnið. Allir dómarar dæmdu okkur sigur, þó einn dómari hafi dæmt hann ansi feitan sem fór fyrir brjóstið á mörgum.
Daginn eftir:
Bloggheimar skíðloguðu, og morfísspjallið einnig. Margir Flensborgarar voru brjálaðir fram úr hófi, og sátu ekki á skoðunum sínum. Það var ekki nóg að gagnrýna dómarana eða ræðurnar, heldur ræðumenn persónulega, og jafnvel útlitslega. Ræðan mín var of ljóðræn fyrir lýðinn, annar ræðumaður var krípí og þótti hafa of sítt hár og ganga í of ljótum fötum. Svo var það tær sjónmengun að sjá okkur uppi í pontu svona ójakkafataklædd. Ég hélt að þetta myndi jafna sig með tímanum, en það gerði það ekki. Fólk sem þekkti okkur ekki neitt fór að drulla yfir okkur á veraldarvefnum, skrifa bull í málgagn Flensborgarskólans og gefa mér præm sketch í árshátíðarvídjóinu þar sem ókunnugur maður sem hefur mig aldrei hitt setti upp rauða hárkollu og gerði stólpagrín, við góðar undirtektir áhorfenda að mér skilst.
Ég var aldrei sár. Ég var reið, og ég er það enn. Hvernig dirfist fólk að skíta svona á verönd fólks sem það hefur aldrei áður heimsótt? Ég er enn þann dag í dag að finna gögn um þetta, þó ég sé ekki einu sinni að leita! Ég held að fólk sem gerir svona geri sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt það er að skrifa meiðyrði um aðra á netið. Þetta er líklega fólk sem hefur aldrei þurft að lenda í því að lesa óhróður um sig og vini sína á alnetinu. Ég ætla rétt að vona að fólk sem gerir eða gerði það skammist sín í dag.
Ég vona að fólkið sem laug varðandi þessa keppni til að láta málstað sinn líta betur út skammist sín.
Ég vona að fólkið sem gat ekki fundið heilbrigða útrás fyrir tapsæri sitt skammist sín.
Ég vona að fólkið sem gat ekki leyft mér og liðsmönnum mínum að njóta sigursins skammist sín.
Ég vona að fólkið sem gerði lítið úr hæfileikum og getu minni og minna liðsmanna hafi fundið aðra og betri leið til að upphefja sjálft sig.
Ég vona að fólkið sem olli mér magasári þegar við vorum dregin í á móti Flensborg í 16-liða úrslitum Morfís í ár skammist sín, en hlakki jafnframt til keppninnar.
Ég ætla ekki að segja að við munum að rústa henni aftur, og ég ætla ekki að gera lítið úr liði Flensborgar. Það er engin ástæða til, og ég tel mig einfaldlega vera betri en það.
Ég læt úrslit morfískeppna ekki stjórna lífi mínu eða hegðun, og ég vona að áhorfendur keppninnar síðasta vetur líði ekki varanlegan skaða fyrir það. Og svo ég haldi áfram með áfram með vonina, þá vona ég svo sannarlega að eitthvað af þessum hóp fólks sem grein mína varðar, lesi hana og taki það til sín sem eiga.
Ég vona að við vinnum þessa keppni. Ég veit hinsvegar að ef svo fer að við töpum keppninni, er ég búin að ávinna mér þroskann til að tapa með sæmd.
Svo fer sem fer. Ég hlakka til.
- Hekla Elísabet Aðalsteinsdóttir.
Athugasemdir
vá! shæsen... þetta er ekkert smá áhrifarík ræða:| good job!
Katrín Björg (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 19:52
Blessuð Hekla ;)
Vá, ég er svo algjörlega sammála þér.
Man líka eftir því í dómarahlénu að verið var að óska Flensborgurum hamingjuóskir með sigurinn :S !
Til að getað unnið, þarf maður að læra tapa :)
María Blöndal... (IP-tala skráð) 3.11.2007 kl. 19:58
Já, þetta var nú meira hallærið! Ég hélt að við fólk ætlaði að myrða þig með augunum þegar við vorum á leiðinni útúr byggingunni.
Elísabet Kristjánsdóttir, 3.11.2007 kl. 20:23
ja hérna þetta er nú bara tær öfundsýki í fólkinu sem brýst svona fáránlega út. En flott hjá ykkur að vinna svona sætt hehe.
..og flott hjá þér að tala um þetta hérna - go girl!!
alva (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 00:08
Hæhæ, sorrí með laugardagskvöldið:S fór með Jóa inn á klósett að reykja og svo dró hann mig út, ég spáði ekkert í því að kveðja eða neitt. Ég var eiginlega vandræðalega dónalegur við ykkur, fyrirgefðu!
Eníveis, vildi bara þakka fyrir kvöldið, það var mjög skemmtileg tilviljun að rekast þarna á þig. Vona að ég rekist oftar á þig, og gangi þér vel í ræðuundirbúningnum!
P.S. þá máttu endilega adda mér á MSN: oliverclotheshoff@hotmail.com :)
Maðurinn af Kaffibarnum (IP-tala skráð) 5.11.2007 kl. 01:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.