Hið ógurlega miðannarmat.

Miðannarmatið er komið í hús og útlitið er ekki gott fyrir söguhetjuna okkar. Hún hefur verið svikin og svívirt, og bíður nú dauða síns. Þó er þetta ekki í fyrsta skiptið sem hún hefur komist í kast við miðannarmatið, ónei, enda er hún mikil endaspretts manneskja og lifir eftir "Þetta reddast..." lífsreglunni sem hefur þjónað henni vel hingað til.

Nú langar mig að útskýra fyrir ykkur miðannarmatið. Þegar önn er hálfnuð í menntaskóla setjast kennarar okkar táninganna í gullið dómarasæti, íklæddir svörtum, drungalegum skikkjum og skarta rauðum hornum á höfði sér. Þvínæst taka þeir upp lista með nöfnum nemenda sem stunda hjá þeim nám, og meta stöðu þeirra eftir því hvernig þeir hafa staðið sig það sem liðið er af önninni. Þeir hafa í skúffu sinni, sem er staðsett við hliðina á gullna dómarasætinu, fjóra stimpla sem hafa allir sitthvora merkinguna, og eru ekki hræddir við að nota þá.

Stimpill G - Gott (Góður krakki! Já sko þig!)



Stimpill V - Viðunandi (Já, ókei, þetta er kúl.)



Stimpill Ó - Óviðunandi, þarf að laga (SKAMM!)

Ég veit ekki hvað sá fjórði heitir eða hvað hann merkir, því ég hef aldrei fengið hann. Ég veit samt að hann er til!

Og ég sit uppi með eitt gott, tvennt viðunandi og þrjár skammir í hattinn.

Í ensku fékk ég eitt gott klapp á bakið. Ég vissi það líka alveg frá byrjun. Þegar ég fyrst gekk inn í stofu V306 þann 22. ágúst 2007 inn í fyrsta enskutíma annarinnar var mér litið á kennarann, og það var ást við fyrstu sýn. Frá og með þeim degi ríkti skilningur á milli okkar, sá skilningur að svo lengi sem ég skilaði verkefnum og héldi áfram að fá góðar einkunnir mætti ég gera það sem mér sýndist í tímunum og jafnvel stinga af þegar krakkarnir voru látnir spila enskuspilið þarna með myndinni af egginu (meeega leiðinlegt). Reyndar skilaði ég ekki mínu eigin miðannarmati í ensku, en það hefur víst sloppið.

Ég fékk einkunnina "viðunandi" í fjölmiðlafræði og sálfræði (eða sálarfræði eins og fagið heitir víst núna, en það skiptir ekki öllu máli). Mér þykir sálfræðieinkunnin nokkuð góð, miðað við það að ég skilaði víst ekki verkefnamöppunni en hinsvegar er ég grautfúl yfir því að hafa ekki fengið hærra í fjölmiðlafræðinni, því ég er að sjálfsögðu að mínu mati botnlaus uppspretta mikilvægra upplýsinga um fjölmiðlafræði og allt sem henni tengist... eða eitthvað svoleiðis.

Hinsvegar get ég seint verið stolt af íslensku, spænsku og sögu. Mér finnst ég alveg illa svikin af sögukennaranum sem sagði held ég orðrétt tveimur vikum fyrir miðannarmatið: "Sko, Hekla, ég veit alveg hvernig þú ert. Þú varst hjá mér í þýsku í fyrra. Gef ég þér ekki bara V og þú verður sátt með það?" (þarna vísaði hann í ótakmarkaða hæfileika mína til að redda mér á síðustu stundu og sleppa vel). Ég þáði boð hans með þökkum, en hvað gerir svikahrappurinn? Hann svíkur hið óformlega loforð! Spænskumatið skil ég svosem vel, enda skilaði ég ekki möppu (ég er svaka léleg í að halda utan um gögn) og mér gekk ekkert allt of vel í eina spænskuprófinu sem ég er búin að taka, enda ekki við öðru að búast þar sem mér gengur illa að læra tungumál í tímum þar sem kennarinn talar eintóma spænsku en ljáist að útskýra fyrir okkur bullið sem vellur út úr henni.

Það heimskulegasta við miðannarmat er það að það þjónar engum raunverulegum tilgangi. það hefur engin áhrif á einkunn nemandans og kemur ekki niður á endanlegri niðurstöðu. Þetta ætti eiginlega að heita "Barasvonalátaþigvitahvarþústendurskítseyðiðþitt"-mat, en það þykir víst svo óþjált.

Jæja, nú ætla ég að fara að sofa. Mamma, ég vona að þér hafi ekki vöknað um augu við lesturinn.

ÞETTA REDDAST!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér drullu brá og það greip mig mjög svo ónotleg ónotatilfinning. Vona að þú gefir í og setjir markið örlítið hærra en að ætla að redda þér á síðustu stundu. Hér á Tryggvagötu er einhver vinnubók úr fjölmiðlafræði. Hefði hún reddað þér?

m

Kristín R. (IP-tala skráð) 25.10.2007 kl. 03:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband