Lystin að lifa.

Ég var að horfa á þennan þátt í dag í annað skiptið, en ég sá hann einnig síðasta Sunnudagskvöld. Svei mér þá ef þetta er ekki með því óhuggulegra og skelfilegasta sem ég hef séð.

Arna Þórsdóttir er átján ára fárveik stúlka sem þjáist af alvarlegri átröskun og hefur barist við sjúkdóminn síðan hún var fjórtán ára gömul. Það sem virkilega stingur mig og ergir, er það sem hún segir þegar þátturinn er um það bil hálfnaður:

"Það sem að snart mig mest og dýpst er það að þegar ég var venjuleg og þegar ég var bara svona nokkurn veginn í minni þyngd, þá varð ég aldrei vör við að, eða ég minnist þess allavega ekki að mér hafi verið boðið að taka þátt í einhverjum fegurðarsamkeppnum eða tískusýningum. Um leið og kílóin fóru að hrynja af mér og eftir því sem ég varð óheilbrigðari, þá fékk ég fleiri og fleiri tilboð um að koma upp í Eskimo, um að taka þátt í fegurðarsamkeppnum, meira að segja um að fara erlendis.
Eftir því sem ég varð í raun og veru veiklulegri og veiklulegri, því meiri tilboð fékk ég. Ég var svo reið, afþví ég vissi alveg að ég væri mjög óheilbrigð, og er mjög óheilbrigð í vexti. Ég meina, ég er ekki á blæðingum. Ég er bara eins og lítill strákur."

Ég er líka reið. Hvers vegna vill tískubransinn fagna þessu óheilbrigði? Afhverju þykir fólki þetta flott? Er virkilega eftirsóknarvert að vera vaxinn eins og Óli Prik? Á meðan óhamingjusamir átröskunarsjúklingar vinna af öllum lífs og sálar kröftum við að losa sig úr viðjum sjúkdómsins eru fyrirsætuskrifstofur að reyna að klófesta þá og nýta sér sjúkdóminn. Og þetta einskorðast að sjálfsögðu ekki við Örnu og Eskimo, þetta er að gerast út um allt. Það er kannski bara spurning um að kreista sem mesta vinnu út úr greyunum áður en þær láta lífið af völdum átröskunar? Og já, skemmtileg staðreynd, vinkona Örnu sem kemur fram í myndinni ein farsælasta fyrirsæta Eskimo.

Þessum stúlkum er svo hampað í fjölmiðlum sem fyrirmyndum ungra stúlkna, þegar margar þeirra eiga við lífshættulegan geðsjúkdóm að stríða. Þegar ungar stelpur sjá þessar glæsilegu konur í glanstímaritunum halda þær að sjálfsögðu að svona eigi þær að líta út. Og ekki hjálpa allir megrunar- og útlitsbreytingaþættirnir (the swan, extreme makeover, you are what you eat, the biggest loser, valdir þættir af dr. phil, og svo lengi mætti telja). Þetta náði allt hræðilega mikið til mín á yngri árum. Þegar ég var yngri var ég alltaf í kjörþyngd og það var ekkert óeðlilegt við líkamsvöxt minn. Samt plagaði mig stöðugt samviskubit og sjálfstraustið var í lágmarki - alveg frá því að ég var tólf ára þangað til að ég skreið yfir sautján árin. Þökkum leti minni og aðgerðarleysi það að aldrei varð meira úr því. Nú í dag er ég vissulega stærri en ég var, en ég er yfirleitt alveg sátt við sjálfa mig, og það er ómetanleg tilfinning.

Mér líkar ofsalega vel við þáttinn "How to look good naked". Loksins er kominn þáttur sem hvetur konur til þess að vera sáttar við sjálfa sig og gera sitt besta með það sem þær hafa. Þáttur sem segir að svo lengi sem kona er heilsuhraust, líkamsþyngd hennar undir hættumörkum megi hún vera sátt við sjálfa sig og vera sjálfsörugg.

Í lokin vil ég benda á það að ég er ekki að segja að allar grannvaxnar stúlkur séu með átröskunarsjúkdóm, ég er ekki að fella dóm á neinn og ég er alls ekki að gera lítið úr þeim sem sjúkdómurinn hrjáir. Þetta er raunverulegt vandamál og mér finnst ótrúlegt að þrátt fyrir að í dag séum við öll upplýst um að það sé hægt að vera virkilega hættulega grannur þyki það ennþá eftirsóknarvert.

Þá má ég nú frekar biðja um að fá að vera eins og ég er.

Airwaveshelgin022.jpg picture by heklan

- Hekla Aðalsteinsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Jónsson

Já, þetta er sorglegur veruleiki.

Guðjón Jónsson, 26.10.2007 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband