Vonbrigði.

Ég ákvað árla morguns (klukkan 16:08, maður verður að elska vetrarfríið) að í kvöld skyldi ég skralla og dansa eins og enginn væri morgundagurinn. Ég fletti í korkusögu, klappaði köttunum, horfði á sjónvarp, mátaði föt og eldaði mat. Loksins áttaði ég mig á því að klukkan var orðin átta og ég var ekki búin að gera neitt sem ég hafði ætlað mér að gera, svo ég hófst handa við að snyrta mig hátt og lágt. Þegar langt var liðið á kvöld og ég var búin að eyða skammarlega löngum tíma í að stríla mig upp og greiða mér rann það upp fyrir mér að ég átti eftir að boða komu mína í miðbæ Reykjavíkur og velja mér fylgdarlið. "Kjáni get ég verið!" hugsaði ég og flissaði (ekki upphátt). Gleðin rann af mér á augabragði eftir nokkur símtöl, eða þegar ég áttaði mig á því að það var enginn að fara með mér út á lífið.

Sölvi var á airwaves,
Hannah var að skipuleggja sig,
Sara var veik,
Laufey var á leið í háttinn,
Beta var í Hveragerði?
Tómas var í Danmörku,
Sigurgeir var í Svíþjóð,
Viktor var að sötra vín heima hjá sér,
Mamma vildi ekki hafa ofan af fyrir mér (skamm!)
Meira að segja pabbi var í einhverskonar djammpartíi!
Og restin var á Flensborgarballi þar sem hljómsveitin Bloc Party sem ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei hlustað á var að spila. Svo stíg ég hvergi fæti inn þar sem flensborgarar halda sig, þar verður mig sko seint að finna.

Allavega!

Það virtist enginn ætla í fjörið með mér. Í stjórnlausri reiði minni (nei, ég er friðsæl!) greiddi ég hárið niður, sleit af mér gerviaugnhárin og smeygði mér úr partígallanum. Á endanum tók ég strætó til Viktors og horfði á hann ásamt fleira fólki sötra vín á meðan ég þambaði hvert vatnsglasið á fætur öðru, sem verður víst, ótrúlegt en satt til þess að ég pissa oft og mikið. Þegar þeir piltar ákváðu loksins að fara niður í bæ var ég of vonsvikin og þreytt í pissublöðrunni til að gera nokkurn skapaðan hlut, svo ég fór bara heim og þar er ég nú, bíðandi eftir Sölva og Californication, sem er hinn ágætasti þáttur.

Góða nótt og góða helgi, ég vona að þið þarna úti hafið átt afdrifaríkari föstudag en ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband