17.10.2007 | 18:40
Teppi.
Nei, þetta var eiginlega ekki nóg. Ég verð að blogga meira. Lýst ekki öllum vel á að heyra sögur úr hversdagslegu lífi mínu? Það er eflaust skrautlegra en margra annarra.
Ég kýs að líta á sjálfa mig sem mjög friðsama og skynsama manneskju, en í dag lýsti ég yfir heilögu stríði á móti aðstoðarskólastjóra Fjölbrautarskólans míns í Garðabæ, sem ég kýs að nefna eigi á nafn. Nokkrir nemendur skólans hafa á síðustu dögum tekið eftir lækkandi hitastigi og sumir þoldu ekki við lengur, og tóku upp á því að koma með flísteppi með sér í skólann. Það þótti mér bráðsniðugt og í morgun ákvað ég að taka með mér mitt eigið sökum þess að sama hversu vel ég dúðaði mig var mér skítkalt. Í tveggja tíma samfelldu eyðunni minni varð mér á í messunni og lagði mig í sófanum með teppi yfir mér.
Þegar ég var alveg að hverfa inn í veröld dansandi einhyrninga á glitrandi regnboga hamingjunnar var eins og ég vaknaði upp við vondan draum. Þarna birtist hann mér, maðurinn sjálfur í mynd hins holdkennda guðs, aðstoðarskólastjórinn. Hann potaði í mig og sagði mér að ég ætti ekki að liggja svona með teppi yfir mér eins og einhver róni, þetta liti illa út fyrir utanaðkomandi aðila sem heimsækja skólann (eins og skólinn sé uppfullur af ókunnugu fólki í vettvangsleiðangri), og svo væri bannað að vera með teppi.
Ég horfði agndofa á hann og trúði varla mínum eigin eyrum. Uppreisnarseggurinn sem ég er spurði ég hann rólega og kurteisislega hvort hann væri í fullri alvöru að tilkynna mér það að væri mér kalt, væri mér meinað að grípa til minna ráða til að halda á mér hita. Á þessum tímapunkti fauk hressilega í kallinn og hann öskraði á mig fyrir framan alla að ég væri bara eins og einhver róni og auðvitað væri bannað að vera með teppi yfir sér í skólanum! Auk þess sem hann reyndi að sannfæra mig um það að það væri sko bara ekki neitt kalt, og það sæist greinilega á skólasystrum mínum sem voru bara nokkuð léttklæddar. Mig langaði helst að lýsa því yfir að ég hefði lítinn sem engan áhuga á því að fylgja í fótspor kynsystra minna og klæða mig eins og glyðra í nákvæmlega engu samræmi við veðrið en ég ákvað að loka fyrir þverrifuna áður en fauskurinn tæki upp á því að klippa teppið mitt í ræmur og búa til músastiga úr því. Hann benti mér þó á að ég mætti vera með teppi í andyrinu. Ég spurði hann sallaróleg í fasi að sjálfsögðu hvort hann væri virkilega að stinga upp á því að ég leggðist niður með teppi í andyrinu. Maðurinn varð þá svo reiður að ég ákvað að grjóthalda kjafti á meðan hann kenndi mér mína lexíu og öskraði eitthvað óskiljanlegt niður til mín.
Að þessu loknu sat ég í sófanum, teppalaus og niðurlægð það sem eftir var dagsins. Mig langaði bara að koma eftirfarandi hlutum á framfæri:
Mér finnst alveg út í hött að teppi séu bönnuð innan veggja skólans.
Mér finnst óviðeigandi að aðstoðarskólastjóri skuli öskra á nemanda fyrir framan fullt af fólki fyrir það eitt að breiða yfir sig teppi.
Mér finnst að aðstoðarskólastjórinn ætti að hætta að klæðast þröngum bolum.
Takk fyrir mig.
Athugasemdir
Séns á sleik eða?
Brynjar Birgisson (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 02:14
sendu bréf til skólastjórans eða skólayfirvalda
i dare you
i doubledare you !
þrúður (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 18:01
Hvað er málið með þig og skólayfirvöld? Ykkur hefur aldrei komið saman. Það er ágætt, þú kallar ekki allt ömmu þína.
Elísabet Kristjánsdóttir, 18.10.2007 kl. 21:11
Já... sýndu honum í tvo heimana... komdu með skólabækurnar þínar í skólann í hagkaupskerru, drekktu vatn af vodkapela mættu í teppinu með hund í bandi og brotinn gítar. Til fjandans með hið akademíska skólaumhverfi Hekla!!!
Mamma
Kristín R (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 01:01
haha, ég segi bara, þú ert ekki í réttum skóla, það var nú þannig í fjölbraut í Breiðholti, minnir mig, að á einum tilteknum stað í skólanum var svona teppa og púðastaður þar sem hægt var að leggja sig í frímínútum og eyðum. Besti framhaldsskóli sem ég hef verið og hef ég talsverða reynslu, því að ég var ealltaf að rófa eitthvað nýtt. Gæti trúað að þú sért svona FB eða MH týpa :)
p.s. ég veit nú ekki hvað hún mamma þín eða pabbi segir við þessu..hmmm...að einhver bloggvinkona sé að segja að þú sért ekki í réttum skóla..
alva (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 10:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.