16.10.2007 | 02:15
Mæspeis.
Sem afsprengi mæspeiskynslóðarinnar og sérstakur áhugamaður um plássið sjálft finn ég mig knúna til að ausa hér úr brunni reiði minnar, þar sem það væri óviðeigandi og dónalegt að gera það á mæspeisinu sjálfu. Þetta vefsetur er á hraðri leið til heljar og verður meira og meira óþolandi með degi hverjum af eftirfarandi ástæðum:
SPAM: Auglýsingar fyrir megrunarkúra, frí gjafakort í Macy's, TYPPASTÆKKUNARPILLUR? Hættið bara að ýta á þetta, í guðanna bænum, er enginn búinn að ná þessu? Víííííruuuus. VÍÍÍRUUUUS! Það myndi spara mér mikinn tíma við að eyða út þessu rusli. Rúmlega helmingur síðanna hjá öllum mínum mæspeis-"vinum" er sýktur af þessum skelfilega sjúkdóm sem smitast hraðar en herpes undir fullu tungli á jónsmessunótt! Jesús, Pétur og María, passið ykkur.
TRÚGIRNI: Hafið þið einhverntíman frétt af einhverjum sem hefur verið skorinn í ræmur af eineygðri níu ára draugastúlku og blinda hundinum hennar Rúfus vegna þess að viðkomandi gerði þau mannlegu en stórhættulegu mistök að framsenda ekki viðvörunarbréfið sem hann fékk á mæspeis? Nei, líklegast vegna þess að það HEFUR ALDREI GERST. Og Tom er ekki að fara að skemmileggja síðuna þína afþví að þú framsendir ekki skilaboðin sem þú fékkst frá Önnu Guðmunds út í bæ til tuttugu mæspeis-"vina" á innan við sólarhring. Ef Tom skyldi detta í hug að eyða vefsíðum myndi hann líklega færa okkur fréttirnar sjálfur, sem þó væri skrýtið í ljósi þess að hann er löngu búinn að selja mæspeis.
HLJÓMSVEITIR OG BÚÐIR: Ég á mér þá ósk æðsta að óþekktar hljómsveitir úti í heimi og smekklausar uppboðssíður hætti "adda" mér. Ég á erfitt með að segja nei og sit þessvegna uppi með kristilegar metal-hljómsveitir og fatabúðir fylltar drasli af háaloftinu hjá ömmu. Ég vil ekki meir! LEYFIÐ MÉR AÐ VERA!
DÓNASKAPUR: Sóðaleg skilaboð frá sveittum perrum allt frá Úsbekistan til Sádi-Arabíu eru dottin úr tísku, hvað ætlast þeir eiginlega til að græða á þeim?
TOPPLISTAMÓRALLINN: Ég þoli ekki þegar fólk vælir yfir staðsetningu þess á mæspeis-topplistanum mínum. Vissulega gef ég sjálfri mér fullt leyfi til að skipta mér af því hvernig fólk hagar topplistanum sínum, en minn er eins og hann er og ef ég breyti honum er það á mínum eigin forsendum. Staðsetning gefur ekki beinlínis til kynna nákvæmt magn af væntumþykju minni í garð hvers og eins eftir röð, heldur fer listinn aðallega eftir því hversu mikið ég umgengst hvern og einn. Hjalti er reyndar undantekning, hann er bara í fyrsta sæti vegna þess að einhverntíman gerði ég samning við hann um að við yrðum að vera með hvort annað í fyrsta sæti á myspace að eilífu.
Jæja. Þá er því lokið. Mér líður strax miklu betur :)
Góða nótt.
Spurning dagsins: Afhverju er ekki hægt að ávarpa sjálfan sig með einskonar þérun?
Athugasemdir
Fólk hefur meira að segja böggast í mér útaf því að ég segji að Barbie sé besta vinkona min.
hún er dauður hlutur.
Tóta (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 19:33
.... vér!!! er þérun á eign sjálfum. Vér höfum fengið nóg eða vér erum glaðir... eða vér erum glaðr til að spara pláss á kálfaskinnsíðunum.
kv.
M.
kristín R. (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 00:16
Já, en gildir það ekki einungis þegar þú ert að tala um okkur, eða við sem hópur, vér mótmælum allir, við mótmælum allir? Hvernig myndi maður segja ÉG mótmæli með þérun? Vér mótmæli? Neiiiiii hvaða rugl, nú svimar mig oooooohh...
Hekla (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 01:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.